Skip to main content
Uncategorized

Ég er í samtökunum ´78

Kvöld eitt fyrir um 25 árum stóð ég í biðröð til að komast inn í Óðal, sem þá var einn af helstu skemmtistöðum borgarinnar. Með mér í för var kærastinn minn, síðar eiginmaður. Næstir á eftir okkur í röðinni voru þáverandi formaður Samtakanna ’78 og sambýlismaður hans. Eftir um hálftíma tíðindalausa bið var röðin komin að okkur að vera hleypt inn. Ég og kærastinn gengum inn, en síðan hrintu dyraverðirnir sambýlismanni formannsins frá, kipptu formanninum inn fyrir, fleygðu honum á grúfu í gólfið, settust ofan á hann og lömdu hann og létu svívirðingarnar dynja á honum – sögðust ekki vilja sjá hans líka inni á staðnum, og honum væri fyrir bestu að hætta að reyna að sækja staðinn.

Ég hafði ekki séð þvílíkar aðferðir viðhafðar nema til að hafa hemil á verstu slagsmálahundum á sveitaböllum, og var alveg gapandi hissa. Maðurinn hafði ekkert til saka unnið, hann var ekki að áreita neinn og var þarna bara í sömu erindagjörðum og ég – að fara út að skemmta sér með kærastanum sínum. En hann var hommi, og svoleiðis fólk var ekki velkomið í Óðal.

Enn þann dag í dag skammast ég mín fyrir að hafa ekki gert neitt í málinu – minnug þess sem Tómas Guðmundsson sagði: “Á meðan til er böl sem bætt þú gast, og barist var á meðan hjá þú sast, er ólán heimsins einnig þér að kenna”.

Svo líða árin, og ég fylgist úr fjarlægð með réttindabaráttu samkynhneigðra án þess að skipta mér neitt af henni. Enda voru persónuleg kynni mín af hommum og lesbíum afar lítil, þar til ein saumaklúbbsvinkona kom út úr skápnum hátt á fertugsaldri og hommi var síðar uppáhaldskennari yngstu dótturinnar. Síðustu árin höfum við farið á Gay Pride með dæturnar, til að sýna stuðning og taka þátt í gleðinni.

Og síðastliðið sumar – nokkrum dögum eftir gildistöku nýju laganna um réttindi samkynhneigðra – kom elsta dóttirin, 19 ára gömul, út úr skápnum. Þótt það kæmi okkur foreldrunum á óvart þá fannst okkur það ekkert tiltökumál og sögðum henni hvað hún ætti gott að koma út í þjóðfélag þar sem samkynhneigðir hafa öðlast sömu réttindi og gagnkynhneigðir á nánast öllum sviðum.

En það er ekki af sjálfu sér sem samfélagið hefur breyst svo mjög á síðustu 25 árum. Aldeilis ekki. Það er fyrst og fremst að þakka ötulli baráttu Samtakanna ’78 sem samkynhneigðir hafa fengið viðurkennd sjálfsögð mannréttindi sér til handa. Það er Samtökunum ’78 að þakka að dóttir mín þarf ekki að vera í felum með það hver hún raunverulega er. Því ákvað ég að ganga í Samtökin ’78 til að leggja mitt af mörkum og sýna þakklæti mitt, þótt ekki væri með öðru en að greiða félagsgjald.

Þá er komið að því sem er tilefni þessara skrifa. Þegar ég fékk í hendur félagsskírteini í Samtökunum ’78 þá stóð á því að ég væri félagi nr. 635. Ha? Númer 635? Það getur ekki verið. Það hljóta að vera fleiri þúsund manns í félaginu. Hvað mættu margir í síðustu Gay Pride göngu? Voru ekki um 30 þúsund manns í bænum til að sýna stuðning við samkynhneigða? Ég var svo hissa að ég hafði samband við framkvæmdastjóra samtakanna og spurðist fyrir um þetta. Jú, þetta var rétt, ég var 635. einstaklingurinn sem gengið hefur í samtökin. Frá upphafi. Og ég er ekki einusinni samkynhneigð.

Og af þessum 635 voru ekki nema rúmlega 400 sem greiddu félagsgjaldið í fyrra, að sögn framkvæmdastjórans, og var það þó metfjöldi. Miðað við þessar upplýsingar hlýtur það að teljast kraftaverk hverju samtökin hafa áorkað á þessum 29 árum sem þau hafa starfað. Það að dóttir mín skuli geta staðið stolt við það að vera eins og hún er – það er langur vegur frá barsmíðum dyravarðanna í Óðali forðum.

En þótt dóttir mín sé í góðum málum þá er fullt af krökkum úti um allt land sem eiga erfitt. Hvernig á strákur sem venst því að heyra pabba sinn nota orðin “helvítis hommatittur” sem skammaryrði að geta sætt sig við að vera sjálfur hommi? Hvað með unglinga í litlum plássum úti á landi? Það er örugglega ekkert grín að vera eini homminn í þorpinu. Ef unglingar heyra ekki talað um samkynhneigð nema í neikvæðum tón er hætt við að þau sem samkynhneigð eru veigri sér við að viðurkenna það fyrir sjálfum sér og öðrum. Það er enn mikið verk að vinna við að fræða fólk – börn og unglinga jafnt sem fullorðna, samkynhneigða jafnt sem gagnkynhneigða – um samkynhneigð.

Þar þurfa Samtökin ’78 á tilstyrk okkar að halda, okkar allra sem látum okkur réttindi og velferð samkynhneigðra varða. Því vil ég hvetja fólk til að ganga í Samtökin ’78 og greiða félagsgjaldið, með því styrkjum við félagið og gerum því auðveldara að fræða, aðstoða og berjast fyrir réttindum. Þið þurfið ekkert að vera hommar eða lesbíur; allir þeir sem styðja mannréttindabaráttu lesbía og homma og tvíkynhneigðra og markmið Samtakanna ´78 geta gerst félagar. Félagsgjald er 3500 kr. á ári en 2600 kr. fyrir nám
smenn og lífeyrisþega. Hægt er að skrá sig beint á heimasíðunni. Fyrir foreldra og aðra aðstandendur má einnig benda á FAS, Samtök foreldra og aðstandenda samkynhneigðra, sjá www.samtokinfas.is.

Guðrún Rögnvaldardóttir

 

Leave a Reply