Skip to main content
AldraðirGreinSamkynhneigð

„Ég verð að hrökklast inn í skápinn aftur. Ég þori ekki annað.“

Viðar Eggertsson leikari og leikstjóri skrifar:

Hvernig er að eldast hinsegin á Íslandi?

Þau sem stóðu að stofnun Samtakanna ’78 á sínum tíma eru nú komin á ellilífeyrisaldur. Af þeim sökum blasa við nýjar áskornir þessum hópi sem mörg hver þurfa að endurlifa gamla fordóma frá yngri árum sem þau höfðu sigrast á – nú á síðasta æviskeiðinu.

Við hjúkrunarheimilum landsins blasir alveg nýr veruleiki: Fólk sem er að koma þar inn hefur sumt verið opið með sína kynhneigð og út úr skápnum mestan hluta ævinnar. Þetta fólk hefur ekki verið í felum með hver þau eru og vill halda því áfram. Það vill ekki fara inn í skápinn af því það er komið á hjúkrunarheimili.

Sama máli gegnir í búsetukjörnum fyrir eldra fólk eingöngu.

Vinur minn einn býr á slíkum kjarna og þar er auðvitað fyrir fólk sem er á svipuðum aldri og hann eða eldra. Skyndilega var hann aftur kominn í sömu stöðu og sem ungur maður þegar hann var einn sem stóð í mannréttindabaráttu Samtakanna ’78. Þá þurfti hann að líða einelti og hatursorðræðu sem hann hafði kjark og dug til að berjast gegn. Hann er að upplifa þessa tíma aftur inni á íbúðakjarnanum og er að einangrast þar. Því hann lokar að sér og lætur lítið fyrir sér fara, því hann heyrir hvískrið, sér bendingar og augngotur. Í sameiginlegum rýmum er hann sífellt á varðbergi því hann óttast að þurfa að upplifa það sama og hann þurfti mörgum áratugum áður. Hann hefur ekki það þrek lengur að verjast augliti til auglitis. Eða eins og hann sagði við mig: „Ég verð að hrökklast inn í skápinn aftur. Ég þori ekki annað. Ég er að mæta aftur fólki sem sýndi mér andúð í gamla daga. Ég get ekki tekið þessum fordómum aftur.“

Fyrir nokkrum árum fór kona nokkur hér á landi inn á hjúkrunarheimili, en hún upplifði þar að það væri ekki tekið tillit til reynslu hennar og langrar sambúðar hennar með konu. Hún hafi í raun verið komin inn í skápinn aftur af því að ekki hafi verið gert ráð fyrir því að hún væri lesbísk. Ávallt sé gert ráð fyrir því, alveg frá leikskóla og upp úr, að foreldrar séu karl og kona og að maki sé af hinu kyninu.

Ekki fyrir löngu sagði forstöðukona hjúkrunarheimilis að þar væru engir fordómar í garð samkynhneigðra. Þegar hún var síðan spurð hversu margir íbúar heimilisins væru samkynhneigðir. Vissi hún um enga. Enga.

Í stærri samfélögum eins og Danmörku eru rekin sérstök hjúkrunarheimili og íbúakjarnar fyrir þennan hóp, því Danir hafa áttað sig á að við þessu þarf að bregðast.

Fyrir nokkrum árum birtist viðtal við gamlan Dana sem var orðinn ekkill. Hann hafði stungið myndunum af sér og manninum sínum niður í skúffu. Honum fannst erfitt að þurfa að koma út úr skápnum aftur gagnvart öllu starfsfólkinu á þessu nýja heimili sínu, svo hann bara hrökklaðist inn í skápinn aftur. Svo var stofnað þetta nýtt hjúkrunarheimili, hann flutti þangað og er með allar sínar fjölskyldumyndir og regnbogafána upp um alla veggi, alls staðar. Þetta skiptir máli, það skiptir máli að fá að hvíla sæll í sjálfum sér, sama hvar þér er holað niður.

Í október sl fór fram norræn ráðstefna í Stokkhólmi um stöðu eldra hinsegin fólks á Norðurlöndunum með þátttakendum frá Íslandi, Svíþjóð, Grænlandi, Danmörku, Færeyjum, Noregi, Álandseyjum og Finnlandi.

Í lok ráðstefnunnar var samþykkt yfirlýsing sem birtist HÉR á íslensku.

Greinin birtist fyrst á vefsíðu Lifðu núna 14. desember 2024.