Skip to main content
Uncategorized

Er einhver þeirra er fæddur sem kona?

By 6. janúar, 2010No Comments

Erindi eftir Önnu Kristjánsdóttur flutt í Háskóla Íslands Íslands 16. nóvember 2009.

Einu sinni var ég ein í heiminum, kannski ekki alein því ég vissi af fólki þarna úti, en samt alein því fólkið þarna úti var svo fjarlægt. Ég minnist þess er ég á unglingsárunum heyrði fyrst af breskum sjómanni sem hafði farið í gegnum aðgerðarferli í Marokkó og orðið kona, að ég öfundaði hana útaf lífinu því sjálf átti ég í mikilli tilfinningabaráttu. Ég hafði sjálf alist upp með konu inni í mér og þorði ekki fyrir mitt litla líf að segja neinum frá tilfinningunum mínum.

Er einhver þeirra fæddur sem kona

Einhver þessara manna er fæddur sem kona, getið þið séð hver? 

Ég hefi ekki nafnið á manninum sem er lengst til vinstri, en hann er frá Suður-Ameríku, síðan kemur Stephen Whittle prófessor í lögum við háskólann í Manchester, varaformaður Press for Change, samtaka transgender fólks í Englandi, hann er einnig forseti WPATH, þ.e. World Professional Association of Transgender Health og formaður Evrópsku Transgendersamtakanna, síðan kemur Jamison Green frá Bandaríkjunum, lögfræðingur og fyrirlesari og höfundur bókarinnar Becoming a Visible Man. Þá er Armand Hotimski, formaður stuðningssamtaka transsexual fólks í Frakklandi Caritig. Loks glittir aðeins í Justus Eisfeld frá Þýskalandi og nú búsettur í Bandaríkjunum. Hann var formaður Evrópsku transgendersamtakanna þar sem ég sat í stjórn 2005 – 2008.

Einu sinni var ég ein í heiminum, kannski ekki alein því ég vissi af fólki þarna úti, en samt alein því fólkið þarna úti var svo fjarlægt. Ég minnist þess er ég á unglingsárunum heyrði fyrst af breskum sjómanni sem hafði farið í gegnum aðgerðarferli í Marokkó og orðið kona, að ég öfundaði hana útaf lífinu því sjálf átti ég í mikilli tilfinningabaráttu. Ég hafði sjálf alist upp með konu inni í mér og þorði ekki fyrir mitt litla líf að segja neinum frá tilfinningunum mínum. Ég hafði jú fæðst og alist upp á Íslandi þar sem orð á borð við transsexual eða transgender voru gjörsamlega óþekkt hjá fólki og allt tal um að það væri eðlilegt að fólk léti breyta kyni sínu var óhugsandi heldur var það eitthvað sem einungis var til í spillingunni í Hamborg og Bangkok og Bogney Street í Singapore en alls ekki á hinu saklausa Íslandi. Samt var ég hér á Íslandi og fann fyrir þessum tilfinningum. Því fór ég öfuga leið á unglingsárunum, fór til sjós, reyndi mitt besta til að bæta karlmennskuímynd mína, kvæntist og átti börn. Svona gekk þetta þar til ég var komin yfir þrítugt og fór að sækja mér aðstoð. 

Síðan liðu mörg ár. Ég fór í burtu og kom aftur til Íslands og ekki bara ég heldur þó nokkrar aðrar manneskjur sem hafa farið svipaða vegferð og ég og okkur fer fjölgandi.

Hvað er transgender?

Orðið transgender er nýlegt orð, heyrðist fyrst á áttunda áratugnum og þá notað yfir það fólk sem kaus að lifa í öðru kyngervi en því líkamlega, en sem gat ekki eða vildi ekki  fara alla leið og fara í gegnum sársaukafullar og erfiðar aðgerðir til að láta breyta líkama sínum. Mikill fjöldi þessa hóps taldist eiginlega hvorki með transsexual fólki sem vildi ganga alla leið, né þeirra sem höfðu gaman af því að breyta til og klæða sig í föt af andstæðu kyni sér til ánægju, auk þess sem aðrir hópar í samfélaginu áttu hvergi heima í þessum skilgreiningum transsexual fólks og transvestites. Því kom stofnandi Foundation of Personality Expression (FPE), Virginia Prince, fram með þetta nýja heiti yfir millihópana og smám saman varð það að nokkurs konar málamiðlun á milli fólks sem telst vera transsexual, þ.e. þess fólks sem vill helst af öllu ganga alla leið í breytingum að andstæðu kyni við hið fædda líkamlega kyn og hinna sem kallast transvestite stundum kallaðra klæðskiptinga. 

Með þessu orði var um leið komin nokkurs konar regnhlíf yfir allt það sem kalla má á milli kynja, transsexual, transvestite, intersex fólks eða þeirra sem eru með leynda litningagalla eins og Klinefelder syndrome, jafnvel má kalla til sögunnar dragdrottningar. Allt þetta fólk má flokka sem transgender og verður þá transsexual hópurinn gjarnan í minnihluta þessari flóru transgender fólks þótt við verðum oft mest áberandi í hópnum.

Í framhjáhlaupi er áhugavert að geta eins minnsta hópsins innan transgender hugtaksins. Vegna gruns um að karlmenn frá Austur-Evrópu væru látnir keppa í kvennaflokkum í íþróttum var hafist handa árið 1966 að framkvæma litningapróf á íþróttakonum á Evrópuleikunum í frjálsum íþróttum í Búdapest. Tveimur árum síðar, á vetrarólympíuleikunum í Grenoble í Frakklandi var stúlka ein frá Austurríki send heim með þau skilaboð að hún væri karlkyns. Við rannsókn eftir að heim var komið kom í ljós að hin meðfæddu kvenlegu ytri kynfæri hennar földu virk kynfæri karlmanns og hún því í reynd tvíkynja. Umrædd stúlka sem hafði verið spáð mikill
i velgengni í skíðaíþróttum fór síðar í aðgerð til leiðréttingar á kynferði sínu þar sem besífanum var sleppt út og lifir viðkomandi í dag eðlilegu lífi sem karlmaður. Kannski er dæmið um suður-afrísku stúlkuna Caster Semaneya eitthvað álíka án þess að ég vilji kveða upp neinn úrskurð um það mál og hefi ekki fylgst mikið með því í fréttum. En nóg um aðra hópa í bili. 

Ég hefi kosið að fjalla fyrst og fremst um það fólk sem gengur alla leið, fer í gegnum aðgerðarferlið allt og fær sér nýtt nafn og kynferði í samræmi við lagabókstafinn, þ.e. það fólk sem kalla má transsexual.

Transsexual er sú manneskja sem finnst hún eiga að tilheyra andstæðu kyni við hið líkamlega, hefur haft þessa tilfinningu frá barnæsku og að tifinningin er stöðugt að angra hana. Þessi tilfinning hefur ekkert með kynhneigð að gera og algeng bæði meðal fæddra karla og kvenna, finnst í öllum löndum og meðal allra þjóðfélagshópa. Sömuleiðis er þetta þekkt í gegnum gjörvalla mannkynssöguna. Einasta ráðið til að laga þetta ástand er að gangast undir meðferð og aðgerðir til að aðlaga líkamann að hinu óskaða kyni. 

Sagan

Dæmi um transgender er þekkt frá ómunatíð. Þetta var þekkt á meðal forn-Grikkja og rómverja og frægasta dæmið frá miðöldum er sjálf Jóhanna frá Örk, þjóðardýrlingur Frakklands. Þá má einnig nefna Chevalier D’Eon (1728-1810), franskan diplómat sem lifði seinnihluta ævi sinnar í kvenhlutverki þótt ekki hafi verið unnt að framkvæma aðgerðir á þeim tíma. Svipaða sögu má segja um Albert Cashier, írskfæddan hermann í bandarísku borgarstyrjöldinni 1861-1865, síðar landbúnaðarverkamann í Illinois í Bandaríkjunum. Eftir andlát hans kom í ljós að hann var líkamlega kvenkyns og hafði verið skírður Jennie Irene Hodgers eftir fæðingu 1843. 

Það varð mikil vakning meðal þýskra lækna og áhugamanna um kynferðisleg málefni um og eftir aldamótin 1900. Fremstir í flokki urðu Harry Benjamin og Magnús Hirschfeld. Benjamin var í Bandaríkjunum er fyrri heimsstyrjöldin braust út og er hann var á heimleið, var hann handtekinn af Bretum og snúið aftur til Bandaríkjanna þar sem hann bjó það sem hann átti eftir ólifað, en hann lést árið 1986 101 ára að aldri. Hann var sá sem byrjaði að gefa transsexual fólki hormón til að auka getu þeirra til að lifa í nýju kynhlutverki, var t.d. helsti hjálparmaður Christine Jörgensen, April Ashley og fleiri sem ruddu brautina fyrir okkur hin. Í Þýskalandi komst verulegur skriður á málefni transgender fólks og þá sérstaklega með stofnun Magnúsar Hirschfeld á Institut für sexualwissenschaft í Berlín árið 1919. Næstu árin voru framkvæmdar verulegar rannsóknir á högum transgender fólks. Það var svo 1930 sem danski málarinn Einar Wegener fór í gegnum aðgerðarferli í Dresden og breytti nafni sínu í Lili Elbe. Lili Elbe lést svo haustið 1931 eftir fimmtu aðgerð sína. Dorchen (eða Rudolph R.) sem starfaði sem þjónustustúlka við stofnun Magnúsar fór svo í aðgerð í Dresden 1931. 

Eins og gefur að skilja var Magnús Hirschfeld illa þokkaður meðal nasista sem voru rísandi aflí Þýskalandi millistríðsáranna. Magnús hafði ýmislegt til að bera sem fór í taugarnar á Hitler og félögum. Hann var sósíalisti, gyðingur og hommi. Í bókabrennunum miklu 10. maí 1933 var allt bókasafn stofnunarinnar borið á bálköst, og stofnuninni lokað. Sjálfur hafði Magnús verið á fyrirlestaferðalagi og komst aldrei lengra en til Parísar þar sem hann dvaldi það sem eftir var, en hann lést árið 1935. Af Dorchen fréttist það eitt að hún var send í útrýmingarbúðir. Það hafa heyrst sögusagnir þess efnis að hún hefði lifað af útrýmingarbúðirnar, en það er óstaðfest og hugsanlega álíka trúlegt og það að Adolf Hitler sé enn á lífi.

Breskur læknir að nafni Laurence Michael Dillon (áður Laura Dillon) fór í gegnum breytingu árið 1948 og var breytt í karlmann. Ég man sögu hans ekkert sérlega vel en þó mun hann hafa farið til sjós á eftir og síðar gerst Búddamunkur en hann lést árið 1962. Um leið verður að viðurkennast að breytingin var meira andlegs efnis ásamt með hormónum, en skurðaðgerðir fólust fyrst og fremst í brjóstaminnkun og brottnámi legs, en ekki var búið til typpi á menn á þessum tíma. Það var svo 1952 sem það sem kallað er fyrsta nútíma kynleiðréttiaðgerðin var framkvæmd, allavega sú fyrsta sem hlaut alþjóðaathygli, en það var Georg Jörgensen sem varð að Christine eftir vel heppnaða aðgerð sem framkvæmd var af Dr. Christian Hamburger, lækni í Kaupmannahöfn. Christine Jörgensen var einnig heppin. Harry Benjamín sá til þess að Christine Jörgensen fékk hormónagjafir að þörfum, en notkun hormónalyfja olli straumhvörfum í meðferð transgender fólks á sjötta áratugnum og allar götur síðan. 

Á Norðurlöndunum er staðan sú að fyrsta aðgerðin var gerð í Danmörku 1952 eins og áður er sagt, í Svíþjóð var fyrsta aðgerðin 1955 og 1962 í Noregi. Í Finnlandi var fyrsta aðgerðin framkvæmd 1996 og á Íslandi 1997, en hér hafa verið framkvæmdar þrjár aðgerðir, en íslensk yfirvöld hafa að undanförnu farið þann veg að senda viðurkennda umsækjendur til Svíþjóðar í aðgerð til leiðréttingar á kyni og er það vel. 

Lengi vel einkennd
ist meðferðin af mikilli íhaldssemi og vantrausti gagnvart þeim aðila sem óskaði leiðréttingar á kyni og kom það ágætlega fram í fjölda fólks sem komst í gegnum meðferðarferlið. Þannig þótti eðlilegt að einungis 10 til 12 manns kæmust í gegnum nálaraugað á ári í Svíþjóð á þeim tíma sem ég fór í gegnum mitt aðgerðarferli, en á þeim nærri fimmtán árum sem liðin eru síðan þá, hefur fjöldi þeirra sem komist hafa í gegnum nálaraugað meira en tvöfaldast, en þar í landi er heildarfjöldi folks sem farið hefur í gegnum aðgerðarferlið nærri þúsund.  

Meðferðarferlið.

Á þeim árum sem ég var að berjast minni baráttu mátti lýsa meðferðarferlinu á eftirfarandi hátt:

 

  • Umsækjandinn þurfti að sýna stöðugan vilja til breytingarinnar sem hafði staðið yfir frá barnæsku og fram að umsókn.
  • Umsækjandi þurfti að vera sannanlega laus við hina ýmsu geðsjúkdóma á borð við geðklofa, ofsóknarbrjálæði, eðlislægt þunglyndi o.fl.
  • Umsækjandi mátti ekki þjást af alkóhólisma eða fíkn í eiturlyf. Það var ekki tekið tillit til þess ef alkóhólisminn taldist afleiðing kynáttunarvandans.
  • Umsækjandinn þurfti að vera með allt að því hreint sakavottorð. Þannig mátti viðkomandi ekki hafa verið tekinn fullur við akstur því þar með komu tveir neikvæðir punktar inn í ferilskrána.
  • Umsækjandinn þurfti að sýna fram á möguleika á eigin framfærslu og að geta haldist í vinnu.
  • Umsækjandinn þurfti að hegða sér að hætti óskaða kynferðisins í minnst tvö ár og þar af minnst eitt ár á hormónalyfjum áður en umsókn var tekin til greina. Þá þurfti að vera tryggt að viðkomandi hefði ekki möguleika á að fjölga sér!
  • Umsækjandinn þurfti að sýna fram á að kynferðislegi áhuginn fyrir eigin líkamlegu kyni væri lágur fyrir aðgerð og helst átti hann að skipta algjörlega um kúrs í kynhneigð eftir aðgerð, enda vottaði enn fyrir gömlu fordómunum gagnvart samkynhneigð í reglugerðum fram á miðjan tíunda áratuginn og gerir kannski enn.
  • Umsækjandinn þurfti að vera sænskur þegn og búsettur í Svíþjóð.

 

Sú harka sem einkenndi meðferðarferlið hefur sem betur fer minnkað stórlega á undanförnum árum, þá aðallega vegna yngri sérfræðinga sem líta ekki á það sem heilaga skyldu sína að koma í veg fyrir að fólk fari sér að voða með eigin líkama og vernda fólk frá sjálfu sér eða að það geri eitthvað sem er í andstöðu við það sem flokka má sem félagleg viðmið samfélagsins.

Eftir að farið var að vinna með einstaklinga sem þjáðust af kynáttunarvanda á Íslandi, var sú leið valin að fara eftir dönskum reglum sem þóttu enn strangari en í Svíþjóð og því sluppu mjög fáir í gegnum nálaraugað. Á undanförnum árum hefur verið tekin mun frjálslegri stefna hér á landi undir stjórn Óttars Guðmundssonar til samræmis við breytingar í alþjóðasamfélaginu og er það vel. Það er hinsvegar ekki mitt að fjalla um slíkt, enda mun Anna Jonna taka þróunina í þessum málum fyrir á morgun.

Áður en ég lýk máli mínu í dag og svara fyrirspurnum ef einhverjar eru, langar til að kynna fyrir ykkur eitt merkilegt fyrirbæri.

Öfuguggi er orð sem stundum hefur verið notað um okkur af fólki sem telur sig vera óvini okkar eða vill sýna okkur fyrirlitningu. Þetta litla sæta verkfæri á myndinni er stundum kallað öfuguggi en eins og sjá er það með hinsegin gengjur.

Ofuguggi

 

 

og hópur öfugugga lítur því svona út:

Hópur öfugugga

 

 

 

Að lokum þetta: 

Kynáttunarvandi eða transgender hafa stundum verið talin til sjúkdóma, þá væntanlega einskonar geðsjúkdóma. Ég var á ráðstefnu í Genf fyrir fáeinum árum þar sem læknir einn fjallaði um sjúkdómsgreiningu transgender fólks og sagði meðal annars eftirfarandi sem ég vil gera að orðum mínum hér í dag: Einasti transsjúkdómurinn sem vitað er um heitir Transfóbía.

Leave a Reply