Skip to main content
Uncategorized

Erindi flutt í Fríkirkjunni 15. janúar 2006

By 15. janúar, 2006No Comments

Mig langar til að fjalla um afstöðu mína til kirkjunnar. Mig grunar reyndar að hún sé svipuð afstöðu svo margra annarra. Kirkjan hefur alltaf verið á sínum stað, hluti af tilveru minni frá fæðingu, a.m.k. frá skírninni og hluti af tilveru foreldra minna og forfeðra.

Ég hef ekki verið sérlega kirkjurækin, en hef sótt kirkju á stórhátíðum og auðvitað í hvert sinn sem sérstök tilefni í fjölskyldunni kalla á það. Um tíma, á unglingsárunum, velti ég trúmálum töluvert fyrir mér og sótti ungliðastarf í sókninni minni. Frá þeim tíma, og það eru satt best að segja all nokkur ár, hef ég lítið sinnt kirkjunni og þegar trúmál hefur borið á góma hef ég oftar en ekki fullyrt að ég þyrfti ekki veraldlegar byggingar til að velta fyrir mér kristinni trú.

Það er ekkert launungarmál að um tvítugt, þegar ég hafði gert sjálfri mér og öðrum grein fyrir að ég væri samkynhneigð, þá varð ég andsnúin kirkjunni, enda þótti mér kirkjan andsnúin mér. Reyndar var ýmislegt í þjóðfélaginu andsnúið mér, en viðhorf til samkynhneigðra hafa gjörbreyst frá því að ég var um tvítugt. Hver hefði trúað því þá, þegar ekki mátti auglýsa samkomur homma og lesbía í Ríkisútvarpinu af því að orðin ein áttu að særa blygðunarkennd almennings, að ekki svo löngu síðar gætu samkynhneigðir gengið í staðfesta samvist?

Eftir að ég gekk sjálf í staðfesta samvist og eftir að ég og kona mín eignuðumst dætur okkar hafa trúmál sótt á mig af meiri þunga en áður. Ég vildi að þær systur yrðu skírðar í kirkju. Þá hafði ég breytt röksemdafærslu minni, á þann hátt að þótt einhverjir starfsmenn kirkjunnar væru andsnúnir samkynhneigðum þá væri þetta samt kirkjan mín og ég ætti allan rétt til hennar. Og þær systur voru skírðar í kirkju.

Þótt ég vilji kirkjuna mína og telji mig hafa sama rétt til hennar og aðrir, þá hefur það kostað mig töluverðar vangaveltur að átta mig á hvers vegna. Þetta kann einhverjum að þykja undarlegt, því ég hef jú játað lúterska trú, eins og konan mín. Skírðar og fermdar inn í kirkjuna, báðar tvær. Var það ekki ástæða þess að við vildum að stelpurnar yrðu skírðar í kirkju? Og er það ekki ástæða þess að við viljum hafa sama rétt til þess og aðrir að fá samband okkar blessað í kirkju, rétt eins og önnur hjón?

Þegar ég skoða hug minn, þá á ég mjög erfitt með að átta mig á því hvað er barnstrúin sem foreldrar mínir innrættu mér og hvað er siðareglur sem þau kenndu mér líka og flest velmeinandi fólk reynir að lifa eftir, alla ævi. Er þetta ekki svo nátengt hvort öðru að ekki verður skilið á milli? Er ég kannski ekki trúuð? Kannski telst ég ekki vera það, en ég er handviss um að ég er kristin. Ég er til dæmis sannfærð um gildi þess að koma fram við aðra eins og ég vil að þeir komi fram við mig. Og er þá komin í hring, siðareglurnar orðnar trúarboðskapur og öfugt. Hvar eru mörkin á milli þess að trúa og þess að reyna að lifa eftir boðskap sem er trúarlegur og um leið sammannlegur boðskapur kærleika?

Og hvað með hefðirnar? Hvar eru mörk trúar, þess að vilja vera sæmileg manneskja og þess að vilja halda í heiðri hefðir kirkjunnar, sem tengja fjölskyldur saman, mann fram af manni?

Hversu margir þeirra, sem ganga í hjónaband í kirkjum landsins á ári hverju, gera það eingöngu vegna þess að þeir vilja vígslu fyrir augliti drottins? Er ástæðan kannski líka sú, að tveir einstaklingar sem elskast og vilja halda gömul og góð fjölskyldugildi í heiðri, kjósa að ganga í hjónaband eins og hefðin býður og jafnframt ala upp börn sín innan vébanda kirkjunnar? Er hægt að skilja eina ástæðuna frá annarri?

Það er alls ekki ætlun mín að gera lítið úr trú fólks sem sækir kirkjurnar okkar. Til þess hef ég engar forsendur og engan rétt. Mig langaði bara að vekja máls á því, hve samofin kirkjan er öllu okkar lífi, öllum helstu viðburðum í fjölskyldum okkar, skilgreiningu okkar á því hver er hvað eða hver er hvers. Samkynhneigðir hafa, rétt eins og aðrir Íslendingar, alist upp í þessu sama andrúmi trúar, siðferðis og hefða, þar sem ómögulegt er að greina eitt frá öðru. Það er ástæða þess að ég sem samkynhneigð kona vil njóta sama réttar innan kirkjunnar og aðrir. Hún er svo stór hluti samfélags okkar, svo órjúfanlega tengd samfélaginu, að samkynhneigðir hljóta að vilja njóta þar jafnræðis. Svo náin tengsl kirkju við landsmenn alla ættu að vera kirkjunnar mönnum fagnaðarefni.

Þróun mannréttinda styður þessa kröfu samkynhneigðra um jafna stöðu innan kirkjunnar. Kirkjan hefur hingað til borið gæfu til þess að fylgja þjóðinni í mannréttindamálum. Eða getur einhver núna ímyndað sér kirkjuna setja sig upp á móti kvenréttindum, svo eitt dæmi sé tekið?

Mannréttindi eru endurspeglun samfélagins sem við búum í. Á Íslandi njótum við ríkrar mannréttindaverndar, sem er auðvitað fagur vitnisburður um samfélag okkar. Víðtæk mannréttindavernd getur aldrei verið vísbending um hnignandi siðferði samfélags, heldur þvert á móti um styrk þess, samkennd og kærleika. Þess vegna er öflugur stuðningur almennings á &Iacute
;slandi við réttindabaráttu samkynhneigðra sönnun þess að hér býr siðferðilega sterk þjóð, sem lifir eftir kristnum og sammannlegum gildum kærleika. Þjóð, sem vissulega heldur fast í hefðirnar sínar, en lætur kærleika í garð annarra ráða meiru. Þjóð, sem vill standa þétt að baki kirkjunni, en um leið ekki loka kirkjudyrum fyrir neinum.

Leave a Reply