Skip to main content
search
Uncategorized

Erindi stjórnar samtakanna ´78 til biskups Íslands

By 8. janúar, 2006No Comments

Þú kýst að setja þetta mál fram sem svo að tillaga Guðrúnar þvingi þjóðkirkjuna til löggiltrar vígslu á samböndum samkynhneigðra en svo er alls ekki. Þjóðkirkjunni er algerlega í sjálfsvald sett hvort og hvenær hún stígur það skref, en aðrir söfnuðir eða trúfélög, sem nú þegar hafa lýst vilja sínum til að gefa saman samkynhneigð pör og staðfesta samvist þeirra með athöfn að lögum, hafa þá þann sjálfsagða og lýðræðislega rétt.

Reykjavík 6. janúar 2006

Hr. Karl Sigurbjörnsson, biskup
Biskupsstofu
Laugavegi 31
101 Reykjavík

ERINDI FRÁ STJÓRN SAMTAKANNA ´78
Samtökin ’78 lýsa furðu sinni og vonbrigðum á ummælum þínum á nýársdag og í fréttum um samkynhneigða og hjónaband sem lýsa fordómum og fáfræði. Sérstaklega er hér átt við nýárspredikun þá sem þú fluttir í Dómkirkjunni og viðtal í fréttum NFS mánudaginn 3. janúar. Þar óskaðir þú þess að Alþingi afgreiddi ekki boðaða breytingartillögu Guðrúnar Ögmundsdóttur, alþingismanns, um heimild til handa forstöðumönnum trúfélaga til vígslu samkynhneigðra para. Í því sambandi sagðir þú „hjónabandið eiga það inni hjá þjóðinni að því sé ekki kastað á sorphaugana“. Mörgum hefur sárnað mjög þessi orð þín og hafa þau víða valdið angist þar sem þú ert almennt talinn mikilvægur leiðtogi þjóðarinnar í trúarefnum og völd þín leyna sér ekki í því tilliti. Orðin er ekki hægt að skilja á annan veg en þann að þú teljir fjölskyldulíf samkynhneigðra eiga heima á sorphaugunum og að með þeim rétti sem um ræðir verði heilagt hjónaband gagnkynhneigðra saurgað og gert ómerkt .

Þú kýst að setja þetta mál fram sem svo að tillaga Guðrúnar þvingi þjóðkirkjuna til löggiltrar vígslu á samböndum samkynhneigðra en svo er alls ekki. Þjóðkirkjunni er algerlega í sjálfsvald sett hvort og hvenær hún stígur það skref, en aðrir söfnuðir eða trúfélög, sem nú þegar hafa lýst vilja sínum til að gefa saman samkynhneigð pör og staðfesta samvist þeirra með athöfn að lögum, hafa þá þann sjálfsagða og lýðræðislega rétt.

Stjórn Samtakanna ´78 harmar að nýja árið skyldi ganga í garð með slíkum stóryrðum og leiðindum og ályktar að þú gætir haft af því gagn að kynna þér menningu og fjölskyldulíf samkynhneigðra áður en fleiri gífuryrði eru látin falla í þessum dúr. Því bjóða Samtökin ´78 þér og biskupsstofu sérstaka fræðslu um málefni samkynhneigðra, stofnun þinni að kostnaðarlausu, og ennfremur fullan aðgang að bókasafni Samtakanna ’78 á Laugavegi 3 þar sem mikið safn fræðirita, bóka og kvikmynda um líf og reynslu samkynhneigðra er að finna. Safnkostinn er allan að finna á landsgrunni bókasafna, Gegni, þér til frekari glöggvunar. Við erum þess fullviss að það myndi veita þér nýja innsýn og innblástur til kærleiksástar og jafnréttis. Loks er það ósk okkar að áður en þú tjáir þig frekar um okkar málefni megir þú hafa það hugfast að aðgát skal höfð í nærveru sálar.

 

Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Samtakanna ’78

Hrafnhildur Gunnarsdóttir
Formaður

Afrit sent fjölmiðlum

Leave a Reply