Skip to main content
search
Uncategorized

Fagnaðarfundur 40 árum eftir Stonewall

By 1. júlí, 2009No Comments

„Ég hélt ég yrði allan daginn að finna þetta!“ var haft eftir einni samkynhneigðri miðbæjarrottunni þegar hún skilaði sér loks á 31 árs afmælishátíð Samtakanna 78 laugardaginn 27. júní síðastliðinn. Vel eftir áætlaðan opnunartíma hátíðarinnar. Hátíðin var til tilbreytingar haldin utandyra, í fallegu rjóðri í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og var viðkomandi miðbæjarrotta ekki ein um að vera lengi að finna hátíðarsvæðið.

Þannig fréttist til dæmis af tveimur villuráfandi lesbíum sem í drjúga stund hnituðu hringi innan garðsins á Toyota Yaris, en eins og mörgum er ef til vill kunnugt er ekki mælst til þess að fólk sé mikið að þenja vélknúin ökutæki innan girðingar. Hvort sem um var að kenna ratleysi þeirra sem sjaldan fara austur fyrir Snorrabraut, almennri sumarværð, eða einhverju allt öðru var fólk lengi að hafa sig á svæðið og hófst hátíðin því ekki fyrr en um klukkan 15. Klukkutíma á eftir áætlun. Þetta kom þó alls ekki að sök. Veðrið var gott, skemmtiatriðin ekki af verri endanum og boðið upp á grillaðar pylsur og gos eins og hver gat í sig látið. Gleðin var því í fyrirrúmi hjá þeim tæplega 100 gestum sem létu sjá sig.

Söngur og mannréttindi

Eftir stutta tölu Frosta Jónssonar formanns steig Felix Bergsson á svið við mikinn fögnuð, sérstaklega þeirra í yngri kantinum, og skemmti fólki með nokkrum vel völdum lögum. Því næst stigu Guðfríður Lilja Grétarsdóttir alþingismaður og Hilmar Magnússon ritari Samtakanna á svið og afhentu Mannréttindaviðurkenningu Samtakanna 78 fyrir árið 2009. Viðurkenningarnar, sem nú voru veittar í þriðja skipti, fóru að venju til þriggja aðila sem að mati stjórnar félagsins hafa með einhverjum hætti lagt ómetanleg lóð á vogarskálar baráttu hinsegin fólks í gegnum tíðina. Um er að ræða einstakling sem starfað hefur á vettvangi Samtakanna og tengdra félaga, einstakling utan félags og félagasamtök, stofnun eða fyrirtæki. Að þessu sinni hlutu viðurkennningarnar Heimir Már Pétursson framkvæmdastjóri Hinsegin daga, Birna Þórðardóttir baráttukona og menningarfrömuður og Fríkirkjan í Reykjavík.

Heimir minntist í þakkarræðu sinni söng- og leikkonunnar Judy Garland og 40 ára afmælis uppreisnarinnar á kránni Stonewall í New York. Uppþotin urðu einmitt þegar lögregla borgarinnar ætlaði venju samkvæmt að angra hinsegin fólk með tilefnislausum handtökum og öðru ofbeldi. Þennan dag, þann 27. júní 1969, voru hommar, lesbíur og dragdrottningar hins vegar komin saman til að syrgja Judy á dánardægri hennar og ekki á þeim buxunum að láta lögguna spilla þeirri merkilegu stund. Því fór sem fór. Upphaf hinnar eiginlegu réttindabaráttu hinsegin fólks hafði verið markað. Heimir minntist að lokum á að Gleðigöngur nútímans séu vettvangur til að gleðjast yfir sigrunum í hinni löngu og ströngu baráttu og tileinkaði því viðurkenningu sína öllum þeim sem á undan hafa gengið.

Hjalti Úrsus, Hadríanus og Antínóus

Birna hóf mál sitt á að biðja Hjalta Úrsus Árnason að hafa lægra, en svo háttaði til að kraftakarlar Íslands, undir forystu hans, stóðu á sömu stundu fyrir kraftakeppni í næsta rjóðri með tilheyrandi hávaða og hvatningarópum. Þegar færi gafst hélt Birna svo áfram með hina eiginlegu ræðu og fjallaði um þakklætið, ástina, vináttuna og virðinguna. Þetta gerði hún með því að segja hina hjartnæmu sögu af Hadríanusi Rómarkeisara og Antínóusi ástmanni hans sem drukknaði í Nílarfljóti í október árið 130 einungis tvítugur að aldri. Antinous varð keisaranum þvílíkur harmdauði að hann fyrirskipaði að pilturinn skyldi tekinn í guða tölu ásamt því að láta reisa honum til dýrðar ógrynni líkneskja víða um keisaradæmið og jafnvel nefna eftir honum borgir. Antínóus á því líkast til það andlit sem oftast kemur fyrir í verkum frá hinu klassíska tímabili. Undurfögur ásjóna hans hefur löngum þótt til vitnis um að þar hafi farið hinn fullkomni karlmaður en höggmyndirnar kalla ósjálfrátt einnig fram söguna af ástarsambandi þeirra tveggja og minna okkur því allt í senn á ástina, vináttuna, þakklætið, hamingjuna og auðvitað sorgina. Birna tileinkaði því þeim Antínóusi og Hadríanusi viðurkenningu sína.

Þar sem enginn var kominn til að veita viðtöku viðurkenningu Fríkirkjunnar hélt dagskráin að þessu loknu áfram með tónlistarflutningi Haffa Haff. fram eftir degi og var góður rómur gerður að. Látlausri en vel heppnaðri afmælishátíð Samtakanna 78 2009 lauk svo á fimmta tímanum. Ekki annað vitað en að allir hafi ratað klakklaust til síns heima.

Hilmar Magnússon

Leave a Reply