Félagsfundur að vori var haldinn laugardaginn 7. maí í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins. Fundinn sóttu um 20 manns og var honum stýrt af Alexöndru Briem, forseta borgarstjórnar. Fundardagskrá var svohljóðandi:
- Ræða formanns
- Framkvæmd kosninga. Utankjörfundaratkvæði og rafrænar kosningar.
- Kynning á húsnæðismálum og tillögur að framtíðarsýn
- Kynning á spurningalista til framboða vegna sveitarstjórnakosninga
- Önnur mál
Að fundinum loknum fór fram viðburðurinn Kynslóðaspjall trans karla. Viðburðinn sóttu ríflega 50 manns og var hann ákaflega vel heppnaður, enda skemmtilegur og fræðandi bæði í senn. Þátttakendur voru þeir Nóam Óli Stefánsson (17), Kristmundur Pétursson (25), Snævar Óðinn Pálsson (31) og Flóki Rán Ægis (40). Umræðum stýrði Siggi Gunnars.
Á laugardagskvöldið var aldamótapartí á Loft. Þar var mikið stuð og stemning og veitt voru verðlaun fyrir besta búninginn.
Mánudaginn 9. maí hélt veislan áfram þegar Samtökin ‘78 fögnuðu 44 ára afmæli. Af því tilefni var gestum og gangandi boði til afmælisboðs en talið er á milli 60 og 70 manns hafi komið og fagnað með okkur. Boðið var upp á drykki, veitingar og veglega 50 manna afmælistertu. Mars Proppé, gjaldkeri, og Lana Kolbrún Eddudóttir, formaður 1989-90 og 1993-94, fluttu ræður í tilefni dagsins.