Skip to main content
Uncategorized

Fræðsla út um allt!

By 15. apríl, 2008No Comments

Eftirspurn eftir fræðslu í grunnskólum og framhaldsskólum  hefur verið mjög lífleg í vetur og hafa krakkarnir í jafningjafræðsluhópnum ekki getað annað eftirspurn. Það er auðvitað bagalegt að geta ekki komið í alla skólanna sem óska eftir fræðslu frá okkur en líka hið besta mál að jafningjarnir skuli vera svona vinsælir. Samtökin´78 hafa staðið fyrir fræðslufundum síðan árið 1979 og hafa heimsóknir í skóla og félagsmiðstöðvar áunnið sér fastan sess í starfi þeirra.

Í mörgum skólum er jafningjafræðslan  hluti af kennslu í lífsleikni og margir kennarar gera hreinlega ráð fyrir heimsóknum jafningjanna á hverjum vetri. Landsbyggðin er líka að taka vel við sér og berast óskir um heimsóknir frá öllu landinu. Það er því alveg ómetanlegt að jafningjarnir á Akureyri skuli standa sig eins vel  og raun ber vitni og geysast á fræðslufundi af miklum móð.

Fræðslufundirnir alltaf vinsælir

Þegar vinsældir fræðslunnar eru orðnar þetta miklar þarf að standa vel að skipulagningu og framkvæmd til að verkefnið gangi upp á farsælan hátt. Í ár hefur vantað krakka í hópinn því það er óhugsandi að ætlast til þess að sömu fáu einstaklingarnir fari í 60 -70 heimsóknir yfir veturinn. Það tel ég vera of mikið álag og hreinlega hætta á „kulnun í starfi”  Jafningjarnir nota nefnilega sig sjálf á fundunum, þau tala um sig sjálf og sitt umhverfi. Þau segja eigin sögu á persónulegan hátt og það er saga þeirra sem skapar grundvöll fyrir spurningar og umræður í bekknum. Það segir sig sjálft, að það getur verið lýjandi að vera alltaf á útopnu með sína persónulegu sögu fyrir framan hóp af ókunnugu fólki. Það er heldur ekki nóg að segja eigin sögu og svo eru allir glaðir. Nei, krakkarnir verða að gæta þess, að flestöllum fordómum sé mætt þegar þau svara spurningum. Það eru oft sömu hugmyndir eða fordómar sem birtast hjá bekkjunum sem heimsóttir eru. Klárir jafningjar eru mjög útsjónarsamir í útskýringum og nálgast þetta á faglegan hátt svo allir haldi andlitinu. Oft snýst þetta um fyrirfram ákveðnar hugmyndir um hinsegin fólk sem oftar en ekki eiga sér rót í fáfræði eða úr sérkennilegri umfjöllun fjölmiðla.

Er þörf á fræðslu?

Ég fæ stundum spurninguna af hverju fræðsla um samkynhneigð? Er þetta eitthvað mál núna?  Já, þetta er heilmikið mál fyrir marga og ég tala nú ekki um, þegar aldrei er minnst á þig og þína fjölskyldu í skólanum, ef einhver þar er lesbía eða hommi. Fræðsla í skólum, á vinnustöðum og í öllu samfélaginu skilar sér í minni fordómum og auknum skilningi á fjölbreyttari fjölskylduformum í samfélaginu. Það er vitað og það er búið að sanna það!
Í Bretlandi er staðan nokkuð önnur en hér á landi en þar voru sett ákaflega sérstök lög árið 1988 s.k. section 28. Þessi lagagrein bannaði: allt sem gæti stuðlað að samkynhneigð almennt, skrifa eða birta efni sem stuðli að samkynhneigð og það sem var sínu verst að það var bannað að kenna, fræða eða upplýsa um samkynhneigð sem ætlað fjölskylduform. Í mínum augun er þetta alveg óskiljanleg lagasetning og það árið 1988 þegar þögn um málefni hinsegins fólks hafði verið rofin fyrir allmörgum árum. Í þeim birtist lífseig hugmynd um að samkynhneigð smiti, það er, ef talað er um hana þá verði fleiri hinsegin. Ef talað er um hlutina, þá verða að vísu fleiri meðvitaðir um sjálfa sig sem hugsanlega samkynhneigðar manneskjur, séu fólk að velta eigin kynhneigð fyrir sér á annað borð. Aftur á móti verður fólk ekki samkynhneigt bara af því það er talað um það. Hrokinn í þessari lagagrein er líka alveg einstakur, það er talað um samkynhneigð sem ætlað fjölskylduform en ekki sem alvöru fjölskyldur. Þessi lög giltu í 15 ár og var ekki aflétt að fullu fyrr en árið 2003 og var Bretland síðast til að breyta þeim á eftir Skotlandi og Wales.

Niðurstöður rannsókna umhugunarefni

Bresku samtökin, Stonewall létu gera könnum á meðal sinna félaga í desember 2007 og voru niðurstöðurnar sláandi. Rannsóknin heitir „Serves you right, lesbian and gay people´s expectations of discriminations“.Rannsóknin fól í sér að kanna viðhorf hinsegin fólks til mismununar í Bresku samfélagi og við hverju búast megi þar að lútandi. Sendir voru út spurningalistar til tæplega 1700 félagsmanna Stonewall samtakanna og er þetta fyrsta könnunin sem gerð hefur verið eingöngu meðal hinsegin fólks. Það er of langt mál að segja frá öllum  niðurstöðunum en ég ætla að skýra frá þeim er varða skólakerfið.  Meðan á banninu stóð sem minnst er á hér að framan, treystu kennarar sér ekki til að takast á við fordóma gagnvart samkynhneigðum né einelti í skólum landsins.

Afleiðingar þessa voru meðal annars að hómófóbísk stríðni og einelti fór gjörsamlega úr böndunum og má líkja við faraldur í breskum skólum samkvæmt skýrslu bresku samtakanna. Af þeim sem eru 55 ára og eldri, og voru búnir með sína skólagöngu áður en lögin voru sett, sögðust tæplega 3 af hverjum 10 hafa orðið fyrir einelti eða áreiti vegna kynhneigðar sinnar. Þegar aldurshópurinn 25-34 ára var spurður snérist hlutfallið alveg við, en meira en 6 af hverjum 10 sögðust hafa orðið fyrir einelti eða áreiti í skólanum. 8
af hverjum 10 sögðust ekki treysta sér til að vera opin hvað varðar kynhneigð sína í skólaumhverfinu.

Rannsóknin sýnir glögglega afleiðingar þess að banna umfjöllun um samkynhneigð. Í 15 ár var ekki talað um samkynhneigða eða fjölskyldur þeirra í breska skólakerfinu. Afleiðingarnar urðu meðal annars þær að fordómar fengu að þrífast óáreittir með öllum þeim neikvæðu samfélagslegu afleiðingum sem þeim fylgdi. Mörg lönd eiga því miður langt í land með að viðurkenna samkynhneigð sem félagslega jafngilda hegðun á við gagnkynhneigð. Það er okkar hlutverk að halda stjórnvöldum við efnið og gera þá kröfu að samfélagið sé fyrir okkur öll og að við líðum ekki, að ekki sé talað um okkur og okkar fjölskyldur á sama hátt og gangkynhneigðar fjölskyldur með öllum kostum og göllum.

Þessi grein birtist í Fréttabréfi Samtakanna '78 í apríl 2008

Leave a Reply