Skip to main content
search
Uncategorized

Fræðsló mættur!

By 15. janúar, 2008No Comments

Ég byrjaði sem fræðslustjóri Samtakanna´78 í ágústlok á síðasta ári og tíminn hefur algjörlega flogið af stað!. Í stuttu máli þá snýst stór hluti af mínu starfi um að efla fræðslu um samkynhneigð í grunnskólum Reykjavíkur í samstarfi við Menntasvið Reykjavíkurborgar og FAS. Þá er ekki einungis átt við fræðslu til krakkana heldur aðallega til kennara og starfsfólks grunnskólanna.

Í lögum um grunnskóla er gert ráð fyrir að skólinn tali til allra barna og geri ráð fyrir öllum börnum. Þetta þýðir auðvitað að það eigi að tala um samkynhneigð í skólanum, bæði að gera ráð fyrir samkynhneigðum krökkum og líka þeim krökkum sem eiga samkynhneigða foreldra eða aðra gay ættingja.

Skiptir þessi hneigð einhverju máli?

Stundum er ég spurð hvort þessi „hneigð“ skipti einhverju máli. Það virðist vera sem fólk haldi að allt sé í ljómanum og sómanum. Og auðvitað er betra að vera samkynhneigður í dag heldur en það var fyrir t.d. 15-20 árum síðan. En það breytir því ekki að koma út úr skápnum sem samkynhneigður getur bara verið heilmikið mál fyrir marga. Ég hef fengið upphringingar frá námsráðgjöfum í grunnskólum sem segja mér sögur af börnum sem líður illa og er verið að stríða og leggja í einelti vegna kynhneigðar þeirra. Grunnskólarnir standa sig heldur ekki í stykkinu þegar kemur að því að kynna fyrir nemendum fjölbreytileika íslenskra fjölskyldna og það eykur vanlíðan þeirra sem falla út fyrir þá þröngu skilgreiningu sem haldið er á lofti í allri umræðu og kennsluefni í skólanum.

Á meðan staðan er slík þá er fræðsla um samkynhneigð nauðsynleg og sjálfsögð. Til að vinna að þessu markmiði, fræða fagstéttir, er fyrirhugað að fara í alla grunnskóla í Reykjavík með fræðslu og upplýsingafund fyrir kennara og annað starfsfólk. Þá er fyrirhugað námskeið fyrir námsráðgjafa og skólahjúkrunarfræðinga 17. janúar. Ástæða að við völdum þessa tvo hópa er sú að krakkar sem eru að velta fyrir sér hvort þau séu samkynhneigð leita oft til námsráðgjafa eða skólahjúkrunarfræðings með ýmis vandamál sem tengjast vanlíðan, hræðslu og einmanaleika þegar þau eru í þessum pælingum. Það er því nauðsynlegt að námsráðgjafar og skólahjúkrunarfræðingar geri sér grein fyrir að sá möguleiki geti verið fyrir hendi þegar rætt er við börnin og geti komið til móts við þau á faglegan hátt.

Kennarar ekki vanir opinni umræðu um samkynhneigð

Samtöl mín við kennara og krakka sýna fram á að flestir kennarar eru ekki sérlega vel í stakk búnir til að taka upp umræðuna um samkynhneigð í skólanum. Þetta hefur í för með sér hina sívinsælu þögn um okkur sem samfélagshóp og eykur vanlíðan þeirra barna sem eru í þessari stöðu. Annars virðist það vera krakkarnir sem hafa hvað minnsta fordóma gagnvart samkynhneigð. Ég er ekki að segja að kennarar í grunnskólum séu fordómafullir heldur held ég að þeir séu ekki vanir opinni og eðlilegri umræðu um samkynhneigð. Síðastliðið haust bauð ég nokkrum kennurum á fund til spjalls og ráðagerða varðandi fræðslufundi í grunnskólanum. Það sem bar á góma m. a var að kennurum finnst að þá vanti að vita „hvað á að gera“ þegar einhver er samkynhneigður í skólanum og gilti þá einu hvort um var að ræða nemanda, kennara eða samstarfsmann. Þetta finnst mér áhugavert og styður það sem ég held að gamla góða þögnin sé ekki að gera neinum  greiða hérna og hreinlega standi fólki fyrir þrifum í mannlegum samskiptum.

Þegar ég sagði að krakkarnir virtust vera með minnstu fordómana þá er ég að miða við hvað heimsóknir ungliðanna hafa gengið vel. En félagar úr ungliðahópi Samtakanna sjá um jafningjafræðsluna og hafa heimsótt fjölmarga skóla í haust og munu halda því áfram til vors. Yfirleitt ganga fundirnir mjög vel og eru málefnalegir þótt auðvitað sé það misjafnt eftir „bekkjarþroska“ og hversu góður kennarinn er. Samt sem áður blossa stundum upp fordómar og andstyggileg stríðni þegar einn úr hópnum er að velta fyrir sér kynhneigð sinni og virðast strákar verða hvað harðast fyrir barðinu á öðrum strákum vegna þessa.

Ýmislegt fleira á döfinni

Það er líka fyrirhugað að leggjast í víking á vinnustaði og hefur lögreglustjóri Reykjavíkur, Stefán Eiríksson lýst yfir áhuga á að fá fræðslu- og upplýsingafund í lögregluskólann og á vaktirnar á lögreglustöðinni. Það verður nú ekki leiðinlegt að heimsækja víkingasveitina og hafa nettan fund með þeim! Ég ætla að tengja fyrirhugaðar heimsóknir fyrir fullorðna ekki einungis við fræðslu um samkynhneigð heldur líka því að vera opin samkynhneigð manneskja í vinnunni. Allt of oft er fólk í felum á vinnustað og það er alveg kominn tími á að opna umræðuna og varpa ljósi á þann hóp sem lifir bara hálfu lífi í vinnunni. Mér finnst upplagt að nefna það líka því stundum virðist fólk gleyma því að við erum ekki öll ung og í gleðigöngunni alla daga heldur líka bara að keyra lyftara á vöruhótelinu niðri í Sundahöfn og kaffistofan kannski ekki alveg klædd í regnbogafánann.  Gleðilegt gott fr&ae
lig;ðsluár!  -KJ

Pistillinn birtist í Fréttabréfi Samtakanna '78 í janúar 2008

Leave a Reply