Samstarfskona mín, Sigríður Arnardóttir, kom að máli við mig á dögunum og sagði frá syni sínum sem hafði komið heim með bækling frá skólahjúkrunarkonunni – fyrsta skrefið í kynfræðslu unglinga í grunnskólanum – og þar var að finna þessa setningu; „Á kynþroskaaldrinum fara strákar að verða skotnir í stelpum og stelpur í strákum.“
„Ég skil þetta ekki,“ sagði Sirrý, „þarna hefði verið upplagt að bæta við orðum sem hefði gert ungum hommum og lesbíum meira gagn en nokkur önnur fræðsla á síðari stigum! Af hverju stóð ekki: „…og sumir strákar verða skotnir í strákum og stelpur í stelpum? Mér finnst skólayfirvöldum bera skylda til að fræða börn um að ekki eru allir eins. Krakkar gera sér grein fyrir kynhneigð sinni um tólf ára aldur og það er óþarfi að gera fólki lífið erfiðara með einhliða upplýsingum. Er ekki tilveran í öllum regnbogans litum, myndi slík viðbót ekki rjúfa þögnina sem umlykur málefni samkynhneigðra á þessum skólastigum? Af hverju beita Samtökin ´78 sér ekki fyrir þessu?“
Samkynhneigðir sérfræðingar og yfirvöld
Ég gat ekki annað en brosað. Stór þáttur í starfi Samtakanna ’78 síðustu áratugi hefur einmitt beinst að því að fá orðin „kynhneigð“ og „samkynhneigð“ nefnd í aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla, og nú loksins virðist vera að rofa til í þeim efnum, m.a. fyrir tilhlutan Þorgerðar K. Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Næstu skref eru þau að standa faglega að gerð námsefnis og skipuleggja fræðslu á öllum skólastigum um málefnið. Í aldarfjórðung hafa Samtökin ´78 sinnt fræðslumálum, ýmist í sjálfboðaliðastarfi eða með aðstoð fræðslufulltrúa í hlutastarfi, en nýir tímar kalla á öflugra starf. Þetta verkefni er umfangsmikið og því er mikilvægt að samstarf og samræða eigi sér stað milli hinna samkynhneigðu sérfræðinga og yfirvalda menntamála, bæði á valdasviði ríkis og sveitarfélaga.
Fræðslufundir í 25 ár
Allt frá 1980 hafa Samtökin ’78 boðið upp á fræðslufundi í skólum þar sem hommar og lesbíur heimsækja skóla, einkum framhaldsskóla, að ósk kennara eða nemenda skólanna. Einn af fræðslufulltrúum félagsins, háskólamenntaður samkynhneigður einstaklingur ásamt félögum úr ungliðahóp Samtakanna ´78 koma á staðinn og ræða líf sitt og tilfinningar. Opnar umræður og spurningar fylgja í kjölfarið. Slík jafningjafræðsla, þegar ungt fólk ræðir við annað ungt fólk, hefur átt ríkan þátt í að auka vellíðan samkynhneigðra nemenda í skólum og efla skilning gagnkynhneigðra vina þeirra á mikilvægi þess að styðja við bakið á þeim í félagahópnum sem gangast við samkynhneigðum tilfinningum sínum.
Ekki inn í skápinn aftur
Hinn 27. júní sl. gengu í gildi lög sem ætlað er að jafna réttarstöðu gagnkynhneigðra og samkynhneigðra. Um málið ríkti alger sátt á Alþingi. Tvær skýrslur um réttarstöðu samkynhneigðra, frá 1994 og 2004, lögðu grunninn að þessum lagabreytingum, og þar var skýrt kveðið á um mikilvægi þess að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra og eyða fordómum. Fræðsla í menntakerfinu, umræður og ábyrgar upplýsingar um samkynhneigð, svo og öflun þekkingar með rannsóknum eru vænlegustu leiðir að þessu marki. Lög ein og sér duga skammt ef þeim er ekki fylgt markvisst eftir eins og jafnréttislögin frá 1975 sýna. Því er mikilvægt fylgja starfi löggjafans eftir með markvissri fræðslu ef vilji þingmanna á að skila tilætluðum árangri. Því miður hefur það gerst í nágrannalöndum okkar svo sem í Hollandi að fordómar ungmenna gagnvart samkynhneigðum hafa aukist þó að hið lagalega umhverfi sé eins og best verður á kosið. Þar í landi eru mýmörg dæmi þess að ofsóknir á hendur samkynhneigðum nemendum og kennurum hafi aukist og þeir neyðst til að hrökklast aftur inn í skápinn eða hverfa úr starfi vegna ofbeldis og eineltis. Ástæðan er sú að Hollendingar voru svo ánægðir með framfarir í löggjafarmálum sínum að þeir felldu að mestu niður um árabil upplýsta fræðslu um samkynhneigð í skólakerfinu.
Grunnskólinn geri ráð fyrir öllum börnum
Samhliða mikilvægum leiðréttingum á lagalegu umhverfi og hugarfarsbreytingu gagnvart samkynhneigðum, hefur krafan um að skólinn mæti þörfum þessa hóps orðið æ áleitnari. Það er grundvallaratriði að grunnskólinn móti starfshætti sína þannig að hann geri ráð fyrir öllum börnum, kenni um öll börn, og tali til allra barna. Ef marka má óskir um samstarf og fræðslufundi á síðustu misserum þá hefur orðið vitundarvakning hjá skólastjórnendum og þeim er vel ljóst að fræðsla og námsefni um samkynhneigð er ábótavant. Það er því ekki að undra að eftirspurn eftir fræðslu til starfsfólks skóla, svo sem kennara, hjúkrunarfræðinga, félagsráðgjafa og annarra fagstétta, hafi færst í vöxt. Umræða um gildi þess að fjalla um samkynhneigð hefur einnig aukist og fagfólk er sammála um að það skilar sér í betra og markvissara skólastarfi og bættari líðan nemenda og foreldra. Mikil fjölgun fræðslufunda Samtakanna ´78 eftir aldamót er skýr vísbending um að kennarar og skólastjórnendur gera sér æ betur grein fyrir því að
; fræðsla um líf og reynslu lesbía og homma er sjálfsögð og eðlileg í skólastarfinu.
Sjálfbjarga og ófeimnir kennarar
Til lengri tíma litið er markmiðið með fræðslustarfi Samtakanna ’78 það að gera kennara og aðrar fagstéttir að mestu leyti sjálfbjarga í fræðslu um samkynhneigð. Til þess að svo megi verða er afar brýnt að gert sé ráð fyrir vandaðri umræðu um kynhneigð í námsskrám skóla, að fjármagn verði tryggt til að samræma fræðslu og kennslugögn, og að verðandi og kennurum og öðru starfsliði skóla standi til boða fræðsla um samkynhneigð. Þögn um málefnið skapar óöryggi í skólastarfi sem bitnar á þeim sem þar starfa. Þögnin bitnar ekki aðeins á öllum nemendum án tillits til kynhneigðar þeirra, heldur einnig á samkynhneigðum kennurum, samkynhneigðum foreldrum og gagnkynhneigðum foreldrum samkynhneigðra barna. En af hverju „mestu leyti sjálfbjarga“? Jú, ekki má gleyma því að hafa hina samkynhneigðu sérfræðinga með í undirbúningi og framkvæmd, því að aldrei næst trúverðug mynd af lífi og reynslu homma og lesbía nema tekið sé fullt mið af hinu samkynhneigða sjónarhorni.
Frumkvæði á Akureyri
Haustið 2005 kallaði Gunnar Gíslason deildarstjóri skóladeildar Akureyrarbæjar saman samstarfsnefnd sem fjalla skyldi um kynningu og fræðslu um samkynhneigð og kynhneigð almennt í grunnskólum bæjarins. Í nefndinni áttu sæti kennarar auk fulltrúa úr norðurlandshópi Samtakanna ’78 og frá Samtökum foreldra og aðstandenda samkynhneigðra á Norðurlandi. Því næst var haldið námskeið fyrir kennara og starfsfólk grunnskólanna á Akureyri með það að markmiði eyða þeirri þögn sem ríkt hefur um samkynhneigð innan skólanna en ekki síður að auka færni kennara í að fjalla um samkynhneigð og að taka á vandamálum eins og einelti og persónulegum vanda nemenda. Þetta frumkvöðlastarf Norðlendinga er öðrum sveitarfélögum fyrirmynd og við væntum okkur mikils af árangrinum.
Ábyrgð sveitarfélaga
Samtökin ’78 þjóna ekki aðeins íbúum Reykjavíkur, heldur sækir fjöldi fólks úr nærliggjandi sveitarfélögum þjónustu til félagsins – af Seltjarnarnesi, úr Mosfellsbæ, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Reykjanesbæ, Akranesi, Hveragerði og Selfossi svo nokkur séu nefnd. Þá má ekki gleyma því samkynhneigða fólki sem hefur neyðst til að flýja heimabyggðir sínar og setjast að í Reykjavík og nágrenni. Reykjavíkurborg hefur til þessa verið eina sveitarfélagið sem hefur látið sig þennan málaflokk sig einhverju varða og stutt starf Samtakanna ´78 með nokkrum fjárveitingum. En ábyrgðin er okkar allra hvar á landinu sem við búum. Vonandi tekst samstaða um samstillt átak ríkis og sveitarfélaga til þess að tryggja fjármagn í því skyni að koma á samstilltri og faglegri fræðslu um líf og mannréttindi samkynhneigðra svo að þögnin um málefnið í menntakerfi landsins heyri sögunni til.
Copyright © Morgunblaðið 2006
Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið