Skip to main content
AðalfundurFélagsstarfFréttirTilkynning

Framboð til stjórnar 2018 – 2019

By 19. febrúar, 2018maí 27th, 2020No Comments

Vegna aðalfundar Samtakanna ’78 sem haldinn verður 4. mars 2018 kallaði kjörnefnd eftir framboðum til trúnaðarstarfa fyrir félagið. Tilkynningu þess efnis sendi nefndin frá sér þann 29. janúar 2018. Framboðsfrestur rann út þann 18. febrúar fyrir framboð í stjórn en framboðsfrestur í trúnaðarráð rennur ekki út fyrr en á fundinum sjálfum.

Hér að neðan eru þau framboð sem bárust fyrir tilskilinn frest ásamt framboðskynningum til stjórnar. Framboðum í trúnaðarráð verður bætt hér um leið og þau berast en enn er hægt að bjóða sig fram í trúnaðarráð með því að senda póst á kjornefnd@samtokin78.is 

 

Framboð til formanns stjórnar Samtakanna '78 (1 framboð af 1)
Framboð í stjórn til tveggja ára (3 framboð af 3)
Framboð í stjórn til eins árs (3 framboð af 3)
Framboð í trúnaðarráð (2 framboð af 10) (kynning á trúnaðarráði hér.)
  • Jóhann G. Thorarensen
  • Ragnhildur Sverrisdóttir
Skoðunarmenn reikninga (1 framboð af 2)
  • Sigurjón Guðmundsson

Í kjörnefnd sitja Ásta Kristín Benediktsdóttir, Sigurgeir Ingi Auðar-Þorkelsson og Svanfríður Anna Lárusdóttir. Ef þú hefur athugasemdir til kjörnefndar þá má senda póst á netfangið kjornefnd@samtokin78.is

Virðingarfyllst, 

kjörnefnd

 

Framboð til formanns

María Helga Guðmundsdóttir

1.1 Nafn og aldur

María Helga Guðmundsdóttir, 30 ára

1.2 Fyrri reynsla (t.d. Menntun, starf, félagsstörf og þess háttar)

Ég er með MS og BS gráður í jarðfræði og BA í þýskum bókmenntum frá Stanfordháskóla. Ég starfa sjálfstætt sem við þýðingar og karatekennslu. Auk starfa minna sem þýðandi hef ég fjölbreytta reynslu af verkefna- og viðburðastjórn, kennslu og námsefnisgerð á ýmsum sviðum. Ég er landsliðskona í karate og yfirþjálfari barna og unglinga hjá Karatefélaginu Þórshamri og var formaður félagsins 2015–2017. Ég er sjálfboðaliði hjá Stelpur rokka! og var formaður félagsins Gettu betur-stelpna í tvö ár og stýrði þar fjölmennum æfingabúðum.

1.3 Fyrri verkefni/störf innan Samtakanna ’78

Ég er formaður Samtakanna ‘78 og hef gegnt því embætti síðan í september 2016. Á tímabilinu mars–sept 2016 sat ég í trúnaðarráði og stjórn, fyrst sem áheyrnarfulltrúi og síðar meðstjórnandi.

Ég hef verið virkur sjálfboðaliði síðan 2013 í ýmsum verkefnum. Ég sat m.a. í dómnefnd Hýryrða 2015 og er höfundur hinsegin fræðsluefnisins sem nú er kennt í þjálfaranámi ÍSÍ og KSÍ. Að auki hef ég unnið að þýðingum fyrir Samtökin ‘78, Intersex Ísland og OII Europe og þýtt heimildamyndir um hinsegin málefni fyrir RÚV.

2.1 Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna '78 í dag og þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu árum?

Samtökin standa að mörgu leyti mjög vel og njóta trausts innan samfélagsins. Eftirspurn eftir ráðgjöf og fræðslu frá félaginu hefur farið vaxandi enn eitt árið í röð. Þjónustusamningar við sveitarfélög eru lykilatriði í því að tryggja að við getum haldið starfseminni gangandi og annað vaxandi eftirspurn. Á starfsárinu 2017–18 voru tveir mikilvægir þjónustusamningar endurnýjaðir: samningur við Hafnarfjörð til eins árs og við Reykjavík til þriggja ára. Í fyrsta sinn var samið við Reykjavíkurborg til þriggja ára um rekstur hinsegin félagsmiðstöðvar fyrir ungliða Samtakanna ‘78. Þar með lýkur loks 18 mánaða óvissutímabili þar sem oft hefur verið útlit fyrir að loka verði félagsmiðstöðinni.

Mörg önnur mikilvæg verkefni hafa komist af stað á árinu. Samstarf við Landspítala og HIV Ísland í kynheilsumálum var aukið, m.a. með því að bjóða upp á hraðpróf fyrir HIV og lifrarbólgu C á opnu kvöldi í húsnæði S78. Með tíð og tíma er stefnt að því að þetta verði fastur liður. Fulltrúar S78 hafa tekið þátt í vinnu starfshóps um heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum á vegum Reykjavíkurborgar og tekur nú við úrvinnsla á tillögum starfshópsins. Þá hefur nýafstaðið málþing um málefni intersex fólks vakið eftirtekt út fyrir landsteinana, enda um viðburð í heimsgæðaflokki að ræða. Í mínum huga einkennast þessi verkefni af metnaði og fagmennsku sem félagsfólk getur verið stolt af.

Á árinu gerðust einnig þau miklu tíðindi að hinsegin málefna er í fyrsta sinn getið í stjórnarsáttmála íslensku ríkisstjórnarinnar. Eftir mikla vinnu Samtakanna ‘78, Trans Íslands o
g Intersex Íslands með fulltrúum löggjafarvaldsins undanfarin ár eru því vonir til að nauðsynlegar breytingar á lögum um réttindi trans og intersex fólks gangi í gegn á næstunni.

Talsvert örlar á þreytu meðal sjálfboðaliða og það er stöðugt verkefni að búa þeim gott umhverfi svo félagið fái að njóta krafta þeirra sem lengst. Einnig er mikilvægt að halda áfram að byggja traust og stuðning milli ólíkra hópa innan hinsegin samfélagsins. Þetta eru langtímaverkefni sem fer ekki mikið fyrir og geta gleymst í dagsins önn.

2.2 Hver er þín sýn á starf Samtakanna '78 næstu 2-3 ár og á hvaða sviði telur þú þig geta lagt mest af mörkum? (Hvaða verkefnum þarf að sinna, í hvaða aðgerðir þarf að ráðast og svo framvegis)

Starfsemi félagsins er fjölþætt og mjög umfangsmikil, sérstaklega miðað við fjárhag. Hún veltur nú sem fyrr að miklu leyti á sjálfboðavinnu, ólíkt því sem er hjá systurfélögum okkar í nágrannalöndum, sem mörg hver hafa á annan tug launaðra starfsmanna sem sinna ráðgjöf, fræðslu, útgáfumálum, almannatengslum, skipulagningu viðburða, stuðningi fyrir eldra hinsegin fólk, o.s.frv. Undanfarin ár hefur verið unnið markvisst að því að styrkja rekstrargrundvöll félagsins svo hægt sé að ráða fleira launað starfsfólk. Það hefur tekist upp að vissu marki, en betur má ef duga skal. Þjónustusamningar við fleiri sveitarfélög en Reykjavík og Hafnarfjörð og markviss verkefnatengd fjáröflun úr einkageiranum skipta höfuðmáli til að tryggja sjálfbærni starfseminnar til lengri tíma.

Fjörutíu ára afmælisár Samtakanna ‘78 er gengið í garð og undirbúningur er hafinn á afmælishátíð, sem fyrirhuguð er í júní, og útgáfu veglegs afmælisrits að hausti. Stjórn og afmælisnefnd hafa haft samráð um ráðningu Atla Þórs Fanndal sem ritstjóra afmælisritsins, en hann ritstýrði síðasta tölublaði Rauða borðans fyrir HIV-Ísland og hefur mikla þekkingu á hinsegin samfélaginu. Í afmælisritinu gefst kjörið tækifæri til að horfa yfir farinn veg, setja sögu félagsins í samhengi og brúa bilið milli kynslóða.

Fleira er einnig á döfinni í útgáfumálum félagsins. Hafist var handa við endurútgáfu Reaching Out, upplýsingabækling fyrir hinsegin fólk af erlendum uppruna, og er útgáfa hans áætluð um mitt ár 2018. Þetta er mikilvægt skref í því að gera starfsemi félagsins aðgengilega sem flestu fólki, en mikill skortur hefur verið á upplýsingum um starf S78 á öðrum tungumálum en íslensku.

Félagið er með mörg járn í eldinum. Á komandi ári tel ég mikilvægt að forgangsraða, bæta ekki nýjum kvöðum við að óþörfu og reyna frekar að sinna þeim verkefnum vel sem komin eru af stað. Þar tel ég skipulagshæfileika mína, þekkingu á innra starfi S78 og reynslu af samskiptum við opinberar stofnanir koma að góðum notum.

Það hefur verið heiður að vinna með þeim öfluga hópi starfsfólks og sjálfboðaliða sem stendur vaktina á Suðurgötunni undanfarin ár. Ég vona að félagsfólk treysti mér til að leiða þá starfsemi áfram.

 

Framboð í stjórn til tveggja ára

Rúnar Þórir Ingólfsson

(Kynningartexti væntanlegur)
 
 
 
Unnsteinn Jóhannsson
 
1.1 Nafn og aldur.
Unnsteinn Jóhannsson, þrjátíu og eins
 
1.2 Fyrri reynsla (t.d. menntun, starf, félagsstörf og þess háttar)
Ég er menntaður í skapandi verkefnastjórn með áherslu á samfélagslega nýsköpun frá KaosPilot skólanum í Århus í Danmörku. Frá 9 ára aldri hafa félagsstörf verið hluti af mínu lífi og hef ég verið þátttakandi, sjálfboðaliði og starfsmaður í hinum ýmsu félagasamtökum. Þar á meðal hef ég verið verið skátaforingi, farið utan sem AFS skiptinemi, starfað sem formaður og varaformaður ýmissa félaga og unnið mörg krefjandi verkefni. Ég hef ánægju af því að vinna með fólki og sjá þegar hægt er að hafa áhrif til góðs. Sérstaklega hef ég áhuga á að takast á við ný, krefjandi og spennandi verkefni af öllum gerðum.
Sem KaosPilot get ég tekist á við verkefni með opnum hug. Ég sé margar mismunandi hliðar á
áskorunum og hef ég einsett mér að því að rækta leiðtogahæfni mína. Mínir styrkleikar eru einnig að ég á auðvelt með að kynnast fólki og hef gott lag á að mynda sterkt og gott tengslanet.
 
1.3 Stutt samantekt á núverandi högum (m.a. fjölskylduhagir og annað sem frambjóðandi vill taka fram).
Fæddur í Hlíðunum og uppalinn í Garðabænum. Skáti, bróðir, KaosPilot, eiginmaður, hundaeigandi, opinskár, pólitíkst nörd, pylsugerðamaður, forvitinn og með sterka réttlætiskennd.
 
1.4 Fyrri verkefni/störf innan Samtakanna '78.
Ég hef setið í trúnaðarráði tvö ár í röð. Og sat í stjórn árið 2016 þá sem varaformaður en &th
orn;ví miður vegna vinnu minnar varð ég að segja þeirri stöðu lausri. Einnig kom ég að því árið 2014 að skipuleggja „Tónleika með tilgang“ sem Samtökin 78 og Amnesty International stóðu fyrir til að vekja athygli á mannréttindabrotum gegn hinsegin fólki í Úganda og safna fé til handa hinsegin aðgerðarsinnum þar í landi.
 
2.1 Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ‚78 í dag og þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu árum?
Síðustu ár hef ég notið þeirra forréttinda að fá að fylgjast með og taka þátt í starfi Samtakanna. Hafa þetta bæði reynst skemmtilegir og jákvæðir tímar en einnig má því ekki gleyma að síðustu ár hafa reynst erfið. Það hefur verið jákvætt og gott að taka þátt í faglegri uppbyggingu á starfsemi Samtakanna, þar á meðal að sjá hvernig ungliðastarfið er nú í faglegum höndum og blómstrar sem aldrei fyrr. Nýir og góðir samningar við sveitarfélög staðfesta að starfsemi Samtakanna er mikilvæg. Ráðgjöfin og jafningjafræðslan eru órúfjanlegur partur af Samtökunum sem mikilvægt er að standa vörð um. Stöndum við í þakkarskuld við öll þau sem vinna óeigingjarnt starf í þágu samtakanna til að halda úti þessari góðu þjónustu.
 
Starfsemi Samtakanna ‘78 er mjög öflug og er það að þakka öllum þeim sjálfboðaliðum sem sameinast í að halda úti öllum þeim fjölmörgu viðburðum og félagslífi sem á sér stað. Mikilvægt er að halda í þann auð og finna leiðir til að virkja fleiri svo Samtökin séu enn staður fyrir fjölbreyttan hóp fólks. Það má heldur ekki gleyma starfsmönnum Samtakanna sem vinna kraftaverk miðað við systurfélög okkar á Norðurlöndunum. Von mín er að hægt verði að auka starfsgildum svo starfsemin megi vaxa enn meir.
 
2.2 Hver er þín sýn á starf Samtakanna ’78 næstu 2-3 ár og á hvaða sviði telur þú þig geta lagt mest af mörkum? (Hvaða verkefnum þarf að sinna, í hvaða aðgerðir þarf að ráðast og svo framvegis)
Þetta ár er afmælisár og þykist ég vita að nú þegar eru spennandi hugmyndir um hvernig skuli fagna öllu því sem áorkað hefur verið hingað til. Það yrði heiður að fá að fylgja þeim hugmyndum eftir og geta gleðst og fagnað með öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóg. Við slík tímamót er einnig gott að staldra við og horfa til framtíðar. Ég myndi vilja vinna með góðum hópi að því að leggja grunninn fyrir næstu 5 árin. Mér hefur verið ofarlega í huga að vinna að því að skerpa og skýra hlutverk trúnaðarráðs og myndi það vera eitt af þeim málum sem ég myndi leggja kapp á að vinna að. Gagnsæi og góð samvinna er mér mikilvæg og myndi ég vilja vinna enn betur að því að upplýsa félagsfólk að hvaða verkefnum er unnið að hverju sinni og hver framganga verkefnanna er. Málefni hinsegin fjölskyldna, hinsegin hælisleitenda og flóttafólks sem og nýjar leiðir til fjáröflunar eru enn mér mikilvæg sem fyrr og því býð ég mig fram til að vinna að þeim málum.
 
 
 
Þorbjörg Þorvaldsdóttir
 
1.1 Nafn og aldur.
Ég heiti Þorbjörg Þorvaldsdóttir og er 28 ára.
 
1.2 Fyrri reynsla (t.d. menntun, starf, félagsstörf og þess háttar)
Ég er málfræðingur að mennt. Ég lauk nýlega meistaraprófi í málvísindum og stunda nú doktorsnám í íslenskri málfræði. Í gegnum tíðina hef ég tekið þátt í hinum ýmsu félagsstörfum, t.d. hef ég setið í stjórnum nemendafélaga í menntaskóla (gjaldkeri Skólafélags Menntaskólans í Reykjavík) og háskóla (ritari Mímis, félags stúdenta í íslenskum fræðum og almennum málvísindum) auk þess sem ég hef tekið virkan þátt í stjórnmálastarfi (með UJ). Meðfram námi hef ég starfað í aðhlynningu, sem barþjónn, móttökustarfsmaður á hóteli og flugfreyja.
 
1.3 Stutt samantekt á núverandi högum (m.a. fjölskylduhagir og annað sem frambjóðandi vill taka fram).
Ég er nýflutt aftur heim til Íslands eftir nám, en ég hef búið í Hollandi síðustu tvö og hálft ár. Ég er kvænt Silju Ýr S. Leifsdóttur og saman eigum við tveggja ára dóttur sem heitir Valbjörg María og 9 ára kött sem heitir Ninja. Á daginn skrifa ég og hugsa um samræmi í kyni og tölu, en á kvöldin kúri ég gjarnan í sófanum og les fantasíubókmenntir eða horfi á Vikings.
 
1.4 Fyrri verkefni/störf innan Samtakanna '78.
Ég kom fyrst inn í starf Samtakanna '78 árið 2015, þegar ég sat í trúnaðarráði. Mitt helsta verkefni var að taka þátt í að skipuleggja nýyrðasamkeppnina Hýryrði 2015, þar sem frábær nýyrði eins og t.d. vífguma og flæðigerva urðu til. Síðan ég flutti til Hollands hefur þátttaka mín í starfi Samtakanna aðallega falist í því að læka og deila á samfélagsmiðlum, en nú vil ég mjög gjarnan bjóða fram krafta mína af alvöru og býð mig
því fram til tveggja ára setu í stjórn.
 
2.1 Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna '78 í dag og þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu árum?
Mér finnst Samtökin '78 hafa staðið sig frábærlega síðustu ár. Þótt ég hafi aðeins getað fylgst með úr fjarska þá hefur gróskan í starfinu svo sannarlega skilað sér yfir hafið. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hvað fræðslustarfið er öflugt. Mér finnst Samtökin '78 standa sterkt ekki síst vegna þess að ég hef þá tilfinningu að þau standi vörð um hag allra hinsegin einstaklinga, allt frá ungum intersex börnum til aldraðra homma og lesbía. Það er líka augljóst að reynt hefur verið að koma til móts við sem flesta hópa, t.d. þegar kemur að opnum húsum, og það er virkilega gott að vita af því að faglegt og flott starf er unnið með hinsegin unglingum. Samtökin eru virt í samfélaginu og sjá til þess að rödd okkar allra heyrist hátt og snjallt.
 
2.2 Hver er þín sýn á starf Samtakanna '78 næstu 2-3 ár og á hvaða sviði telur þú þig geta lagt mest af mörkum? (Hvaða verkefnum þarf að sinna, hverju hefur þú helst áhuga á að vinna að sem stjórnarmeðlimur, í hvaða aðgerðir þarf að ráðast og svo framvegis.)
Næstu ár finnst mér Samtökin '78 eiga að halda áfram í sömu átt og standa stolt undir hlutverki sínu sem aðaldrifkrafturinn í hagsmunabaráttu hinsegin fólks á Íslandi. Mikilvægasta verkefnið að mínu mati er að þrýsta áfram á löggjafann í því að tryggja lagaleg réttindi hinsegin fólks (toppum þetta ILGA kort!) og veita kerfinu aðhald þar sem þörf er á í samráði við aðildarfélög.
 
Þótt staðan á Íslandi sé að mörgu leyti góð verðum við að gæta þess að sofna aldrei á verðinum. Við eigum að efla fræðslustarfið enn frekar og halda viðburði sem vekja athygli og leiða til umræðu í samfélaginu. Það hefur sýnt sig að almenningsálitið getur tekið hröðum breytingum hér á landi. Ísland er kannski engin hinsegin útópía, en getur komist ansi nálægt því með samstilltu átaki. Svo skiptir auðvitað miklu máli að halda í gleðina og standa fyrir viðburðum þar sem félagsfólk kemur saman, skemmtir sér og kynnist hvert öðru.
 
Ég hef langa reynslu af viðburða- og verkefnastjórnun innan félagasamtaka og tel að sú reynsla geti komið sér vel í stjórn Samtakanna '78. Ég hef sérstakan áhuga á því að koma að málefnum sem varða hinsegin fjölskyldur og get talað af þekkingu þegar rætt er um hinseginvæðingu tungumálsins okkar. Ég vonast til þess að fá tækifæri til þess að taka þátt í því að móta starf Samtakanna '78 á þeim sterka grunni sem lagður hefur verið undanfarin ár.
 
Framboð í stjórn til eins árs
 
 
Marion Lerner
 
Ég fæddist 1968 í Þýskalandi en flutti til Íslands 1998. Ég er menningar- og þýðingafræðingur og vinn við Háskóla Íslands. Auk þess er ég leiðsögukona og þýðandi úr íslensku yfir á þýsku. Ég hef margra ára reynslu af stjórnarstörfum, m.a. í Félagi leiðsögumanna og Bandalagi þýðenda og túlka á Íslandi. 
 
Þótt ég hafi gengið í Samtökin 78 mjög fljótlega eftir að ég flutti til Íslands, hef ég ekki verið virk í þeim í langan tíma en breytti þessu árið 2016. Ég tók m.a. þátt í endurskoðun laganna fyrir aðlafundinn 2017 og var formaður lagabreytingarnenfndar. Á aðalfundinum 2017 var ég kosin í trúnaðarráð Samtakanna og var áheyrnarfulltrúi trúnaðarráðs í stjórninni í eitt ár. Ég hef því setið marga stjórnarfundi og fengið mjög góða innsýn í starfsemi og stöðu félagsins.
 
Mér finnst aðdáunarvert hvað þetta litla félag sem reiðir sig að mestu á sjálfboðavinnu getur áorkað: umfangsmikil fræðslustörf, ráðgjafarþjónusta, samvinna við ýmis önnur félagasamtök, almenn félagsstörf með opnum húsum, viðburðum, klúbbum, ráðstefnum o.s.frv. en síðast og ekki síst að standa vörð um réttindi hinsegin fólks.
Á þessu ári halda Samtökin 78 upp á 40 ára afmæli sitt. Þetta er gott tækifæri til að horfa til baka og reyna að tengja sögu Samtakanna við framtíð þeirra. Að mínu mati þarf að reyna enn frekar að brúa bilið á milli kynslóða og ýmissa hópa innan Samtakanna.
 
 
 
 
Sigurður Júlíus Guðmundsson
 
1.1 Nafn og aldur
Sigurður Júlíus Guðmundsson, 37 ára.
 
1.2 Fyrri reynsla (t.d. Menntun, starf, félagsstörf og þess háttar)
Ég er menntaður fjö
lmiðlatæknir auk þess að hafa klárað nám í forritun og frumkvöðlafræðum. Ég starfa sem tæknimaður hjá AP Media og sinni þar fjölbreyttum verkefnum. Ég er meðlimur í hinsegin kórnum og hef verið frá upphafi hans með hléum. Ég er meðlimu í búddistafélaginu SGI á Íslandi og hef iðkað búddisma í yfir fimmtán ár. Þá tók ég þátt í útgáfu Hýraugans á sínum tíma og ég framleiddi einnig þáttaröðina Öfugmæli sem sýnd var á iSTV og er nú aðgengileg á Youtube.
 
1.3 Stutt samantekt á núverandi högum (m.a. fjölskylduhagir og annað sem frambjóðandi vill taka fram)
Ég er upphaflega frá Ólafsfirði en hef búið í Reykjavík frá unglingsárum og er giftur Andrés Peláez.
 
1.4 Fyrri verkefni/störf innan Samtakanna '78
Ég hef verið viðloðinn Samtökin ‘78 í mörg ár og komið að fjölmörgum verkefnum þeim tengdum. Þá hef ég setið í stjórn og trúnaðarráði samanlagt i fimm og hálft ár og hef sinnt embættum Formanns trúnaðaráðs, meðstjórnanda í stjórn og Varaformanns í þrjú ár. 
 
2.1 Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna '78 í dag og þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu árum?
Samtökin eru enn að jafna sig eftir erfiðar baráttur undanfarinna ára en staða Samtakanna er sterk. Staða samtakanna hefur verið að eflast og með auknu fjármagni, sem vonandi má nýta til aukningar starfsfólks, mun staðan batna enn meira. Mikilvægasta verkefni samtakanna núna er að auka fjármagn inn í félagið svo að svo megi verða. 
 
2.2 Hver er þín sýn á starf Samtakanna '78 næstu 2-3 ár og á hvaða sviði telur þú þig geta lagt mest af mörkum? (Hvaða verkefnum þarf að sinna, hverju hefur þú helst áhuga á að vinna að sem stjórnarmeðlimur, í hvaða aðgerðir þarf að ráðast og svo framvegis)
Eins og áður segir tel ég fjáröflun vera eitt mikilvægasta verkefni Samtakanna. Þótt mikilvægt sé að halda uppi pressu á stjórnvöld að bæta lagalega stöðu hinsegin fólks, halda úti fræðslustarfi og reka félagsmiðstöð fyrir hinsegin ungmenni þá er óraunhæft að gera það að mestu með sjálfboðaliðastarfi mikið lengur. Frá upphafi hafa Samtökin notið gríðarlega góðs af sjálfboðaliðum og þrotlausu starfi þeirra í þágu félagsins og samfélags okkar hinsegin fólks á hverjum tíma. En á hverju ári brennur einhver hluti þessa fólks út og hverfur af vettvangi Samtakanna og sumir sjást þar aldrei aftur. Þetta er ekki sjálfbær starfsemi og eina lausnin er að geta ráðið fleira starfsfólk til að sjá um daglegan rekstur og hafa umsjón með mikilvægum verkefnum félagsins. Sjálfboðaliðastarf á að vera gefandi upplifun en verður því miður oft þungur baggi sem er óásættanlegt ástand sem við þurfum að finna leið til að laga.
 
Þar fyrir utan þurfum við að þrýsta af krafti á stjórnvöld til að standa við loforð um bætta löggjöf sem á að vera tilbúin til meðferðar á Alþingi.
 
 
 
Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir
 
1.1 Nafn og aldur.
Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir, 17 ára
 
1.2 Fyrri reynsla (t.d. menntun, starf, félagsstörf og þess háttar)
Ég hlaut stúdentspróf af málabraut frá Menntaskólanum við Hamrahlíð í desember 2017. Í MH stofnaði ég ásamt öðrum fyrsta hinseginfélag skólans og var formaður þess veturinn 2016-2017. Ég gegndi einnig ýmsum öðrum embættum innan nemendafélagsins í skólanum.
Utan skóla tók ég virkan þátt í félagsstarfi og var m.a. ráðgjafi í Ráðgjafarhóp Umboðsmanns barna frá vorinu 2015 fram á haust 2017 og meðlimur í Ungmennaráði Barnaheilla veturinn 2015-2016 samhliða því að vera virkur sjálfboðaliði í Samtökunum ´78.
 
1.3 Stutt samantekt á núverandi högum (m.a. fjölskylduhagir og annað sem frambjóðandi vill taka fram).
Ég er fædd og uppalin í Kópavogi þar sem ég bý með foreldrum mínum, eldri bróður og tvíburasystur. Ég er skáti, lestrarhestur og mikill tónlistarunnandi. Eins og er stunda ég nám við alþjóðlegan lýðháskóla í Danmörku sem heitir International People‘s College og mun ég vera búsett í Danmörku fram á sumar. Næsta haust stefni ég á nám við Háskóla Íslands.
 
1.4 Fyrri verkefni/störf innan Samtakanna '78.
Ég byrjaði að mæta á ungliðafundi hjá Samtökunum árið 2014. Í byrjun hausts 2015 byrjaði ég svo í jafningjafræðslu ´78 og hef verið virkur jafningjafræðari síðan. Í mars 2016 var ég kjörin í trúnaðarráð og gegndi þar embætti varaformanns fram að aðalfundinum í september 2016. Í september var ég kjörin aftur í trúnaðarráð og tók við embætti varaformanns á ný. Í byrjun febrúar 2017 var &e
acute;g tilnefnd af trúnaðarráði til að taka sæti í stjórn og tók þar við embætti ritara. Á aðalfundi í mars 2017 var ég kjörin sem meðstjórnandi í stjórn og hef gegnt þeirri stöðu síðan þá.
 
2.1 Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna '78 í dag og þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu árum?
Að mínu mati er staða Samtakanna góð í dag. Á síðustu árum hefur átt sér stað mikil uppbygging innan félagsins þrátt fyrir ólgu og tel ég félagið vera sterkara nú en nokkurn tímann áður.
Jafningjafræðslan hefur haldið áfram að blómstra líkt og áður fyrr, ungliðastarfið hlaut yfirhalningu sem var löngu tímabær og innra félagsstarf Samtakanna er gjörsamlega stútfullt af fjölbreyttum einstaklingum sem framkvæma og skapa ótrúlega hluti í hverri viku.
Stuðningur við hinsegin hælisleitendur hefur líka aukist á síðustu árum enda var mikil þörf á slíkri þjónustu hérlendis og fagna ég því framförunum sem hafa átt sér stað á því sviði.
 
2.2 Hver er þín sýn á starf Samtakanna '78 næstu 2-3 ár og á hvaða sviði telur þú þig geta lagt mest af mörkum? (Hvaða verkefnum þarf að sinna, hverju hefur þú helst áhuga á að vinna að sem stjórnarmeðlimur, í hvaða aðgerðir þarf að ráðast og svo framvegis.)
Fyrst og fremst vil ég sjá Samtökin ´78 halda áfram að beita sér fyrir réttindum hinsegin fólks á Íslandi og víðar. Ísland hefur dregist alltof mikið aftur úr í réttindabaráttu hinsegin fólks og því þarf að breyta. Til þess að þessar breytingar geti átt sér stað þurfa margir að leggja hönd á plóg og því er nauðsynlegt að sjálfboðaliðahópur Samtakanna stækki talsvert á næstu árum. Sömuleiðis þarf félagið fleiri starfsmenn enda hefur starfsfólk félagsins þurft að lyfta grettistaki síðustu ár til að halda félaginu gangandi og er óeðlilegt að slíkt álag liggi á þeim.
 
Jafningjafræðslan er mér alltaf ofarlega í huga og vona ég að aðsókn eftir fræðslum haldi áfram að aukast, þá vona ég líka að Samtökin geti staðið undir þeirri aðsókn með því að bæta við sig fleiri jafningjafræðurum.
Ég hef ýmislegt fram að færa sem getur nýst í starfi Samtakanna á komandi kjörtímabili. Til að mynda er ég og hef jafnan verið ein af yngstu manneskjunum sem starfar sem sjálfboðaliði innan félagsins og kem því með öðruvísi sjónarhorn að borðinu. Ég hef fengið tækifæri til að kynnast ýmsum þáttum starfsins persónulega bæði sem meðlimur ungliðahreyfingarinnar og jafningjafræðari og ég tel mig geta nýtt þá reynslu til að bæta starfsemi félagsins.
 

Leave a Reply