Skip to main content
FréttirHagsmunabarátta

Framtíð hinseginmála á Íslandi

By 23. október, 2017maí 28th, 2020No Comments

Fimmtudaginn 20. október buðu Samtökin ’78 fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem bjóða fram til alþingiskosninga í heimsókn. Líflegar umræður áttu sér stað á milli félagsfólks Samtakanna og frambjóðendanna. Sigurður Júlíus, varaformaður Samtakanna, flutti opnunarræðu sem brýndi fyrir frambjóðendunum að leggja meira fé til hinseginmála og þar með Samtakanna. Kitty Anderson, alþjóðafulltrúi, hélt svo tölu um lagalega aðstöðu hinsegin fólks á Íslandi og benti t.a.m. á regnbogakort ILGA Europe í því samhengi þar sem Ísland hefur dottið niður og uppfyllir nú aðeins 47% af lagalegum skilyrðum sem ILGA Europe vinnur út frá.

Frambjóðendurnir voru á einu máli þegar kom að lagalegu hliðinni og lofuðu því öll að vinna ötullega að því frumvarpi sem hefur verið í vinnslu innan Alþingis síðustu misseri. Flutningsmaður þess frumvarps er Svandís Svavarsdóttir en allir frambjóðendur hugðust styðja frumvarpið og jafnvel vera meðflutningsmenn á því, ef þau næðu kjöri.

Þegar kom að fjárhagslegu hliðinni þá kom það frambjóðendum á óvart hve lítið rekstrarfé Samtökin’78 fá úr ríkissjóði á ári og það má með sanni segja að nokkrum frambjóðendum hreinlega blöskraði. Flestir frambjóðendur voru sammála um mikilvægi Samtakanna og að tími væri kominn til að þau færu á fjárlög, og aukinheldur yrði rekstrarféð aukið töluvert.

Fundinum var “live tweetað” á twitterreikningi Samtakanna ’78 og má nálgast umræðurnar hér.

Að auki hafa þrjár stjórnmálahreyfingar sent Samtökunum stefnur sínar í hinsegin málum, Píratar, Samfylkingin og Vinstri græn.

Um leið og við í Samtökunum ’78 þökkum frambjóðendum innilega fyrir komuna og umræðuna þá erum við mjög bjartsýn á að þessi velvilji sem við fundum fyrir skili sér inn á næsta þing og inn í ráðuneytin eftir kosningar.

Leave a Reply