Þá er komið að síðasta styrktarballinu fyrir Hinsegin daga á þessu ári, sem haldið verður samkvæmt hefð á NASA, laugardaginn 7. júlí. Lofað er brjáluðu stuði undir öruggri handleiðslu hins eina sanna stuðbolta Páls Óskars, sem gefur vinnu sína þetta kvöld.
Nú er rétt rúmur mánuður í stórhátíðin Hinsegin daga í Reykjavík sem verður glæsilegri en nokkru sinni fyrr. Eins og allir vita eru Hinsegin dagar til vegna ómældrar sjálfboðavinnu fjölda fólks allt árið um kring, en síðustu vikurnar fyrir sjálfa hátíðina koma yfir eitt hundrað manns að því að gera hátíðina mögulega.
Umgjörðin utan um Hinsegin daga verður vandaðri með ári hverju, eftir því sem skipuleggjendum gengur betur að afla fjár til hátíðarhaldanna.
Einn mikilvægasti fjáröflunarliður Hinsegin daga eru styrktardansleikir. Undanfarin ár hefur síðasti styrktardansleikur ársins verið stórdansleikur á NASA og árið í ár er engin undantekning. Mætum öll og hitum okkur ærlega upp fyrir stórhátíðina sjálfa.
Miðaverð er 1.000 kr. og rennur óskipt til Hinsegin daga.
-Hinsegin dagar í Reykjavík