Skip to main content
Uncategorized

Hátíðarræða Guðrúnar Ögmundsdóttur, 27. júní 2006

By 27. júní, 2006No Comments

Góðir gestir – til hamingju með daginn!!!!!

Í dag eru tímamót. Tímamót þess að allir skulu jafnir fyrir lögum, hvern svo sem þeir kjósa að elska. Hommar og lesbíur fagna, þjóðin fagnar og unnendur mannréttinda og réttlætis fagna.

Nú erum við ein af þeim sem fremst standa í heiminum í dag. Við verðum fyrirmynd annarra þjóða. Alþingi Íslendinga hefur sýnt mikla framsýni og hefur unnið í takt við sína þjóð, því þjóðin hefur svo sannarlega stutt þá réttindabaráttu sem nú er í höfn. Viðurkenning á því að við erum ekki öll eins virðing og viðurkenning á fjölskyldulífi homma og lesbía hefur verið hornsteinn þeirrar umræðu.

Með samstöðunni er greinilega allt hægt. Þverpólitísk samstaða skiptir öllu í jafn mikilvægum málum. Við verðum samt alltaf að halda vöku okkar og aldrei sofna á verðinum og enn eru eftir ákveðin verkefni sem farið verður í strax í haust, og ég hlakka til þess. Það stendur enn eftir að trúfélög fái rétt til þess að staðfesta samvist, en slík heimild verður vonandi að veruleika strax á næsta þingi.  Ég hef fulla trú á því að þjóðkirkjan muni skipta um stefnu og taka öllum öllum einstaklingum fagnandi sem þar vilja staðfesta ást sína.

Umburðarlyndi og víðsýni er undirstaða allrar mennsku og menningar hjá einni þjóð. Mikil vinna er framundan þó svo að lagaleg staða sé nú í höfn. Þar eru Samtökin 78 í aðalhlutverki.
Fræðsla, fræðsla og aftur fræðsla er það sem koma skal. Fræðsla um margbreytileikann, fræðsla um fjölskyldumál, fræðsla um lífið sjálft. Margann kúrsinn þarf að rétta og laga og af mörgu er að taka.

Svo við tölum bara mannamál í tilefni dagsins:

Þá er bara drífa sig að skrá sig í sambúð,en slíkt gerðu margir í dag og lífeyrissjóður bænda opnar allar gáttir, bæturnar verða í lagi ef eitthvað kemur fyrir, Konur eru komnar í blóðprufur, aðrar komnar á listann til þess að komast í tæknifrjógvun, ekki þarf lengur að fara til Danaveldis. Ekkert vandamál með fæðingarorlofið.

Nú síðan er komið að hinum sem ætla að drífa sig og sækja litlu börnin sem bíða eftir þeim einhversstaðar í heiminu. Þeirra barna bíða svo sannarlega betri tímar. Fríkirkjan mun halda áfram að blessa þar til hún fær heimildina, og svo munu víðsýnir prestar þjóðkirkjunnar einnig gera Mennskan er þeirra megin.

Að lokum vil ég þakka fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt í öllu þessu ferli og allri þessari vinnu og jafnframt þakka af heilum hug allt það góða og gjöfula samstarf sem ég hef átt, við samtökin fyrst og fremst og ekki hvað síst við alla þá þingmenn sem veitt hafa málinu stuðning svo og ríkisstjórninni fyrir að tryggja framgang málsins. Við höfum svo sannarlega gegnið til góðs, götuna fram eftir veg

Enn og aftur til hamingju!

Copyright © Guðrún Ögmundsdóttir 2006
Tilvitnun er heimil sé heimildar getið

Leave a Reply