Skip to main content
search
HagsmunabaráttaSaga

Guðrún Ögmundsdóttir

By 29. september, 2019nóvember 15th, 2021No Comments

Stjórn Samtakanna ´78, félags hinsegin fólks á Íslandi, heiðrar Guðrúnu Ögmundsdóttur fyrir ómetanlegt framlag hennar í þágu hinsegin fólks og veitir henni í dag heiðursmerki félagsins. 

Guðrún Ögmundsdóttir sat á Alþingi á árunum 1999–2007 en það voru mikil örlaga- og átakaár í lífi lesbía, homma og tvíkynhneigðs fólks. Baráttan fyrir fullum rétti til fjölskyldulífs, sem hófst með framlagi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur árið 1992, lauk með áfangasigri fjórum árum seinna, eða árið 1996, þegar lög um staðfesta samvist fólks af sama kyni gengu í gildi. Fjórum árum seinna samþykkti Alþingi síðan lög um rétt til stjúpættleiðingar samkynja para en margt var óunnið og mörgu ábótavant. Forystufólk okkar vissi þó að sigrarnir yrðu aðeins unnir í áföngum. Það er alltaf og ævinlega hlutskipti þeirra sem standa á jaðrinum.

Þegar Guðrún settist á þing laust fyrir aldamótin síðustu hafði forystufólk Samtakanna ‘78 þá þegar hafið þreifingar við hinn nýja þingmann um að leggja baráttunni fyrir fjölskylduvernd lið. Og ekki stóð á Gunnu. Reyndar var það sjálfgefið, því að hafi samkynhneigt fólk átt hauk í horni um áratugi þá var það hún. Þegar aðrir þögðu þá talaði Guðrún, og þeir verða seint taldir í tölum, allir hommarnir, lífs og liðnir, sem áttu Gunnu að nánasta trúnaðarvini og leiðbeinanda – í heimi sem oft var harðari en mönnum er hollt.

Skemmst er frá að segja að í samráði við Samtökin ´78 lagði Guðrún fram þingsályktunartillögu árið 2003 þess efnis að Alþingi kallaði eftir rannsóknarskýrslu á högum samkynhneigðra og stöðu þeirra. Tillagan fól í sér setningu nefndar til að vinna málið og þar áttu hommar og lesbíur tvo öfluga fulltrúa. Til þess sá Guðrún á bak við tjöldin. Nefndin skilaði vandaðri skýrslu ári síðar og þá hófst glíma Guðrúnar við að móta frumvarp í löngum liðum sem varð að löglegum veruleika vorið 2006 og færði okkur fullan hjúskaparrétt – þó án kirkjulegrar íhlutunar í það sinn. Enn þyngra vó þó fullur ættleiðingarréttur para af sama kyni og réttur allra kvenna til tæknifrjóvgunar á opinberum sjúkrastofnunum. Nýr heimur blasti við fjölskyldum hinsegin fólks þann 27. júní 2006.

Víst vildi Guðrún ganga lengra og sá alla tíð fyrir sér fullan og óskoraðan hjúskaparrétt en mætti mikilli andstöðu innan þings hvað varðaði aðkomu þjóðkirkjunnar að því máli. Og ríkisstjórnin beygði sig fyrir vilja biskups. En verandi sá raunsæi stjórnmálamaður sem Guðrún er, þá vissi hún að það mál, eins og fleiri, yrði ekki unnið nema í áföngum síðar meir. Og svo varð, eins og við þekkjum öll.

Því að Guðrún Ögmundsdóttir er umfram allt stjórnmálamaður raunsæisins. Spurningin, hvert komumst við hverju sinni, hefur alla tíð verið hennar leiðarljós og skilað mörgum og ótrúlegum sigrum sem fæsta dreymdi um í árdaga. „Það er ekki ég sem er hér til umræðu, heldur málefnið,“ segir hún oft og iðulega, og sú afstaða hefur fært hinsegin fólki mikla sigra á liðnum árum. Fáir ef nokkrir þeirra sem sátu á þingi árin hennar þar höfðu viðlíka hæfileika til að ræða við andstæðinga sína, tala um fyrir þeim, færa fram rök og útskýra málefni án þess að fara fram með ógnun og andúð á þeim sem ekki skilja eða vilja skilja gildi hins jafna réttar til fjölskyldulífs. Að málið snýst um mannúð og mannvirðingu. Með sannfæringarkrafti sínum og viðmóti í samskiptum við félaga á Alþingi vann Guðrún stóra sigra í okkar þágu – og eru þeir þó margir, sigrarnir hennar Gunnu.

Hinsegin barátta er persónuleg barátta – og hún getur reynst fólki mjög erfið, því það er erfitt að þurfa að tala um fyrir fólki með eigin sjálfsmynd að veði. Þess vegna skiptir svo miklu máli þegar bandamenn stíga fram og nýta stöðu sína og völd í samfélaginu til þess að lyfta öðrum. Og Guðrún Ögmundsdóttir lyfti okkur svo sannarlega. 

Samtökunum ´78 er sannur heiður að því að mega sæma kæran vin og sterka baráttukonu heiðursmerki sínu hér í dag. Takk fyrir allt.  

Leave a Reply