Skip to main content
Uncategorized

Hátíðarræða á Hinsegin dögum 2007

By 11. ágúst, 2007No Comments

Kæru hátíðargestir.

Það er alla daga gott að vera gay. Mér liggur við að segja að það sé einstakt lán alla daga árið um kring. En í dag er það ekki bara gott, það er miklu betra en gott.

Dagurinn í dag er dagur frelsisins. Dagur þar sem gleðin, víðsýnin, uppátækjasemin og ögrandi fjölbreytileikinn er við völd, dagur þar sem gróskumikill hinsegin menningarheimur ræður ríkjum. Við erum að gleðjast yfir litadýrð mannlífsins.

Um leið erum við að þakka þeim sem á undan hafa farið. Við erum að þakka ykkur sem rutt hafið brautina, ykkur sem færðuð fórnir og liðu þjáningar til að við gætum öll fagnað frelsinu, við erum að þakka ykkur sem lagt hafið á ykkur ómælt erfiði til að við getum öll komið saman til að fagna.

Sumir vilja meina að réttindabarátta samkynhneigðra hér heima sé í raun að ná endamörkum, að brátt fari allra síðustu múrar misréttis að falla og fullum mannréttindum verði náð. Gott ef satt er.

En svo einfalt er það ekki. Af því að það að brjóta á bak aftur fjötra hugarfarsins, fjötra normsins, fjötra staðlanna, það er eilífðarverkefni, verkefni sem heldur áfram inn í framtíðina, löngu eftir að fullu lagalegu jafnrétti er náð.
 
Svo lengi sem einn einasti einstaklingur á Íslandi finnur til sársauka og vanmáttar fyrir sínar dýpstu langanir og heitustu tilfinningar, þá er verk að vinna. Svo lengi sem eitt einasta foreldri finnur til sorgar yfir hreinskilni barnsins síns, þá er verk að vinna. Og svo lengi sem einn einasti prestur á Íslandi, einn einasti biskup, álítur ást fullorðins fólks, heit þess og trúnað, vera ógnun við hið gagnkynhneigða hjónaband, þá er verk að vinna.

En jafnvel þótt ekkert væri verkið eftir að vinna í okkar eigin málum, jafnvel þótt allt væri nákvæmlega eins og það ætti að vera fyrir okkur, sem hér erum, þá höfum við og okkar samtök mikilvægu hlutverki að gegna.

Það er okkar ábyrgð að gleyma því aldrei að þegar einn hópur frelsast úr fjötrum sleggjudóma samfélagsins, þá tekur einatt annar hópur útskúfunar við. Sérhver samtími skapar sér nýja jaðarhópa, annars konar ánauð, fersk fórnarlömb nýrrar kynslóðar.

Hversu ólík sem við erum sem einstaklingar, hversu mismunandi sem við skilgreinum okkur og endurskilgreinum, þá búum við sameiginlega að sögu, arfleifð og upplifunum hins menningarlega jaðars, hinsegin jaðars sem hefur m.a. í gegnum tíðina verið skapandi, ögrandi og gróskumikill í heimi fordæmingar og þöggunar. Sú arfleifð og okkar veruleiki getur af innsýn og visku miðlað til samfélagsins alls – um fordóma og víðsýni, sársauka og ást, langanir og bælingu, tjáningu og þöggun, hugrekki og niðurlægingu, frelsi og fjötra. Frelsi og fjötra manneskjunnar allrar, og þá fyrirframgefnu staðla sem hana hefta á hverjum tíma.

Og þá skulum við muna það, kæru landar, að úti um allan heim eigum við bræður og systur í bókstaflegum hlekkjum, í hlekkjum og í lífshættu. Því sterkar sem okkar fjölbreyttu hinsegin raddir hljóma hér heima á Íslandi, þeim mun betur er Ísland sjálft í stakk búið til að vera rödd mannúðar í heiminum, hinsegin mannúðar.

Í fáum orðum sagt, ágætu hátíðargestir: Guði sé lof, já, henni sé lof, fyrir homma og lesbíur, tvíkynhneigða, transgender fólk, drottningar og allt og alla þar á milli, guði sé lof fyrir börn regnbogans. Mikið væri heimurinn allur fátæklegri án okkar. Mikið er Reykjavík skemmtilegri, litríkari og áhugaverðari með okkur.

Hún er flott borg í dag þessi Reykjavík, hún er okkar borg.

Gleðilega hátíð.

Copyright © Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Tilvitnun er heimil sé heimildar getið

Leave a Reply