Skip to main content
search
Uncategorized

Hátíðarræða við afhendingu humanistaviðurkenningu siðmenntar

By 22. október, 2005No Comments

Greinasafn – Loggjof og politisk baratta

Í dag er mikill gleðidagur fyrir íslenska húmanista. Þetta er í fyrsta sinn sem Siðmennt veitir einstaklingi eða félagasamtökum viðurkenningu Húmanista.

Það er mér því sönn ánægja að tilkynna það hér að Siðmennt hefur ákveðið að veita Samtökunum ´78 fyrstu íslensku viðurkenningu húmanista.

Samtökin ´78 hafa frá upphafi þurft að heyja harða baráttu fyrir því að samkynhneigðir einstaklingar njóti sömu mannréttinda og aðrir. Á heimasíðu Samtakanna segir m.a.:

?Markmið félagsins er að vinna að því að lesbíur og hommar verði sýnileg og viðurkennd og að samkynhneigðir njóti jafnréttis við aðra í íslensku samfélagi. Það er gert með því að berjast fyrir margvíslegum mannréttindum lesbía og homma og efla fræðslu um reynslu þeirra og sérkenni, eftir þeim leiðum sem árangursríkastar þykja hverju sinni, svo sem á vettvangi löggjafarvaldsins, í opinberu fræðslukerfi, með útgáfu og í fjölmiðlum.?

Barátta Samtakanna 78 hefur ætíð einkennst af æðruleysi, hógværð og festu. Æðruleysi Samtakana hefur birtist í því hvernig félagið hefur tekið á þeim ótrúlegu fordómum sem þrifust hér fyrir ekki svo mörgum árum síðan án þess að hafa gripið til óþarflega ?róttækra? ráða. Hógværðin birtist í því að Samtökin hafa ætíð haft skýra stefnu og barist fyrir henni án hamagangs. Festan lýsir sér í því hvernig Samtökin hafa ætíð staðið á sinni skoðun en aldrei vikið þrátt fyrir oft mikla fyrirstöðu og fordóma sem þau hafa mætt frá háum sem lágum.

Það er söguleg staðreynd að í öllum löndum og í marga áratugi er hefð fyrir þátttöku homma og lesbía í Húmanistafélögum eins og Siðmennt. Þetta er vegna þess að Húmanistar hafa í gegnum tíðina lagt áherslu á umburðarlyndi og telja þar með að fullorðið fólk eigi að hafa fullt frelsi til að fylgja kynhneigð sinni að eigin vild. Húmanistar hafa því alls staðar stutt baráttu samkynhneigðra og tvíkynhneigðra með ótvíræðum hætti og án skilyrða. Fá önnur lífsskoðunarfélög hafa tekið svona skýra afstöðu í þessum málum. Stuðningur við mannréttindabaráttu homma og lesbía og fullt frelsi varðandi kynhneigð kemur fram í stefnuyfirlýsingu Alþjóðasamtaka Húmanista (International Humanist and Ethical Union) sem Siðmennt er aðili að og eru regnhlífarsamtök Húmanista, rökhyggjumanna (Rationalista), efahyggjumanna, guðleysingja, fríkþenkjara og trúleysinga.

Sambærileg yfirlýsing hefur verið hluti af stefnuskrá Siðmenntar frá upphafi eða frá árinu 1990 en í henni segir m.a.: ?Siðmennt virðir réttinn til einkalífs. Fullorðið fólk á þar að hafa fullt frelsi til að velja og hafna .. og fylgja kynhneigð sinni að eigin vild.?

Barátta samkynhneigðra var, er og verður barátta um mannréttindi. Þessi atriði eru grundvallaréttindi eins og lýst er í kynningu hér á undan um almenna rökstuðningi við veitingu viðurkenningar húmanista á Íslandi. Í 2. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna stendur:

?Hver maður skal eiga kröfu á réttindum þeim og því frjálsræði, sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.?

Og 6. grein staðhæfir: ?Allir menn skulu, hvar í heimi sem er, eiga kröfu á að vera viðurkenndir aðilar að lögum.? Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi hefur lengi litið upp til Samtakanna 78 sem fyrirmyndar mannréttindasamtök. Eitt af slagorðum okkar er að það er dýrmætt að eiga val í lífinu og að það er í lagi að vera öðru vísi. Við í Siðmennt teljum að Samtökin 78 hafi gert meira til að gera íslenskt samfélag umburðarlyndara og víðsýnna en nokkur annar aðili síðastliðin aldarfjórðung! Samtökin 78 hafa sýnt almenningi fram á það að það er allt í lagi að vera öðruvísi, að það auðgar samfélagið að hafa fólk sem er með aðra kynhneigð og sýn á lífinu. Þið hafið sýnt þetta í verki að það er pláss fyrir alls konar fólki. Þetta hvetur okkur í Siðmennt til dáða.

Til hamingju!

Leave a Reply