Skip to main content
Uncategorized

Hatursáróður: Við berum öll ábyrgð

By 29. október, 2010No Comments

Navi Pillay Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna skrifar:
 
Seth Walsh var þrettán ára gamall þegar hann hengdi sig í garði heimilis sins í Tehachapi í Kaliforníu í síðasta mánuði. Hann hafði mátt sæta þola stríðni og árásir sökum kynhneigðar sinnar bæði í skólanum og hverfinu.  Hann var í hópi sex táninga í Bandaríkjunum sem sviptu sig lífi í september vegna ágengni hatursmanna samkynhneigðra.   

 
Á síðustu vikum höfum við horft upp á röð árása á fólk sem grunað er um að vera  hommar, lesbíur, tvíkynhneigt eða transgender. 10. október réðst hópur fólks í Belgrad á friðsama Gay pride göngu og köstuðu Molotov-kokkteilum og hávaða- og reyksprengjum að fólkinu með þeim afleiðingum að 150 særðust.
 
3. október var þremur mönnum sem grunaðir voru um samkynhneigð rænt og þeir látnir sæta hrikalegum pyntingum og árásum í tómri íbúð í Bronx í New York.   
 
Fjölmenn mótmælaganga var í Soweto í Suður-Afríku til að vekja athygli á tíðum nauðgunum lesbía undir því yfirskyni að það þyrfti að “leiðrétta” kynhneigð þeirra.
Hatur á samkynhneigðum, rétt eins og kynþátta- og útlendingahatur, er til í mismunandi mæli í öllum samfélögum.  Á hverjum einasta degi og í hverju landi eru einstaklingar ofsóttir, og jafnvel drepnir vegna kynhneigðar sinnar og kynímyndar. Oft liggur hatursofbeldi í þagnargildi og fórnarlömbin þjást í einsemd.
 
Það er tími til kominn til að við látum öll í okkur heyra. Fremjendur hatursglæpa bera sjálfir ábyrgðina, en það er sameiginlega skylda okkar að bregðast við umburðarleysi.og fordómum og krefjast þess að árásarmenn verði látnir sæta ábyrgð.  
 
Fyrst í forgangsröðinni er að þrýsta á að banni við samkynhneigð sé aflétt um allan heim. Einstaklingar eiga yfir höfði sér refsingar í meir en 70 löndum á grundvelli kynhneigðar sinnar.  Þeir sem slík lög ná til eiga sífellt á hættu handtöku, frelsissviptingu og í sumum tilfellum pyntingar og jafnvel aftöku.  Lögin ala á fordómum og stuðla að haturs- og ofbeldisfullu andrúmslofti.
 
En þótt lagalega hliðin sé mikilvæg er þetta aðeins fyrsta skrefið.  Við þekkjum af reynslu ríkja sem hafa afnumið lagalegar þvinganir af þessu tagi, að þörf er á umfangsmeiri og einbeittari aðgerðum til að stemma stigu við mismunun og andúð á samkynhneigðum, þar á meðal í lagasetningu og með átaki í skólum.  Hér höfum við enn öll hlutverki að gegna , sérstaklega þeir sem eru í valda- og áhrifastöðum, þar á meðal stjórnmálamenn, samfélagsleiðtogar, kennarar og blaðamenn.   
 
Því miður ertu allt of mörg dæmi um að einmitt þeir sem ættu að nota áhrif sín til að tala máli umburðarlyndis gera hið gagnstæða og ala á almennum fordómum. Í Úganda er landlægt ofbeldi gegn fólki vegna kynhneigðar þeirra og jafnframt sæta verjendur mannréttinda homma, lesbía og transgender harðræði og hótunum um frelsissviptingu. Þar birti dagblað 2. október forsíðufrétt þar sem 100 Úgandabúar voru með nafn- og myndbirtingu sakaðir um samkynhneigð undir fyrirsögninni “hengjum þau”. Það er tími til kominn að við kveðum upp úr með það að slík blaðamennska er ekkert annað en hvatning til haturs og ofbeldis.
 
Stjórnmálamenn og frambjóðendur til opinberrar þjónustu hafa sérstökum skyldum að gegna um að haga orðum sínum skynsamlega. Frambjóðandi sem í stað þess að hvetja til umburðarlyndis, lætur niðurandi ummæli falla um folk á grundvelli kynhneigðar, gerir slíkt hugsanlega í þeirri trú að slíkt sé skaðlaust lýðskrum en í raun og veru er verið að leggja blessun yfir hatur á samkynhneigðum.
 
Í síðasta mánuði tók ég þátt í pallborðsumræðum í Genf um afnám við banni við samkynhneigð. Í ávarpi sem leikið var af myndbandi talaði Desmond Tutu, fyrrverandi biskup af ástríðu, um þann lærdóm sem draga má af kynþáttaaðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku og þá áskorun sem það er að tryggja jafnrétti allra. “Hatur og umburðarleysi hrósar sigri í hvert skipti sem hópur fólks er settur skör lægra en aðrir,” sagði hann. Hundruð manna ættu ekki að þurfa að gjalda með lífi sínu til að sannfæra okkur um sannleik þessara orða. Það er ábyrgð okkar allra að krefjast jafnréttis fyrir samborgara okkar, hver sem kynhneigð þeirra eða kynímynd er.  
 
(Þessi grein birtist í dagblöðum austanhafs og vestan, þar á meðal Washington Post og Fréttatímanum á Íslandi)

 

Leave a Reply