Þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu 18.04.2023
Að vera trans er að upplifa sig í öðru kyni heldur en gert var ráð fyrir við fæðingu. Þessi upplifun er sönn og studd bæði af vísindasamfélaginu og helstu heilbrigðisstofnunum heimsins. Öll höfum við kynvitund, en í tilviki trans fólks passar sú kynvitund ekki við líkamleg einkenni eða félagslega ráðandi hugmyndir um kyn. Þetta getur valdið djúpstæðri vanlíðan, svokölluðum kynama, sem hægt er að meðhöndla með ýmsum leiðum.
Víða í samfélaginu gætir töluverðs misskilnings um trans börn og ungmenni og þær meðferðir sem standa þeim til boða. Hér verður gerð tilraun til að útskýra málin á einfaldan hátt.
Þegar ung börn koma út sem trans snýst meðferð þeirra eingöngu um félagslega þætti. Það þýðir að þeim er leyft að klæða sig í þau föt sem þau vilja fara í, að nota það nafn og fornöfn sem þau velja og að leyfa þeim að klippa hárið eins og þau vilja sjálf. Engin lyf koma við sögu, enda er líkami barna nær alveg eins á þessum árum óháð kyni. Allar félagslegar breytingar af þessu tagi eru fullkomlega afturkræfar, enda er engra líkamlegra inngripa krafist til þess að veita ungu barni frelsi til að vera það sjálft.
Öll trans börn eða ungmenni sem vilja sækja heilbrigðisþjónustu þurfa að fara í gegnum greiningu og meðferð hjá trans teymi BUGL. Mörg trans börn sem komin eru á kynþroskaaldur kjósa, í samráði við lækna og foreldra, að nota hormónabælandi lyf sem halda aftur af kynþroska. Áhrif þeirra eru afturkræf.
Ástæðan fyrir því að haldið er aftur af kynþroska trans barna er að hann veldur breytingum á líkamanum sem mjög erfitt er að lagfæra eftir á. Hins vegar, ef barn kýs að hætta notkun hormónabælandi lyfja, hefst kynþroski af fullum krafti. Lyf af þessu tagi hafa verið notuð til þess að stöðva ótímabæran kynþroska hjá ungum börnum um áratugaskeið.
Þegar ungmenni hafa náð 16 ára aldri og hafa sjálfstæðan rétt til ákvarðanatöku varðandi heilbrigðisþjónustu samkvæmt íslenskum lögum, er möguleiki á því að hefja hormónameðferð. Það eru þó ekki öll ungmenni sem hefja hormónameðferð strax við 16 ára aldur, því stundum er það mat sérfræðinga BUGL að bíða þurfi lengur. Þannig fá trans stúlkur estrógen og trans strákar testósterón, en hormónagjöf kynsegin ungmenna er í samræmi við vilja þeirra. Hormónagjöfin setur af stað breytingar á líkama sem svipar til kynþroska, en í samræmi við kynvitund ungmennisins.
Í tilviki bæði hormónabælandi lyfja og hormóna eru barnið og foreldar upplýst um allt sem meðferðin hefur í för með sér, m.a. allar þær aukaverkanir sem slík meðferð getur haft.
Engar skurðaðgerðir eru framkvæmdar á börnum undir 18 ára aldri á Íslandi. Kjósi fullorðið fólk að fara í skurðaðgerðir, t.d. brjóstnám, brjóstauppbyggingu eða kynfæraaðgerðir, er það gert í gegnum trans teymi fullorðinna á Landspítala. Mikilvægt er þó að fram komi að trans fólk þarf ekki að fara í aðgerðir eða í hormónameðferð til þess að fá lagalega viðurkenningu á því hver þau eru.
Þjónustan sem trans börn og ungmenni fá hefur jákvæð áhrif á líf þeirra og líðan, líkt og fjöldi alþjóðlegra rannsókna staðfestir.
Það er lágmarkskrafa að fólk sem tjáir sig um málaflokkinn byggi staðhæfingar sínar á réttum upplýsingum, en því miður er það ekki alltaf raunin. Það er von okkar að með réttum upplýsingum sjái fleira fólk í gegnum málflutning sem á fyrst og fremst rætur sínar í andúð og ósannindum.
Ólöf Bjarki Antons, formaður Trans Íslands
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, verkefnastjóri hjá Samtökunum ‘78