Skip to main content
search
Uncategorized

Heildarframlög til hinsegin mála kosta minna en einn skitinn ráðherrajeppi

By 23. mars, 2015No Comments

Það má með sanni segja að aðalfundur Samtakanna '78 hafi vakið nokkra athygli. Kannski engin furða. Það voru nefnilega tvö stór mál sem stóðu upp úr frá fundinum. Annars vegar það að félagar samtakanna skyldu sýna þá víðsýni, framsýni og hugrekki að stækka enn hinsegin regnhlífina og bjóða fleiri hópum formlega í hópinn. Hins vegar að velta Samtakanna '78 og opinber framlög til þeirra séu jafn hlægilega lítil og raun ber vitni.

Jeppinn hans Gunnars Braga dýrari

Seinna atriðið er auðvitað sérstaklega stingandi í ljósi þess mikla starfs sem fer fram á vettvangi samtakanna og þeirrar staðreyndar að hið opinbera er nánast ekki að setja krónu í málefni hinsegin fólks fyrir utan það smotterí sem rennur til samtakanna. Stjórn samtakanna hefur líka rekið sig á það undanfarið ár að í samanburði við opinberar fjárveitingar til annarra félaga og hópa eru fjárveitingar til félagsins, og hinsegin mála almennt, alger brandari. Sett í samhengi við aðra hluti verður þetta nánast grátlegt. Samtökin ´78 fengu greitt u.þ.b. 8,5 milljónir króna frá ríki og borg á síðasta ári. Það er töluvert minna fé en þótti rétt að setja í nýjan jeppa fyrir Gunnar Braga utanríkisráðherra síðast þegar var endurnýjað. Og hans jeppi var nú samt með þeim ódýrari. 

Áratuga þjónusta við velferð landsmanna lítils metin

Áratugastarf samtakanna, sem hefur snert gríðarlega margar fjölskyldur þessa lands og hjálpað ótalmörgu fólki er ekki metið sem skyldi. Það er tímabært að hið opinbera viðurkenni þetta starf og þá staðreynd að sértæk þjónusta, fræðsla og aðstoð félagsins skiptir fjölda fólks verulegu máli á hverjum degi og léttir um leið undir með opinberu velferðarkerfi. Þá er ótalið öll sú vinna sem félagið vinnur á öðrum vettvangi, s.s. þegar það reynir af veikum mætti að berjast gegn misrétti sem fólk verður fyrir í kerfinu, þegar það tekur þátt í að móta löggjöf með ólaunuðum nefndarsetum eða að vakta löggjafann með umsögnum um lagafrumvörp og regluverk stofnana hins opinbera. 

Lítill skilningur á því að greiða þurfi sanngjarnt verð fyrir þjónustu
Samtökin '78 eiga náið samtal við ríki og sveitarfélög og er því kunnugt um að innan kerfisins er skilningur á starfi þeirra, og jafnframt ósk um að félagið sinni þjónustu. Fagfólk er meðvitað um að sérfræðiþekking innan samtakanna á hinsegin málefnum er ómetanleg og að hana sé hvergi að finna hjá hinu opinbera. Hvorki hjá ríki né borg.

Það er hins vegar eins og þessi skilningur skili sér ekki nema að hálfu leiti upp í efri lögin. Til þeirra sem taka ákvarðanir um fjárveitingar. Það virðist vera skilningur hjá mörgum á mikilvægi starfsins. En skilningurinn minnkar þegar kemur að því að greiða sanngjarnt verð. Það er nefnilega ítrekað leitað til félagsins með stórt og smátt – og ætlast til þess að það sé gert fyrir ekki neitt. Samtökin hafa alltaf tekið öllum beiðnum opnum örmum og runnið blóðið til skyldunnar. Sett hjartað og sálina í verkefnin frekar en að krefjast sanngjarnrar greiðslu. Vitandi það að mögulega þurfi að hafna næstu beiðni vegna þess ráðgjafarnir og annað starfsfólk eru illa launuð og úrvinda og sjálfboðaliðarnir uppteknir við að brauðfæða sjálfa sig og sína nánustu á öðrum vettvangi. 

Krafa um sanngjarna greiðslu fyrir þjónustu – ekki betl um ölmusu

Verkefnin eru fjölmörg. Þau sem Samtökin '78 sinna í dag eru helst félags- og sálfræðiráðgjöf (með fimm manna ráðgjafateymi), fræðslustarf (með fræðslustýru í hálfu starfi og nokkrum fjölda sjálfboðaliða), og ungilðastarf (einnig sjálfboðið starf) þar sem veittur er stuðningur hinsegin ungmennum sem eru mörg hver að stíga sín fyrstu skref inn í 'fullorðinsheima' og finna sjálf sig. Í raun hefðu Samtökin '78 engar áhyggjur af lágum fjárveitingum ef þau vissu af því að verið að væri að setja fjármagn í málaflokkinn annars staðar. En því er bara ekki að heilsa. Fjármagn til málefna hinsegin fólks á Íslandi er vart mælanlegt.

Í þessu samhengi er einnig rétt að ítreka að ósk um fjárveitingar eru ekkert betl. Fjárveitingarnar eru engin ölmusa. Hér er einfaldlega um að ræða sanngjarna kröfu um að greitt sé fyrir þjónustu við samfélagshóp sem samfélagið hefur vanrækt hingað til og oftast lítið vilija vita af. Það er ekki til of mikils mælst. Hinsegin fólk á Íslandi á það í raun inni.

Verkefnin sem bíða eru fjölmörg

Með auknu fjármagni gætu samtökin verið að gera svo miklu, miklu meira. Þau gætu verið að liðsinna fólki sem er mismunað af kerfinu (t.d. með lögfræðiaðstoð), þau gætu verið að vinna með löggæslu, dómsstólum og saksóknurum að því að þjálfa starfsfólk þessara embætta til að fást af virðingu við málefni tengd hinsegin fólki (en þar er oft pottur brotinn). Samtökin myndu líka gjarnan taka að sér að fræða starfsfólk í heilbrigðis- og félagskerfinu (en það eru brögð að því að hinsegin fólk neiti sér um læknisþjónustu vegna fordóma og þröngs&ya
cute;ni). Þau myndu vilja vinna með löggæslu og dómsvaldi að skráningu hatursglæpa og baráttunni við þá. Þau myndu gjarnan sjá að gerðar yrðu ítarlegri rannsóknir og greiningar á líðan og högum hinsegin fólks, eins og gert er annars staðar. Tölfræði um íslensk hinsegin fólk er nánast ekki til – sem gerir okkur auðvitað erfitt um vik að henda reiður á vandamálin og bregðast við þeim.

Lokaorð

Ég vonast til að að þessi umfjöllun hreyfi örlítið við ráðafólki, sjái það þetta á annað borð. Ég vil nefnilega ekki trúa öðru en að hér sé bara um ákveðið hugsunarleysi að ræða. Að það þurfi bara að flytja kíkinn svolítið til, þurrka af linsunni og stilla fókusinn.

Svona! 🙂

P.s. 

Ég lýk þessu með því að benda á umfjöllun um þessi mál, og aðalfund Samtakanna '78, í nokkrum miðlum. Hér fjallar Kjarninn um ákall samtakanna um aukinn opinberan stuðning. Hér talar formaður í síðdegisútvarpi Rásar 2 um brandarann sem felst í árlegum framlögum og hér fjallar hann um sama efni í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar. Hér fjallar mbl.is um hvernig samtökin hafa stækkað hinsegin regnhlífina. 

Uppfært 24.3.15: Höfundur tók út tilvísanir í árshátíð ISAVIA þar sem honum var bent á að samanburður gæti verið villandi.

Leave a Reply