Skip to main content
FréttirStjórn

Helga Baldvins Bjargar nýr framkvæmdastjóri

By 24. nóvember, 2016nóvember 16th, 2021No Comments

Í kjölfar þess að Auður Magndís Auðardóttir framkvæmdastýra sagði starfi sínu lausu var auglýst eftir umsóknum um stöðu hennar í októberlok. Alls bárust fjórtán umsóknir frá fjölbreyttum hópi fólks og þökkum við umsækjendum kærlega fyrir góðar umsóknir og sýndan áhuga.

Úrvinnsla umsókna var í höndum stjórnar félagsins og tveggja mannauðsráðgjafa, Ragnheiðar Stefánsdóttur og Írisar Neri Gylfadóttur. Eftir mat á umsóknum og viðtölum var það einróma niðurstaða stjórnar og mannauðsráðgjafa að bjóða Helgu Baldvinsdóttur Bjargardóttur stöðu framkvæmdastjóra félagsins. Helga þáði boðið og gerum við ráð fyrir að hún hefji störf um mánaðamótin desember/janúar.

Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir útskrifaðist árið 2014 með meistaragráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík með áherslu á mannréttindalögfræði, einkum réttindi fatlaðs fólks. Þá hefur hún lokið diplómanámi í fötlunarfræði og BA-prófi í lögfræði frá Háskóla Íslands, auk BA-gráðu í þroskaþjálfun frá Kennaraháskóla Íslands. Frá árinu 2014 hefur Helga gegnt stöðu sérstaks ráðgjafa í málefnum fatlaðs fólks hjá Stígamótum. Í starfinu hefur hún m.a. veitt ráðgjafarviðtöl fyrir fatlaða þolendur kynferðisofbeldis, sinnt fræðslustarfi um réttarkerfið og kynferðisofbeldi og unnið að alþjóðlegum samstarfsverkefnum.

Helga hefur víðtæka reynslu af verkefnastörfum hjá hinu opinbera í tengslum við mannréttindi, m.a. hjá innanríkisráðuneytinu, velferðarráðuneytinu og ýmsum sveitarfélögum. Sem lögfræðingur hefur Helga kunnáttu í samningagerð og yfirgripsmikla þekkingu á íslensku lagaumhverfi, einkum hvað viðkemur mannréttindum. Að auki býr hún býr yfir greinargóðri þekkingu á réttindabaráttu hinsegin fólks og tengslum hennar við þróun mannréttindabaráttu í víðara samhengi.

Við bjóðum Helgu hjartanlega velkomna til starfa og hlökkum til þess að halda áfram að efla og styrkja félagið í samstarfi við hana.

Leave a Reply