Kasha Jacqueline Nabagesera, mikilvirt baráttukona fyrir réttindum hinsegin fólks í Úganda, sækir Íslendinga heim nú í apríl.
Í Úganda er samkynhneigð bönnuð með lögum og víða í Afríku nýtur hinsegin fólk ekki mannréttinda og í nokkrum löndum í álfunni liggur dauðarefsing við samkynhneigð.
Kasha Jacqueline Nabagesera er gestur Íslandsdeildar Amnesty International sem stendur að fyrirlestrinum og sýningu kvikmyndarinnar í samvinnu við Samtökin '78, Hinsegin daga, Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við HÍ, Alþjóðlega jafnréttisskólann við HÍ og Bíó Paradís.
Sunnudaginn 21. apríl heldur Kasha Jacqueline Nabagesera stutt erindi og tekur þátt í pallborðsumræðum um hlutverk frjálsra félagasamtaka í baráttu hinsegin fólks og hvað slík samtök geta gert betur málstaðnum til framdráttar. Erindið og pallborðsumræðurnar verða haldin á skrifstofu Amnesty International að Þingholtsstræti 27, 101 Rvk, 3. hæð og hefjast að loknum aðalfundi, sem byrjar kl. 14. Allir velkomnir!
Þriðjudaginn 23. apríl kl. 20:00 verður sýnd heimildamyndin Kallið mig Kuchu sem fjallar um baráttu samkynhneigðra í Úganda. Að sýningu myndarinnar lokinni svarar Kasha Jacqueline Nabagesera fyrirspurnum úr sal . Sýning myndarinnar fer fram í Bíó Paradís. Við hvetjum ykkur öll til að mæta! Miðaverð: 750 kr.
Miðvikudaginn 24. apríl flytur Kasha Jacqueline Nabagesera hádegisfyrirlestur um mannréttindabaráttu hinsegin fólks í Öskju stofu 132, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn hefst kl.12:00 og stendur til kl.13:00. Verið velkomin!
Nánar um Kasha Jacqueline Nabagesera og baráttu hennar:
Nabagesera hefur oft hætt lífi sínu fyrir málstaðinn og þrátt fyrir ofsóknir og morðhótanir lætur hún ekki deigan síga heldur ferðast vítt og breitt um heiminn til að kynna málefnið.
Nabagesera er jafnframt stofnandi og framkvæmdastjóri samtaka sem kallast Freedom and Roam Uganda en þau eru ein megin baráttusamtök hinsegin kvenna í landinu.
Nabagesera hefur sýnt takmarkalaust hugrekki með því að koma fram á opinberum vettvangi í Úganda, ein sú fyrsta úr samfélagi hinsegin fólks, og tala gegn hómófóbíu m.a. í ríkissjónvarpi og útvarpi.
Árið 2010 birti úgandíska fréttablaðið Rolling Stone myndir og nöfn landa sinna sem blaðið staðhæfði að væri hinsegin fólk, undir fyrirsögninni „Hengjum þau“! Nafn Nabagesera og samstarfsfélaga hennar David Kato var meðal þeirra sem birt var í blaðinu ásamt mynd en þau kærðu síðar fréttablaðið fyrir að hvetja til ofbeldis í garð hinsegin fólks og brutu þannig blað í mannréttindabaráttunni í Úganda. Nabagesera skýrði sjálf þetta skref þannig að þau hafi gert tilraun til að „vernda það einkalíf og öryggi sem allir eiga rétt á“. David Kato var síðar myrtur í kjölfar lagadeilunnar við blaðið.
Nabagesera er starfandi endurskoðandi en nam lögfræði og lauk gráðu í mannréttindalögum í Úganda sem hefur styrkt hana í baráttunni. Hún hefur bent á að ríkisstjórn Úganda brjóti stöðugt alþjóðlega mannréttindasamninga sem stjórnvöld hafa undirritað og fullgilt.
Í október árið 2011 vann hún til Martin Ennals-verðlaunanna fyrir starf sitt í þágu mannréttinda, en hún er fyrsti samkynhneigði einstaklingurinn til að hljóta verðlaunin.
Verðlaunin eru viðurkenning á þrautseigju og staðfestu Nabagesera við að berjast fyrir rétti hinsegin fólks og binda enda á andrúmsloft ótta sem það upplifir dag hvern í Úganda. Baráttuhugur Nabagesera er baráttufólki fyrir mannréttindum hinsegin fólks um heim allan mikill innblástur.