Ég veit að kennarar leggja stund á umræður í skólastofunni út af margvíslegum málum sem skjóta upp kollinum. Hinsegin efni eru mjög líklega á dagskrá hjá einhverjum nú þegar. En ég held að ef leggja á út frá kynhneigð þurfi að undirbúa það vel, t.d. með því að fara í gegnum eldri kennslugögn þar sem gagnkynhneigða normið er yfirþyrmandi og að semja ný kennslugögn þar sem jafnvægi og jafnræðis er gætt. Ég held að þetta sé eitt af stóru verkefnunum á næstu árum: að endurskoða námsefni út frá hinum sjónarhornunum. Eða út frá fleiru en einu sjónarhorni líkt og kappkostað er í flestöllum námsgreinum.
Sum börn eiga einfaldlega tvær mömmur, önnur tvo pabba, og enn önnur samkynhneigt einstætt foreldri, eða hvaðeina annað. Þá eru í hverjum skóla kennarar sem ekki eru gagnkynhneigðir, og unglingar sem eru að uppgötva óvænta kynhneigð sína. Misrétti og kæruleysi gagnvart fordómum í garð þeirra hefur aldrei verið réttlætanlegt, en er aukinheldur hlálegt á þriðja árþúsundinu e.Kr.
Ef umræðan er engin í skólum og jafnvel frumfræðsla um kynfærin feimnismál, þá er jarðvegurinn fyrir fordóma og sársauka góður, og líkur á brotinni eða veikri sjálfsmynd miklar. Samt er eitt af aðalmarkmiðum skóla að byggja upp sjálfstæða einstaklinga með sterka sjálfsmynd.
Vissulega munu einhverjir foreldrar bregðast ókvæða við góðri fræðslu og umræðu í skólum um kynhneigð, og jafnvel hringja hneykslaðir í skólana og gera tilraun til að banna að börum þeirra verði veitt þessi samfélagslega fræðsla. Þeir sem það gera eru aftur á móti komnir út fyrir endimörk valda sinna, því þeir væru að hindra miðlun þekkingar og auka líkur á kvalafullum fordómum. Einnig er efi um að börnin geti eftir fræðslu myndað sér sjálfstæða skoðun. Nemendur ættu að vera betur færir um að lesa samfélagið og valdabaráttuna í því eftir fræðslu um alla þessa hornsteina. Og að sjá útlínur hins risavaxna norms og áráttu til að steypa alla í sama mót.
Gunnar Hersveinn í Morgunblaðinu 2002.