Eftir að ný stjórn Samtakanna 78 tók til starfa á vordögum, var hafist handa við að móta alþjóðastarf félagsins og hefur nýr stjórnarmaður, Hilmar Magnússon haft umsjón með þessum þætti starfseminnar. Fljótlega var hafist handa við að móta stefnu í málaflokknum og í lok apríl voru á trúnaðarráðsfundi kynntar tillögur að markmiðum og aðgerðum. Í því skyni var gefið út lítið rit er fékk nafnið „Hinsegin útrás mannréttinda.“
Í ritinu voru ýmis markmið og leiðir að þeim reifuð, en eins og nafnið gefur til kynna var meginþunginn lagður á mannréttindi á alþjóðavettvangi. Frá upphafi hefur aðaltakmarkið með þeirri áherslu verið fólgið í að leggja íslensk lóð á vogarskálar jafnra tækifæra, aukinna réttinda og betra lífs fyrir samkynhneigt, tvíkynhneigt og transgender fólk (STT) um heim allan. Undirmarkmiðin hafa m.a. gengið út á að skapa meiri breidd í starfi Samtakanna 78, gera starfsemina sýnilegri, veita félaginu enn meiri þyngd í þjóðfélagsumræðunni, auka tengsl við önnur mannréttindafélög sem og að efla starfsandann innan félagsins.
Einnig var lagt til að unnið yrði að markmiðunum með ýmsum hætti og var hér aðallega um að ræða stofnun aðgerðahóps, útsendingar ályktana og fréttatilkynninga, áskoranir á stjórnvöld og samstarf við önnur félög. Þá var hugsanlegri útfærslu á aðgerðum gefinn gaumur. Í stefnuritinu var einnig fjallað um tengsl við systursamtök Samtakanna 78 erlendis, starf innan Evrópu- og heimssamtakanna, menningarsamstarf og fleira. Hér verður þó púðrinu aðallega varið í mannréttindastarfið, þar sem það er lengst á veg komið.
Framkvæmd stefnunnar – Verndarvættirnar verða til
Strax að loknum trúnaðarráðsfundi var farið af stað í að koma ýmsum þáttum stefnunar í framkvæmd. Hugmyndir höfðu áður verið uppi innan Amnesty International að stofna aðgerðahóp er einbeitti sér að málefnum STT-fólks. Þar sem þá þegar hafði skapast gott samband milli aðila innan Samtakanna 78 og Amnesty, var því í rauninni ekkert því til fyrirstöðu að hefja samstarf. Kostirnir við slíkt samstarf eru fjölmargir. Stærra félaganet er eitt, en einnig má nefna þekkingu, því hér samnýtist þekking á málefnum STT-fólks, þekking á aðgerða- og hópastarfi, sem og samnýting faglega unninna upplýsinga varðandi mannréttindamál. |
Í maí var svo boðað til stofnfundar. Hópurinn fékk nafnið Verndarvættirnar og hafa þær fundað reglulega síðan og haft í nógu að snúast. Stuttu eftir stofnun fór hópurinn til dæmis að huga að þátttöku í Gleðigöngu Hinsegin daga og má segja að aðaláherslan hafi verið lögð á þann þátt starfsins þessa fyrstu mánuði. Mikil og góð undirbúningsvinna fór í Gleðigönguna, en óhætt er að segja að hún, ásamt aðgerðinni á Arnarhóli í kjölfarið hafi þegar á heildina er litið heppnast vel.
Atriði Verndarvættanna var þannig úr garði gert að fremst fóru vaskar Vættir með bleikan borða sem á var letrað svörtum stöfum slagorð aðgerðarinnar „Ólögleg í 100 löndum“, sem vísar til þess að samkynhneigð er með einum eða öðrum hætti ólögleg í u.þ.b. 100 ríkjum heimsins. Borðinn var aðeins forsmekkurinn, því bæði litirnir sem og slagorðið voru bleiki þráðurinn í öllu því sem á eftir fylgdi. Í humátt á eftir borðanum mjakaðist bíll eftir götunni og bar hann með sér harla óvenjulegan farþega, nefnilega risastóran bleikan hnött. Þarna mátti einnig sjá fjöldann allan af bleikum helíumblöðrum sem göngumenn réttu hundruðum barna á öllum aldri. Á eftir hnettinum gengu svo skiltaberar með áletruð skilti og beindu athyglinni að ýmsum þeim málum sem brenna helst á okkur þessa dagana. Auk alls þessa dreifði hópurinn bæklingi til áhorfenda og göngufólks, sem sérstaklega hafði verið prentaður í tilefni dagsins.
Fræðsla um mannréttindi
Starfsemi Verndarvættanna var hvergi nærri lokið þótt gangan tæki enda, því hópurinn hafði komið sér upp tjaldaðstöðu í einu horni Arnarhóls til að þjóna sem miðstöð frekari aðgerða. Þegar skemmtiatriði Hinsegin daga brustu á mátti því víða sjá fólk í svörtum og bleikum bolum á vappi í mannmergðinni. Þarna voru Verndarvættirnar að fræða hátíðargesti um mannréttindi ásamt því að dreifa blöðrum og bæklingum og safna undirskriftum við áskorun til íslenskra stjórnvalda um að standa vörð um mannréttindi hinsegin fólks á heimsvísu. Eftir vel heppnaða Hinsegin daga má svo segja að Verndarvættirnar hafi tekið sér langþráð sumarfrí. Hópurinn, sem fer sífellt stækkandi, hóf svo aftur störf á haustdögum, fullur af orku og nýjum hugmyndum.
Brotum í Rússlandi mótmælt
Meðal nýlegra verkefna hópsins má nefna heimsókn til sendiherra Rússlands á Íslandi snemma í september, þar sem mannréttindabrotum í Rússlandi var mótmælt. Fors
aga þess máls er sú að borgarstjóri Moskvu bannaði GayPride göngu í borginni fyrr á þessu ári og var þetta annað skiptið á tveimur árum. Þann 27.maí var svo fjölmenni saman komið í almenningsgarði skammt frá borgarstjóraskrifstofunni til að safna undirskriftum gegn banninu. Skemmst er frá því að segja að æstur múgur réðist að friðsömum mótmælendunum, bæði með eggjum og beinum líkamsárásum svo að til blóðsúthellinga kom. Á meðan stóð lögreglan aðgerðarlaus hjá. Þegar hún svo loks ákvað að skakka leikinn var það gert með því að handtaka hinsegin fólkið.
Ákvörðun borgarstjóra var kærð til dómstóla og í fyrstu viku september var svo kveðinn upp úrskurður. Ekki var nóg með að dómurinn teldi borgarstjóra hafa gert rétt með því að opbanna gönguna, heldur var þeim rökum, að stjórnarskrá Rússlands virði rétt STT-fólks til að koma saman til friðsamlegra fundahalda, einnig hafnað. Í heimsókninni var sendiherranum afhent bréf Verndarvættanna til rússneskra yfirvalda þar sem göngubanninu er mótmælt, sem og ofbeldinu í kjölfarið. Þá er athyglinni beint að því að dómurinn stríði gegn alþjóðasamningum um mannréttindi og aðgerða krafist til að leiðrétta þetta ástand og tryggja öllum Rússum mannsæmandi réttindi.
Sendiherrann tók við bréfinu og hafði í framhaldinu nokkur orð um stöðu mála. Hann sagði að sér væri kunnugt um málið, en bar að öðru leyti fyrir sig almennu þekkingarleysi á málaflokknum. Þá fjallaði hann stuttlega um rússnesku réttrúnaðarkirkjuna, stöðu hennar í rússnesku samfélagi og trúrækni borgarstjórans í Moskvu. Að þessu loknu sagðist hann myndu koma bréfinu áleiðis til réttra yfirvalda í Rússlandi (m.a. borgarstjórans í Moskvu).
Heimsóknir til ræðiskonu og ráðherra
Rússar eru ekki þeir einu sem hafa fengið að vera þess heiðurs aðnjótandi að fá Verndarvættirnar í heimsókn til sín, því í vikunni eftir heimsóknina í Rússneska sendiráðið voru Vættirnar t.d. mættar á fund ræðiskonu Nicaragua á Íslandi, Margrétar S. Björnsdóttur. Erindið var svipað, nefnilega að mótmæla „sódómalögum“ í landinu og krefjast ógildingar þeirra, en lögin hafa verið við lýði síðan 1992 og gera yfirvöldum kleift að fangelsa fólk sem gerst hefur „sekt“ um samkynhneigð. Margrét tók hlýlega á móti Vættunum og heppnaðist fundurinn vel.
Um svipað leyti fóru Vættirnar á fund Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra. Við það tækifæri afhenti hópurinn ráðherra undirskriftir sem safnað var í Gleðigöngu ársins, en þær voru til stuðnings áskorun á íslensk stjórnvöld um að vinna réttindamálum STT-fólks brautargengi á heimsvísu. Þá var henni einnig færður áletraður bolur með slagorðinu „Ólögleg í 100 löndum“, yfirskrift aðgerðar Vættanna á Hinsegin dögum. Eftir örlitla fjölmiðlastund áttu Vættirnar stuttan fund með ráðherra þar sem mannréttindi voru rædd í víðu samhengi. M.a. voru málefni Þróunarsamvinnustofnunar reifuð, en þannig háttar til að öll þau lönd sem hún starfar með búa við löggjöf sem á einhvern hátt beinist gegn STT-fólki.
Ráðherra sagðist myndu hafa málefni STT-fólks ofarlega í huga í sínum störfum og viðraði ýmsar hugmyndir um hvernig ráðuneytið gæti beitt sér í þessum málum þegar það ætti samskipti við ráðamenn erlendra ríkja. Í þessu efni talaði hún m.a. um Norðurlandasamstarfið og Eystrarsaltsráðið, en einnig þegar kæmi að starfi á stærri vettvangi, eins og hjá Evrópuráðinu og Sameinuðu þjóðunum.
Hér hefur verið rakinn hluti þess starfs sem Verndarvættirnar hafa tekið sér fyrir hendur hingað til og eins og sjá má er starfsemin ansi fjölbreytt. Auk alls þessa má geta reglulegra funda og bréfaskrifa sem snúa að þeim einstaklingum sem verið er að brjóta á víða um heim hverju sinni. Verndarvættirnar stefna að því að halda starfsemi sinni áfram með svipuðu sniði og jafnvel bæta í og senda fulltrúa í Gleðigöngur í löndum þar sem STT-fólk á undir högg að sækja. Slíkur vöxtur krefst þó aukins liðssafnaðar og fjármagns. Þeir sem áhuga hafa á starfi Verndarvættanna geta sent tölvupóst til Hilmars, netfangið er hilmar.magnusson@hotmail.com.
Greinin birtist í Fréttabréfi Samtakanna '78 í september 2007