Skip to main content
Uncategorized

Hinsegin orðræða: Smurning eða sandur í tannhjóli gagnkynhneigða regluverksins?

By 15. nóvember, 2014No Comments

Erindi formanns Samtakanna ‘78 á „Mál og mannréttindi“ – Málræktarþingi íslenskrar málnefndar og hátíðardagskrá mennta- og menningarmálaráðuneytisins í tilefni af degi íslenskrar tungu í Iðnó laugardaginn 15. nóvember 2014:

Heiðruðu gestir, til hamingju með daginn í dag og daginn á morgun.

Hvernig hefur hinsegin fólk hagað orðum sínum í baráttunni fyrir mannréttindum, sýnileika og virðingu? Höfum við samlagast ríkjandi samfélagsnormum sem gera ráð fyrir að allir séu gagnkynhneigðir og steyptir í hefðbundin mót karlkyns og kvenkyns? Eða höfum við risið upp gegn kerfinu? Höfum við smurt tannhjól ríkjandi regluverks eða mokað sandi í gangverkið?

Hvernig hefur orðræða hins gagnkynhneigða regluverks blasað við hinsegin fólki? Hefur gagnkynhneigða meirihlutasamfélagið kúgað og niðurlægt hinsegin fólk með orðum sínum? Eða samþykkt það sem jafningja?

Tilgangur þessa erindis er ekki að stilla upp spurningum og svara þeim afdráttarlaust með já-i eða nei-i. Ég ætla að velta vöngum. Kveikja umræðu. Og vonandi dýpka örlítið skilning okkar á því hvernig við ræðum málefni hinsegin fólks.

En hvað er „hinsegin“?

Og hvers vegna kallar fólk sig „hinsegin“? Um þetta hefur nokkuð verið ritað og á dögunum birti Ásta Kristín Benediktsdóttir doktorsnemi í íslenskum hinsegin bókmenntum afar fróðlega grein þar sem hún veltir fyrir sér orðinu.

Ásta greinir orðræðu fjölmiðla eins og hún birtist með orðaleit á Tímarit.is en tekur fram að slík rannsókn gefi ekki endilega fullkomna mynd. Því síður sé um að ræða rannsókn á hinsegin samfélagi eða þeirri orðanotkun sem tíðkist innan samtaka hinsegin fólks. Markmiðið sé ekki að finna „rétta“ merkingu orðsins „hinsegin“ eða notkun, heldur reyna að skilja hugtakið, uppruna þess, merkingu og notkun á síðustu áratugum.

Ásta setur ýmsa fyrirvara en það breytir því ekki að greinin er mjög þarft innlegg í umræðu um málefni sem lítið hefur verið rannsakað. Ég ætla því að leyfa mér að vitna í Ástu hér en hún færir rök fyrir því að orðið „hinsegin“ sé einkum notað í fjórum merkingum. Tilvitnun hefst:

  1. Um það sem er ,öðruvísi‘ eða ,skrýtið´, sbr. „svona og hinsegin“, oft í fremur neikvæðri merkingu.
  2. Hinsegin er akademískt hugtak (sbr. hinseginfræði) sem var tekið upp í íslensku fræðasamfélagi rétt fyrir aldamótin. Í þessu samhengi er það þýðing á enska hugtakinu queer og merking þess er sú sama […] .
  3. Hinsegin er einnig notað utan fræðaheimsins sem þýðing á queer eins og það hefur verið notað meðal enskumælandi aðgerðasinna síðan um 1990. Þá er merking orðsins róttæk og miðar að því að brjóta upp hvers konar norm er varða kyn, kyngervi og kynverund.
  4. Loks er hinsegin notað til að vísa til sjálfsvitundar (e. identity) og þá einnig sem verkfæri í pólitískri réttindabaráttu. Við þetta er nauðsynlegt að bæta að sem sjálfsvitundarhugtak vísar hinsegin stundum til samkynhneigðra eingöngu en það er líka notað sem regnhlífarhugtak yfir samkynhneigða, tvíkynhneigða, pankynhneigða, transfólk, intersex fólk o.s.frv.
Ásta segir að framan af hafi hugtakið oftast verið notað í neikvæðri eða fordæmandi merkingu og vísar í blaðagreinar frá 7. og 8. áratug 20. aldar. Þó hafi sumir hommar lagt jákvæðari merkingu í orðið og notað um sjálfa sig. Hún nefnir að farið hafi verið að nota hugtakið með öðrum og róttækari hætti á 9. áratugnum. Þá í merkingunni „utangarðs“ eða „ögrandi“, um það að ögra ríkjandi samfélagsviðmiðum, líka gagnkynhneigðum, en ekki endilega.
 
Ásta segir að upp úr aldamótum 2000 hafi orðið sprenging í notkun orðsins í fjölmiðlum og almennri umræðu. Hún nefnir mögulegar ástæður, svo sem hispurslausari og jákvæðari umræðu, aukinn sýnileika og fjölmiðlaumfjöllun um baráttuhátíðina Hinsegin daga.
 
Skjólið undir „hinsegin“ regnhlífinni

Stöldrum aðeins við róttæka og pólitíska merkingu orðsins „hinsegin“. Samtökin ‘78 hafa frá árunum 2008-9 kennt sig við hinsegin fólk og fetuðu þannig braut sem rudd hafði verið af hinsegin stúdentum við Háskóla Íslands. Stúdenta sem vildu brjóta upp hefðbundnar skilgreiningar á kyni, kyngervi og kynverund. Aðgerð Samtakanna var fyrst og fremst löngu tímabært skref til að skapa rými fyrir fleiri en eingöngu homma og lesbíur í félaginu. Að bjóða tvíkynhneigða, pankynhneigða, transfólk og síðar meir intersexfólk og jafnvel fleiri hópa velkomið. Skapa skjól undir „hinsegin“ regnhlíf. Þetta var pólitísk aðgerð til að virkja sameiningarkraft þeirra sem finna sig ekki innan kerfis sem lítur á kyn sem annað hvort karlkyn eða kvenkyn. Kerfis sem gerir sjálfkrafa ráð fyrir að allir séu gagnkynheigðir.

Það var og er ekkert óumdeilt né auðvelt að nota orðið „hinsegin“ um hópinn. Jafnvel þótt hinsegin fólk hafi eignað sér orðið og snúið neikvæðri merkingu í jákvæða. Orðið situr enn í mörgum. Jafnvel svo að kos
tað hefur úrsagnir úr Samtökunum ‘78 og orðið tilefni umræðna þar sem t.a.m. sumir í hópi samkynhneigðra hafa tekið harða afstöðu gegn notkun þess. Sumum finnst orðið ennþá niðrandi og meiðandi. Aðrir vilja að því er virðist einfaldlega falla inn í fjöldann. Samlagast. Enn öðrum finnst notkun orðsins gefa til kynna að verið að skilgreina hópinn út frá gagnkynhneigðu tvíhyggjukerfi og viðurkenna það regluverk sem hið eina rétta norm. Ástæðurnar eru eflaust fleiri. 

Ég skil þessi sjónarmið og viðurkenni að hafa haft mínar efasemdir um hugtakið. Hvort ekki hefði verið betra að gera bara eins og á ensku. Telja upp alla hópana og búa til skammstöfun. LGBTQIA o.s.frv. Ég er engu að síður á þeirri skoðun að þetta hafi verið réttmæt aðgerð. Að þessi pólitík sameini fleiri en hún sundrar. Að hún fagni fleirum en hún fæli frá.

Ég er eins og ég er: Um eðli og þróun baráttu og orðanotkunar

Ég verð líka að mótmæla þeim sem segja kyn, kyngervi, kyntjáningu og kynhneigð engu mái skipta. Að við getum bara fallið í fjöldann. Að baráttan sé búin. Ég þekki einfaldlega of mikið af hinsegin fólki sem, þrátt fyrir að njóta mögulega ýmissa forréttinda í lífinu, mætir fordómum og andúð og stundar öfluga sjálfsritskoðun. Ég hef sjálfur upplifað þetta. Ég tel reyndar þessa ósk um samlögun óæskilega. Ég er nefnilega ánægður með að vera „hinsegin“ og vil fagna því. Ég er ekki að berjast fyrir því að fá að vera eins og aðrir. Ég er að berjast fyrir því að fá að vera öðruvísi. Á mínum forsendum.

Orðið er vissulega ekki gallalaust. En það var, og er, leitun að betra orði sem fangar alla þessa fjölbreytni sem við viljum fagna. Mig grunar líka að þetta sé ekki meitlað í stein. Hinsegin hreyfingin er, rétt eins og tungumálið og tilveran sjálf, sífelldum breytingum háð. Hún þróast og þroskast. Hver veit nema við verðum farin að temja okkur allt aðra og fullkomnari hugtakanotkun að nokkrum árum liðnum? En nóg um „hinsegin“ í bili. Tölum aðeins um þetta gagnkynhneigða tvíhyggjuregluverk.

Gagnkynhneigða tvíhyggjan og kúgandi skilgreiningarvald hennar

Hvað er þetta fyrirbæri? Og hvernig birtist það í tungumálinu? Hvernig kúgar gagnkynhneigða meirihlutasamfélagið hinsegin fólk? Jú, fyrst og fremst með því að ganga út frá því að allir séu sjálfkrafa gagnkynhneigðir og annað hvort af karl- eða kvenkyni. Og með því að troða okkur hinum í fötin sín. Föt sem henta okkur ekki. Föt sem við kærum okkur ekki um. Varðhundar þessa regluverks birtast svo í formi embættis-, fræði- og fjölmiðlamanna. Ráðandi stétta sem taka sér vald til þess að skilgreina heiminn – og þar með tilveru hinsegin fólks. Vald til þess að ákveða hvað megi tala um – og hvað ekki. Hvað megi kalla hlutina – og hvað ekki.

Hann veiðir menn – ef menn skyldi kalla, þjófa, morðingja, ræningja, kynvillinga og yfirhöfuð allar hugsanlegar tegundir úrþvætta.

– Úr umfjöllun um starf lögreglumanns í New York í 19. tölublaði Vikunnar árið 1966.

Þegar andúð gegn hinsegin fólki var sem mest hér áður fyrr beitti valdið neikvæðum og niðrandi orðum. Enda tilgangurinn að undirstrika það að fólk sem vék frá viðurkenndum normum um kyn, kynhneigð, kyngervi eða kyntjáningu væri í besta falli ekki alvöru manneskjur. Hálfgerðir trúðar eða undarleg dýrategund sem mætti rannsaka og hafa gaman af. Í versta falli skrímsli sem væru hættuleg samfélaginu. Sérstaklega börnum. Orðræðan gekk út á að framandgera, jaðarsetja og lítillækka. Orðið „kynvillingur“ var mikið notað og neikvæð hleðsla þess tryggð með því að nefna það í sömu andrá og, ja, t.d. „úrþvætti“.

Andóf gegn yfirlæti og útúrsnúningum kerfis sem höndlar ekki hinsegin fólk

Með opnun samfélagsins og tilkomu baráttuhreyfingar hinsegin fólks (þá homma og lesbía) fór tónninn að breytast. Hinsegin fólk tók sér vald til að skilgreina eigin tilveru. Kalla sig það sem það sjálft vildi. Orð eins og hommi, lesbía og samkynhneigð urðu æ vinsælli enda fínar þýðingar á erlendu hugtökunum. En gagnkynhneigða regluverkið brást ókvæða við. Með flaggskip íslenskrar fjölmiðlunar, sjálft Ríkisútvarpið, í broddi fylkingar. Hommum og lesbíum var bannað að tala um „homma“ og „lesbíur“ í útvarpsauglýsingum samkvæmt boði útvarpsstjóra. Allt fram til 1985. Um „kynvillinga“ gegndi aftur á móti öðru máli.

Allt var þetta auðvitað gert af umhyggju feðraveldisins fyrir börnunum sínum. Það verður jú að hafa vit fyrir fólki. Þannig komust Helgi Hálfdanarson og orðanefnd Kennaraháskólans að þeirri niðurstöðu á 9. áratug 20. aldar að orðin „hommi“, „lesbía“ og „samkynhneigð“ væru ótæk og vildu heldur nota orðin „hómi“, „lespa“ og „kynhvörf“. Þessu var harðlega mótmælt m.a. með þeim orðum að „kynhvörf“ væru ekkert annað en „kynvillingur“ í sparif&ou
ml;tunum og að „hómi“ og „lespa“ væru teprulegt rósamál.

Í málum sem þessum voru það vafalaust ekki eingöngu orðin sjálf sem fólk mótmælti heldur einnig forsendurnar og yfirlætið. Að aðilar sem virtust ekki höndla tilvist homma og lesbía teldu sig þess umkomna að þröngva ákveðnum heitum yfir þessa samfélagshópa, í óþökk þeirra sjálfra. Hér var því hart sótt að þeim sem töldu sig sjálfkrafa fara með skilgreiningarvaldið – og höfðu gert það hingað til.

Regluriddarar beita orðræðu aðskilnaðar til varnar „hjóna“bandi

Regluriddarar hinnar tvíkynjuðu gagnkynhneigðar voru þó hvergi af baki dottnir. Forræðishyggjan skýtur reglulega upp sínum ljótu höfðum og gerði það eftirminnilega í aðdraganda lagasetningar um ein hjúskaparlög árið 2010. Nú var þetta hinsegin fólk að vega að sjálfu hjónabandinu og þá þurfti jú að bregðast við. Og margir lögðu orð í belg.

Orðið hjón yrði bara notað um sambúðarsamband gagnkynhneigðra en hjónar um sambúðarsamband tveggja karlmanna (beygist eins og þjónar) og hjónur um sambúðarsamband tveggja kvenna (beygist eins og hænur).

– Úr umsögn um frumvarp um ein hjúskaparlög árið 2010

Það var sérstakt að fylgjast með þessari hjónaumræðu, þar sem hver riddarinn á fætur öðrum steig fram til að verja orðið ásókn hinsegin fólks. Enn skrítnara var að taka þátt í umræðum um þetta. Hér var nefnilega verið að beita orðræðu aðskilnaðar. „Þau geta sko ekki notað sama hugtak og við!“ Ég lái þeim svo sem ekki æsinginn yfir þessu. Hér var jú háheilagt hjónaband gagnkynhneigðra í húfi og hinsegin fólk mátti sko ekki kasta því á ruslahaugana!

Gegn forræðishyggju „málvöndunarfólks“ – trans eða ekki trans?

Um svipað leyti mótmælti transfólk notkun orðsins „kynskiptingur“ við Ríkisútvarpið og aðra fjölmiðla. Mörgum fannst það meiðandi og töldu skylt orðinu „kynvillingur“. Transfólk mælti því með orðinu „transfólk“ og var þarna auðvitað að heyja sömu baráttu og hommar og lesbíur háðu um aldarfjórðungi fyrr. Hér var krafist sjálfsagðrar virðingar fyrir fólki í opinberri umræðu og að notuð væru rétt hugtök. Annar angi baráttunnar var ekki síður mikilvægur – að fá að skilgreina sig sjálfur. Að þurfa ekki að sitja undir niðrandi skilgreiningum meirihluta sem ekkert veit um tilveru manns og kærir sig ef til vill ekki um það.

En fjölmiðlum var orðið tamt að tala um kynskiptinga og kynskiptiaðgerðir og sumir mótmæltu þessum, að því er þeim fannst, fáránlegu kröfum transfólks. Kynskiptingur var gott og gilt. Trans var jú útlenska og óskiljanlegt. Málvöndunarrökin tóku að heyrast en hljómurinn var heldur falskur, enda lengi verið talað um trans í íslensku máli, í merkingunni „að falla í miðilsdá“ eða vera í „leiðslu“. Já, svo má nú ekki gleyma því að fjölmiðlar kepptust á þessum tíma við að fjalla um nýja ógn við lýðheilsu landans og töluðu hiklaust um „transfitur“ og „transfitusýrur“. En transfólk? Neee….  

Vera má að það vanti gott íslenskt orð sem fangar meiningu orðsins „trans“ en það eru mistök að halda að „kynskiptingur“ geri það. Hér er ekkert verið að skipta um kyn. Hér er verið að leiðrétta líffræðilegt kyn að því kyni sem viðkomandi hefur alltaf upplifað sig í. Til að flækja málin enn frekar má benda á að til eru fleiri kyn en karl og kvenkyn og að „trans“ er líka regnhlífarhugtak sem nær yfir fleiri hópa en eingöngu þau sem kjósa að leiðrétta kyn sitt. En það er efni í annað erindi.  

Af margbreytileika samfélags, samlögun og sandinum í tannhjólum regluverksins

Áður en ég lýk þessu er rétt að hverfa aftur til upphafsspurningarinnar. Hefur orðræða hinsegin fólks verið smurning eða sandur í tannhjóli gagnkynhneigða regluverksins? Af þeim dæmum sem ég hef rakið má álykta að hún hafi einmitt verið sandur í tannhjólinu. Að hinsegin fólk hafi risið upp gegn kerfinu. Og breytt því. Þær breytingar sem hafa orðið á okkar samfélagi eru auðvitað til merkis um þetta. Þetta er ekki sama samfélagið og við bjuggum í fyrir 30 til 40 árum. Að sama skapi má af dæmunum draga þær ályktanir að hið gagnkynhneigða meirihlutasamfélag hafi kúgað og niðurlægt hinsegin fólk með orðum sínum.

Þetta er þó ekkert einfalt en tilgangurinn var heldur ekki að knýja fram afdráttarlaus svör. Það má nefnilega velta vöngum yfir þessu. Í hugum sumra hefur þetta eflaust verið stöðug niðurlægingarganga. Í hugum annarra uppgjör og sigrar. Og orðræðan eftir því. Aðrir kunna að líta svo á að baráttan hafi um lengri eða skemmri tíma einkennst um of af samlögun. Hlýðni. Tilhneigingu til að rugga ekki bátnum. Mögulega af ótta við að missa það sem þegar hafði unnist. Það er eflaust enginn einn stóri sannleikur í þessari sögu. Hún er flókin. Margbreytileg. Og síkvik.

Ég hef mjög líklega skilið eftir fleiri spurningar en ég hef svarað. En það var jú líka svolítið tilgangurinn. Að velta vöngum. Kveikja umræðu. Og vonandi dýpka örlítið skilninginn á því hverni
g við tölum um málefni hinsegin fólks. Samt hef ég alls ekki gert öllum hópum hinsegin samfélagsins skil. Látið ýmislegt ósagt um hugtök og málefni. Ég hef í rauninni einungis gert örlitla rifu á dyrnar. Ég hvet ykkur til að ljúka verkinu.

Ljúka dyrunum upp og kynnast þeirri hinsegin veröld sem blasir við.

Góðar stundir.

Leave a Reply