Skip to main content
search
Uncategorized

Hinsegin persóna vikunnar: Michel Foucault

By 11. ágúst, 2011No Comments

Paul-Michel Foucault fæddist 15. október 1926 í Poitiers í Frakklandi. Hann var heimspekingur og kenningasmiður um hugmyndasögu og félagsfræði. Hann kenndi það sem hann kallaði „sögu hugsunarkerfa“ (fr. Histoire des systèmes de pensée) við Collège de France og síðar við háskólann í Buffalo og Kaliforníuháskóla í Berkeley.

Foucault er þekktastur fyrir rannsóknir sínar á samfélagslegum stofnunum, einkum í tengslum við geðsjúkdómafræði, læknisfræði, hugvísindi og fangelsi, sem og sögu kynferðisins. Kenningar hans um tengsl þekkingar og valds hafa haft gríðarleg áhrif á hug- og félagsvísindi og á ýmsum sviðum starfsmenntunar.

Í verkum sínum tekur Foucault til endurskoðunar menningarsögu nýaldar, oft út frá samfélagslegri útilokun tiltekinna hópa, svo sem holdsveikra, fanga og geðsjúklinga. Hann rannsakar svonefnda sifjafræði þekkingar og svokölluð hugsunarkerfi og söguleg skeið slíkra kerfa sem hann kennir við epistémè. Verk hans eru gjarnan tengd við póststrúktúralisma eða póstmódernisma, en hann hafnaði þeim merkimiðum sjálfur, enda fjarlægðist hann póststrúktúralisma eftir sjöunda áratuginn. Foucault skilgreindi hugmyndir sínar sem gagnrýna rannsókn á sögulegum rótum nútímans og kvaðst vera undir sterkum áhrifum frá Kant og Nietzsche.

Foucault var enginn venjulegur fræðimaður. Hann var róttækur vinstrimaður og uppreisnargjarn aðgerðarsinni og tók sem kennari virkan þátt í stúdentauppreisnum og setuverkföllum. Hann prufaði sig áfram með LSD, stúderaði Íslam og var virkur á hommasenunni, en segja má að leðurhomminn í honum hafi fengið að blómstra á Berkeley-árunum þar sem hann gat verið mun opnari með kynhneigð sína en heima í Frakklandi.

Foucault lést þann 25. júní 1984 í París í Frakklandi af völdum AIDS. Hann var fram að þessu þekktasti Frakkinn til að smitast af sjúkdómnum og deyja af völdum hans. Engu að síður var reynt að breiða yfir það, sem og þá staðreynd að hann hafi verið hinsegin, en það er eitthvað sem við hinsegin fólk þekkjum vel, enda þurfum við enn að berjast fyrir því að verða ekki þurrkuð út úr sögubókunum.

Greinin byggir að mestu á Wikipedia, en frekari upplýsingar um Foucault má t.d. fá hérhér, eða hér.

Leave a Reply