Laugardaginn 25. júní opnaði heimasíða verkefnisins Ein saga, eitt skref, en undirbúningur hefur staðið yfir síðastliðin tvö ár. Tilgangur verkefnisins er að hefja uppgjör og læra af sögu misréttis gagnvart hinsegin fólki innan Þjóðkirkjunnar. Verkefnið er byggt á persónulegum reynslusögum af fordómum og andstöðu þjóðkirkjunnar við réttindi hinsegin fólks í gegnum árin.
Verkefnið var formlega kynnt af biskupi Íslands og þáverandi formanni Samtakanna ‘78 á Hinsegin dögum þann 8. ágúst 2020. Upphaf samstarfsins liggur í afsökunarbeiðni biskups til hinsegin samfélagsins árið áður vegna andstöðu kirkjunnar við rétt samkynja para að ganga í hjónaband. Afsökunarbeiðnin var upphafið að góðu samtali milli kirkjunnar og Samtakanna ‘78 um yfirbót og fyrirgefningu þar sem ákveðið var að ráðast sameiginlega í Eina sögu, eitt skref.
Verkefnið hefur verið í öruggum höndum Bjarndísar Helgu Tómasdóttur hjá Hýrri menningarmiðlun og hefur tæplega 30 sögum verið safnað. Níu þeirra hafa nú birst á heimasíðu verkefnisins einsagaeittskref.is og munu fleiri bætast við innan tíðar. Frásagnirnar eru af ýmsum toga en eiga það sameiginlegt að vera vitnisburður um þá ómenningu, fordóma og miréttis sem viðgengust of lengi innan kirkjunnar. Enn er tekið við nýjum sögum og þar er engin saga of lítil eða ómerkileg. Þau sem vilja taka þátt skulu hafa samband við Bjarndísi á hyr@hyr.is eða bjarndis@samtokin78.is.
Laugardaginn 25. júní fór einnig fram sérstök athöfn í Skálholtskirkju og í kjölfar hennar málþing. Í athöfninni flutti Daníel E. Arnarsson framkvæmdastjóri Samtakanna ’78 predikun og Hinsegin kórinn söng. Síðar fluttu ávörp Álfur Birkir, formaður Samtakanna ’78, og Agnes M. Sigurðardóttir, biskup, ásamt fleirum. Spiluð var ein þeirra frásagnanna sem nú hafa verið birtar og vakti hún mikinn áhuga viðstaddra.
Við hvetjum öll til að fara á heimasíðu verkefnisins einsagaeittskref.is og kynna sér þetta mikilvæga verkefni.