Skip to main content
search
Uncategorized

Hnefarétturinn

By 15. desember, 2006No Comments

Ef ég fengi að vera ráðherra í einn dag þá óska ég mér inn í fjármálaráðuneytið. Í sæti fjármálaráðherra vil ég sitja. Fyrsta korterið mun ég nota til að minna sjálfan mig á þá þungbæru staðreynd að að áhrifa minna mun aldrei sjá stað að loknum einum degi í Arnarhvoli nema til komi eilítil forsjálni næstu klukkustundirnar. En ég veit hvar ég vil reyna beita áhrifum mínum.

Þennan morgun rifja ég upp í huganum nokkra þá sérfræðinga þjóðarinnar sem mér þykir tala af mestu viti um efnahag og félagslega velferð þjóðarinnar. Allt er þetta menntað fólk í hagfræðum, félagsfræðum og heilbrigðisfræðum. Ekkert þeirra starfar að stjórnmálum, þau eru sérfræðingar og á slíka vil ég hlusta í dag, vit þeirra, þekkingu og réttlætiskennd. Ég stefni þeim til mín tólf talsins upp úr tíukaffinu þennan morgun, við ætlum að ræða afkomu þess fjórðungs þjóðarinnar sem lægstar hefur tekjurnar og hvaða leiðir þau sjái til úrbóta þegar spurt er um afkomu og velferð þeirra sem hafa úr minnstu að spila.

VERUND SKAPAR VITUND

Eftir að hafa sannfært sjálfan mig um heilan hug þeirra til málsins skipa ég þau auðvitað í nefnd um fátækt á Íslandi og bið þau um að vinna að raunhæfum tillögum til úrbóta. Það er svo á valdi þess ráðherra, sem tekur við á morgun, hvort þeim tillögum verður stungið undir stól. En þennan dag vil ég fjalla um samband fátæktar og auðlegðar, um launamisrétti meðal þjóðar þar sem mánaðarlaun þeirra fremstu í röðinni telur rúmlega tuttugfalda upphæð þess sem þeir öftustu draga í bú, í landi þar sem heilsu tugþúsunda manna er hætta búin af striti, streitu og vondu mataræði, af því að það er dýrt að borða hollt, í landi þar sem þúsundir barna eiga litla möguleika á að komast til þroska fyrir þá sök eina að hafa fæðst í fjölskyldum sem fátækt, streita, ofþreyta og fáfræði hafa mótað.

Í aldarfjórðung hef ég látið mig velferð lesbía og homma nokkru varða. Sá áhugi hefur síður en svo yfirgefið mig með árunum. Ætti ég þá ekki frekar að óska mér inn í eitthvert annað ráðuneyti þennan dag, til dæmis félagsmálaráðuneytið? Nei, ekki núna, því ég veit að þau mál sem mér eru hugleikin, virðingin til handa þeim hópum sem eiga undir högg að sækja, útlendingum, fötluðum, konum, öldruðum og samkynhneigðum – ég veit að hún ræðst umfram annað af afstöðunni til auðsældar og efnahags. Verund skapar vitund, sagði Karl Marx, og reynslan hefur sannfært mig um að sá þáttur heimspeki hans er enn í fullu gildi. Það er efnahagsgrundvöllurinn sem umfram allt mótar viðhorf manna og afstöðu til heimsins.

STÓRAR OG SMÁAR STYRJALDIR

Fyrir hálfum öðrum áratug var vinkona mín að störfum í Rúanda og daginn eftir að hún kvaddi landið lokaðist það umheiminum. Nokkru síðar tóku líkin að fljóta niður árnar til nágrannalandsins, fyrstu vitnisburðir um hræðilegasta þjóðarmorð okkar tíma. Þar var alþýða manna að verki, grannar réðust að grönnum í von um smávægilega umbun, upphefð, öryggi. „Þú getur ekki trúað því hvað fátæktin gerir menn grimma,“ sagði hún vinkona mín þegar hún birtist á Íslandi, miður sín eftir það sem fyrir augu bar í Afríku. Ég trúði henni svo sem, mér nægði að rifja upp nokkur verstu ódæði Íslandssögunnar. Þar var oftast nær örsnautt og aðframkomið fólk að verki. 

Á Íslandi býr samkynhneigt fólk nú við meira öryggi, traustari virðingu samborgara sinna og betri fjölskylduhag en víðast annars staðar í veröldinni. En ekkert er eilíft og á skömmum tíma er auðvelt að kalla öryggisleysi, ofsóknir og ofbeldi yfir þjóðina, kalla yfir okkur dulið borgarastríð ef ranglátur efnahagur grefur leynt og ljóst undan velferð og vellíðan manna. Þetta sjáum við vel á þeim ofsóknum sem á svokölluðum „krepputímum“ mæta innflytjendum meðal stórþjóða heimsins. Svo gæti líka farið innflytjendum á Íslandi, öldruðum, fötluðum, að ógleymdum hommum og lesbíum þessa lands, að þau yrðu dag einn sjálfsagður skotspónn ofbeldis og ofsókna. Einhverjum kann að þykja „borgarastríð“ stórt orð um stöku „borgaraleg upphlaup“ og þeir um það. Sjálfur hef ég ekki gleymt þeim árum þegar lesbíur og hommar neyddust til að flýja þetta land. Í mínum augum voru þau að flýja borgarastyrjöld sinna tíma, markvissar en vel faldar þjóðarofsóknir gegn samkynhneigðum.

LÝÐURINN SNAUÐI OG GRIMMI

Í þessu sambandi óttast ég ekki þá efnuðu og menntuðu, það fólk hefur efni á því að sýna umburðarlyndi, jafnvel ósvikna mannvirðingu þegar kemur að mér og mínum. En ég óttast afkomendur örbirgðarinnar, lýðinn snauða og grimma sem þekkir engan annan rétt sér til varnar nema hnefaréttinn, þann hóp sem á 19. öld átti sitt sérstaka nafn – proletariat. Sagan sýnir að sá hópur réttir hnefann sjaldnast að þeim sem eiga mestan þátt í að skapa örbirgð hans, heldur að þeim sem líka standa höllum fæti í einhverjum skilningi, víkja frá meðaltalinu, það ágæta fólk sem é
g tilheyri og kallað er því kostulega nafni „frávikar“ á máli félagsfræðinnar. 

Fræðimaðurinn Robert Ingelhard hefur í ritum sínum fært rök fyrir því hvernig efnalegur jöfnuður nærir mannvirðinguna. Með víðtækum fræðilegum samanburði milli þjóða heims telur hann sig sjá hvernig bærileg launakjör almennings, nothæft almannatryggingakerfi og öflug heilbrigðisþjónusta án sérstaks endurgjalds örvar umburðarlyndi manna í garð náungans. Að sama skapi aukast margvíslegir fordómar manna í garð hins sama náunga þegar sótt er að efnalegum kjörum og félagslegu öryggisneti þegnanna. Í ljósi þessara athugana er það engin tilviljun að í samfélagsgerð Norðurlanda, með allri sinni efnalegu og félagslegu vernd, búa samkynhneigðir nú við meira öryggi, njóta eindregnari mannvirðingar og eru velkomnari til virkrar samfélagsþátttöku en gengur og gerist í heiminum.

VÖLDIN Í STÝRISHÚSINU

Þess vegna vil ég umfram annað nota daginn minn í fjármálaráðuneytinu til að leggja á ráðin gegn þeim háska sem okkur stafar af örbirgð og fátækt. Fátt er meiri ógnun við mannréttindi og mannvirðingu en grimmd þeirra sem ekkert eiga eftir nema hnefann sér til framdráttar. Tími þeirra kynni að renna upp á Íslandi með næstu kynslóð ef eignagleði hinna fáu og ríku tekur öll völd í stýrishúsi skútunnar okkar.

Grein þessi birtist upphaflega á vefsíðu Marðar Árnasonar, www.mordur.is, í pistlaflokkinum „Ráðherra dagsins – Ef ég fengi að ráða.“ Hún var samin nokkrum dögum áður en alþingismaður Frjálslynda flokksins hóf að ræða stöðu útlendinga og innflytjenda á Íslandi.

© Þorvaldur Kristinsson 2006
Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið

Leave a Reply