Skip to main content
Uncategorized

Hátíðarræða formanns Samtakanna '78, 27. júní 2006

By 27. júní, 2007No Comments

Herra forsætisráðherra Geir H. Haarde, Frú Vigdís Finnbogadóttir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Borgarstjóri og aðrir hátíðargestir. Kæru vinir! Til hamingju með daginn! Til hamingju með þau lög sem taka gildi í dag og þennan mikilvæga áfanga í átt að jafnrétti til handa samkynhneigðum. Til hamingju Íslendingar með að búa í þjóðfélagi sem lætur jafnrétti sig máli skipta.

Og til hamingju með stjórnmálamennina okkar sem þora að taka af skarið og útrýma óréttlæti, og eyða lagalegu misrétti gegn hommum og lesbíum til að búa til betra þjóðfélag. Nýju lögin tryggja okkur ekki bara jafnan rétt heldur gefa þau skýr skilaboð um þá virðingu sem okkur öllum ber og styðja við þá sjálfsvirðingu sem hverri manneskju er nauðsynleg til að lifa af. Núna stöndum við nær jafnrétti en nokkru sinni fyrr og höfum lykilinn í höndunum að möguleikanum að skapa eigin hamingju.

Það hefur skipt öllu máli fyrir okkur lesbíur og homma að vita af þeim stuðningi, einhug og þverpólitísku samstöðu sem einkenndi umræðu og afgreiðslu þessa frumvarps á Alþingi. Stjórnmálamenn þessa lands eiga mikið hrós og þakkir skildar fyrir skilning sinn og víðsýni í því að tryggja samkynhneigðum jafnrétti og rétt allra til fjölskyldulífs, því það er fyrst og fremst fjölskyldurétturinn sem þessi lög fjalla um og tryggja að samkynhneigðir njóti sama réttar og gagnkynhneigðir.

Í dag skipar Ísland sér í fremstu röð á alþjóða vettvangi sem er ótrúlega mikilvægt, ekki bara fyrir hamingju þjóðar okkar heldur einnig í því að gefa gott fordæmi til þeirra landa þar sem þess er þörf og ég veit að augu þeirra hvíla á okkur í dag. Við skulum fara vel með hin nýju réttindi okkar og skyldur – og ekki gleyma því að fyrir hartnær 30 árum hefið það verið algerlega óhugsandi að Forseti Íslands, forsætisráðherra og stjórnmálamenn þessa lands hefðu komið saman með hommum og lesbíum á hátíðarsamkomu sem þessari.

Að baki er mikil og löng baráttusaga. Barátta þar sem margir einstaklingar, samkynhneigðir sem og gagnkynhneigðir hafa lagt hönd á plóginn með afar óeigingjarnri vinnu. Það er einsdæmi að réttindabarátta af þessum toga skili svo miklum árangri á svo skömmum tíma sem raun ber vitni. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka af alhug öllum þeim sem hafa lagt sitt af mörkum, stórt og smátt, í baráttu undanfarinna ára. Án ykkar hefði þetta ekki verið mögulegt. Og þetta hefði alls ekki verið mögulegt nema fyrir samhug almennings og stuðning stjórnmálamanna.

Í dag er hátíð. Í dag er dagur gleðinnar. En á þessari stundu er rétt að hafa í huga að baráttan heldur áfram. Sagan kennir okkur að lagasetningar eru óhemju mikilvægt skref í jafnréttisátt, en lagasetningar einar og sér duga sjaldnast til að ná fram fullu jafnrétti. Það höfum við t.d. lært af lagasetningum um jafnrétti kynjanna. Nú rennur upp nýr þáttur í baráttu samkynhneigðra og í þeirru lotu er ekki síður mikilvægt að hafi skilning almennings og stuðning ríkjandi stjórnmálaafla í landinu. Við treystum á áframhaldandi samstarf við valdhafa og embættismenn bæði á vettvangi ríkis og sveitarfélaga til að tryggja það að raunverulegt jafnrétti fyrir alla þegna Íslands samkynhneigða og gagnkynhneigða nái fram að ganga á næstu árum.

Copyright © Hrafnhildur Gunnarsdóttir 2006

Leave a Reply