Dómnefnd Hýryrða 2020 hefur lokið störfum sínum og mælir með eftirtöldum nýyrðum:
Kvár (sbr. kona, karl)
Dómnefnd var sammála um að orðið kvár væri heppilegast sem ókyngreint nafnorð um fullvaxta manneskju. Orðið hefur þegar hlotið nokkra útbreiðslu meðal hinsegin fólks, en er þó ekki nema nokkurra mánaða gamalt. Orðasmiður er Hrafnsunna Celeste Ross.
Stálp (sbr. stelpa, strákur)
Orðið stálp er heppilegt að því leyti að það tengist lýsingarorðinu stálpaður og hljómar því kunnuglega ásamt því að byrja á st- líkt og bæði strákur og stelpa. Auk þess hefur orðið -á- líkt og strákur og -lp- líkt og stelpa. Dómnefnd var sammála um að gagnsæi þessa orðs gæti orðið til þess að það næði útbreiðslu auðveldlega. Orðasmiður er Inga Auðbjörg Straumland.
Mágkvár (sbr. mágkona, mágur) og svilkvár (sbr. svilkona, svili)
Fyrir frændsemisorðin sem hefjast á mág- og svil- fannst dómnefnd liggja beint við að skeyta aftan við nafnorðinu kvár, en þessi orðmyndun kom einnig fram í tillögum þátttakenda. Þessi aðferð gæti jafnframt reynst vel fyrir fleiri orð í framhaldinu, þá sérstaklega þar sem seinni hluti samsetts orðs er -kona og/eða -maður. Orðasmiður er Regn Sólmundur Evu.
Dómnefnd mælir ekki sérstaklega með neinni tillögu að kynhlutlausu orði sem samsvarar no. ekkill og ekkja að sinni, en vonar að nýjar hugmyndir vakni hjá almenningi í kjölfar keppninnar.
Mikilvægt er að árétta að orðin sem hér hafa verið talin upp eru aðeins tillögur og að þau geta breyst lítillega með almennri notkun, ef þau ná útbreiðslu. Þegar allt kemur til alls er það svo kynsegin fólk sjálft sem ræður því hvort þessi orð uppfylli þá þörf sem þeim er ætlað að mæta.
Dómnefnd Hýryrða og Samtökin ‘78 þakka öllum sem sendu inn tillögur kærlega fyrir þátttökuna.
Í dómnefnd Hýryrða 2020 sátu Alda Villiljós, Ágústa Þorbergsdóttir, Eiríkur Rögnvaldsson, Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, Valgerður Hirst Baldurs og Þorbjörg Þorvaldsdóttir.