Eins og öll tungumál þróast íslenskan í sífellu og aðlagast samfélagi hvers tíma. Orð hverfa úr almennri notkun á sama tíma og nýyrði verða til. Okkur í Samtökunum ‘78 er umhugað um að geta talað um veruleika okkar á íslensku. Nýyrðasamkeppni Samtakanna ’78, Hýryrði, er nú haldin í þriðja sinn.
Um Hýryrði
Hýryrði 2023 eru byggð á sömu hugmynd og fyrri hýryrðakeppnir Samtakanna ’78, en þær voru haldnar árið 2015 og 2020. Í þeim keppnum urðu m.a. til orðin eikynhneigð, dulkynja, flæðigerva, kvár og stálp. Á átta árum hefur ýmislegt breyst og nýjar aðstæður krefjast nýrra orða. Við leitum því aftur til samfélagsins til að aðstoða okkur við að þróa tungumálið.
Dómnefnd 2023 skipa:
Ásta Kristín Benediktsdóttir, lektor í íslenskum samtímabókmenntum við Háskóla Íslands
Einar Freyr Sigurðsson, rannsóknarlektor á orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Reyn Alpha Magnúsar, varaformaður Trans Íslands
Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir, meðstjórnandi í stjórn Samtakanna ’78
Lýst er eftir tillögum að eftirfarandi nýyrðum:
amma — ? — afi (kynhlutlaust orð yfir foreldri foreldra)
Orðin afi og amma vísa til foreldra foreldra út frá kyni þeirra. Hvaða sambærilega nafnorð getum við notað um kynsegin fólk eða fólk sem við vitum ekki kynið á?
kk. — ? — kvk. (skammstöfun fyrir kynsegin)
Skammstafanirnar kk. og kvk. vísa til karlkyns og kvenkyns. Hk. vísar til hvorugkyns en er almennt ekki notað til að vísa til fólks. Hvaða skammstöfun dettur þér í hug sem vísar til kynsegin?
sú — ? — sá (kynhlutlaust ábendingarfornafn í eintölu)
Ábendingarfornöfnin sá (þann-þeim-þess) og sú (þá-þeirri-þeirrar) vísa til karlkyns og kvenkyns. Fornafnið það vísar til hvorugkyns en er almennt ekki notað til að vísa til fólks. Því þarf ábendingarfornafn sem hægt er að nota um kynsegin fólk og jafnframt er hægt að nota um fólk sem við vitum ekki kynið á. Nokkur dæmi um notkun ábendingarfornafna:
Sú / ___ / sá sem skorar flest mörk vinnur.
Sú er góð með sig / ___ er gott með sig / Sá er góður með sig
Hvaða ábendingarfornafn getum við notað um kynsegin fólk eða fólk sem við vitum ekki kynið á?
femme
Orðið femme er stytting á enska orðinu feminine og er notað til að lýsa kyntjáningu einstaklinga en einnig þeim einstaklingum sem fólk laðast að. Hugtakið felur í sér ákveðinn skilning á hvað telst vera ‚kvenlegt‘ í samfélaginu, oftast miðað við hefðbundnar kynjaímyndir. Það geta öll verið femme óháð kynvitund og sömuleiðis geta öll laðast að femme einstaklingum, óháð kynhneigð. Hvaða íslenska lýsingarorð dettur þér í hug yfir femme?
masc
Orðið masc er stytting á enska orðinu masculine og er notað til að lýsa kyntjáningu einstaklinga en einnig þeim einstaklingum sem fólk laðast að. Hugtakið felur í sér ákveðinn skilning á hvað telst vera ‚karlmannlegt‘ í samfélaginu, oftast miðað við hefðbundnar kynjaímyndir. Það geta öll verið masc óháð kynvitund og sömuleiðis geta öll laðast að masc einstaklingum, óháð kynhneigð. Hvaða íslenska lýsingarorð dettur þér í hug yfir masc?
allosexual
Hugtakið eikynhneigð vísar til fólks sem laðast lítið eða ekkert kynferðislega að öðru fólki en hvað með þau sem ekki falla í þann hóp? Á ensku er þá talað um allosexual. Hvaða íslenska orð, gagnstætt eikynhneigð, getum við notað um fólk sem upplifir kynferðislega aðlöðun?