Niðurstöður úr Hýryrðum, nýyrðasamkeppni Samtakanna ’78, voru kynntar í gær, 16. nóvember 2023 á degi íslenskrar tungu, en keppnin var nú haldin í þriðja sinn. Markmiðið með henni er að gefa almenningi kost á að taka þátt í að stækka og efla íslenskan orðaforða um hinsegin tilveru en eins og öll tungumál þróast íslenskan í sífellu og aðlagast samfélagi hvers tíma. Hinsegin barátta og umræða um hinsegin málefni, til dæmis kynjaðan veruleika, hefur þróast sérlega hratt á síðustu áratugum og Hýryrðum er meðal annars ætlað að tryggja að íslensk tunga haldi í við þá þróun. Það er mikilvægt fyrir hinsegin fólk og sjálfsákvörðunarrétt þess að geta talað um tilfinningar sínar, sjálfsmynd og samfélagsformgerðir á íslensku og það er enn fremur forsenda fyrir því að samfélagið sé í stakk búið að ræða málin.
Keppnin hófst formlega 19. apríl sl. þegar kallað var eftir tillögum að orðum sem vantaði í málið. Dómnefnd ákvað í kjölfarið að óska eftir sex nýyrðatillögum og hin eiginlega keppni hófst þar sem almenningi gafst kostur á að senda inn tillögur í gegnum vef Samtakanna ’78. Að þessu sinni var auglýst eftir kynhlutlausu orði yfir foreldri foreldris, kynhlutlausri skammstöfun hliðstæðri kvk. og kk., kynhlutlausu ábendingarfornafni og íslenskum þýðingum á annars vegar enska orðinu allosexual og hins vegar orðunum femme og masc.
Líflegar umræður um samkeppnina og orðin sem leitað var að fóru fram á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum í sumar. Þær sýndu og sönnuðu að fólki stendur ekki á sama um tungumálið og sá áhugi birtist einnig í þátttökunni sem fór fram úr björtustu vonum — alls sendu tæplega 300 manns inn tillögu að einu eða fleiri orðum áður en frestur rann út 15. september sl.
Eftir langa yfirlegu er það samhljóða niðurstaða dómnefndar að mæla með tveimur nýyrðum og nýrri skammstöfun:
stórforeldri: kynhlutlaust orð yfir foreldri foreldris
aðkynhneigð: þýðing á enska orðinu allosexual
ks.: skammstöfun á kynsegin, hliðstæð kk. og kvk.
Rökstuðning dómnefndar má lesa hér og enn fremur umfjöllun um tillögur sem ekki var mælt með að þessu sinni. Rétt er að undirstrika að líkt og í fyrri Hýryrðakeppnum eru niðurstöðurnar ekki hugsaðar sem endanlegt val eða liður í málstýringu heldur tillögur sem hér með eru lagðar í hendur málnotenda. Hvort þær hljóti hljómgrunn og komist í almenna notkun verður framtíðin að leiða í ljós.
Dómnefnd Hýryrða 2023:
Ásta Kristín Benediktsdóttir, lektor í íslenskum samtímabókmenntum við Háskóla Íslands
Einar Freyr Sigurðsson, rannsóknarlektor á íslenskusviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Reyn Alpha Magnúsar, varaformaður Trans Íslands
Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir, meðstjórnandi í stjórn Samtakanna ’78