Skip to main content
search
Uncategorized

Íslandssaga hinsegin fólks?

By 21. nóvember, 2014No Comments

Erindi formanns Samtakanna ‘78 á hádegisfyrirlestrinum Að skrifa eigin sögu þriðjudaginn 7. október 2014. Erindið var annað tveggja í þessu hádegi en hitt flutti dr. Íris Ellenberger sagnfræðingur. Hádegis-fyrirlesturinn var aftur hluti af fyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands veturinn 2014-2015 sem ber yfirskriftina Söguskoðun að fornu og nýju.

Barnæskan og ósýnileikinn – þörfin fyrir eigin sögu

Ég hef lengi haft áhuga á sögu og sagnfræði. Ég ólst upp við tiltölulega ríka sagnahefð heima fyrir og í barnaskólanum var jú kennd saga. Þar kynntist maður hugrökkum íslenskum hetjum. Bregðandi brandi. Steytandi hnefann framan í erlent yfirvald. Lofsyngjandi ættjörðina. Auðvitað var talað um lítilmagnann. Vosbúð og vesæld. Og konur. En karlkyns hetjur og valdamenn áttu sviðið og frásögning var einföld. Sjálfstæðisbarátta saklausrar þjóðar. Eða gagnkynhneigðra karlmanna. Þannig minnist ég þess að minnsta kosti í dag. Eitt tel ég þó alveg víst: Það var hvergi minnst á hinsegin fólk í þessari sögu. Ekki í skólanum. Ekki við eldhúsborðið heima. Sá veruleiki sem ég stóð tiltölulega snemma frammi fyrir var eiginlega hvergi sýnilegur. Og þá sjaldan að minnst var á hann í fjölmiðlum var hann í besta falli einfaldaður og bjagaður. Í versta falli afskræmdur.

Það var ekki fyrr en í efri bekkjum menntaskóla að ég fór að velta þessu fyrir mér. Þá að berjast við að koma út úr skápnum sem hommi. Menntaskólaárin voru ár leitar. Uppgjörs. Niðurbrots. Uppbygginar. Í slíku ástandi er oft stutt milli gleði og depurðar. Vonar og örvæntingar. Undir sléttri grímu auðvitað. Þar til henni var kastað. Ég hafði sem barn og unglingur oft mátað mig inn í söguna. Sögur skólabókanna. Sögur foreldranna. Sögur gamla fólksins. Passaði minn veruleiki þar inn? Ég er ekki viss. Það má segja að áhuginn á að leita uppi sögu hinsegin fólks hafi einmitt falist í þessari þörf fyrir að setja sig í samfélagslegt samhengi. Að reyna að skilja sjálfan sig. Spegla sig. Finna rætur. En hann fólst ekki síður þörfinni fyrir að mynda tengsl. Finna fyrirmyndir. Samsömun.

„Íslandssaga hinsegin fólks“ ekki til

Hvert leitar ung hinsegin manneskja sem vill svala þessum tilteknu þörfum? Efnið var jú ekki að finna á almenningsbókasöfnum eða í bókaverslunum. Leiðin út úr skápnum leiddi mann þó fljótlega að Samtökunum ‘78. Þar var að finna ýmsan fróðleik og gott bókasafn. Svo var það internetið. Efnið speglaði auðvitað meira og minna veruleika hinsegin fólks erlendis – og þá mest vestanhafs. Sem er alveg gott og blessað, svo langt sem það nær. En hvar var minn veruleiki? Mitt nærsamfélag? Hvar var „Íslandssaga hinsegin fólks?“

Jú, það hefur ýmislegt verið skrifað um sögu hinsegin fólks á Íslandi í gegnum tíðina. Meira að segja margt mjög merkilegt og mikilvægt. Nefna má skrif um framvindu réttindabaráttu, þá aðallega um lagabætur og Samtökin ‘78. Þá hafa komið út viðtalsbækur, sjálfsævisögur og frásagnir áhrifafólks í réttindabaráttu og stjórnmálum, auk ýmissa frásagna og viðtala við fjölda fólks. Efnið má finna víða. Sumt í bókum, innlendum og erlendum. Sumt í blöðum og tímaritum. Sumt í tímaritum eða á vef Samtakanna ‘78 eða Hinsegin daga. Þá hafa verið settar upp sýningar og efnt til gönguferða um söguslóðir hinsegin fólks.

Efnið er skrifað af blaðamönnum, rithöfundum og fólki úr hinum ýmsu fræðigreinum. Oftast er einnig um að ræða fólk sem sjálft hefur staðið framarlega í baráttu hinsegin fólks eða tengist henni sterkum böndum. Maður er auðvitað þakklátur þeim sem hafa skilið þörfina á því að halda þessari sögu til haga og brugðist við með því að leggja sín lóð á vogarskálarnar. En um leið saknar maður sagnfræðinga af vettvangi. Það þarf nefnilega ekki að grúska lengi til að sjá að það eru ekki til nein heildstæð verk þar sem þetta efni er rýnt og greint með aðferðum sagnfræðinnar. „Íslandssaga hinsegin fólks“ er ekki til.

Hvers vegna að skrifa eigin sögu?

En hvers vegna hefur hinsegin fólk á Íslandi farið að skrifa eigin sögu? Ég vil ekki tala fyrir aðra og eflaust er tilgangurinn misjafn. En fyrir mér er svarið augljóst: það er einfaldlega enginn að skrifa þessa sögu fyrir okkur! Eftirspurnin er að mínu viti knýjandi. Það merki ég af því þakklæti sem mér hefur verið sýnt fyrir það smáræði sem ég hef lagt af mörkum. Þetta er mjög einfalt. Við vitum af þörfinni. Við vitum af sinnuleysinu. Við teljum okkur málið skylt. Og viljum halda sögunni til haga. Þessi jafna hlýtur eiginlega að leiða allt þannig þenkjandi og þokkalega ritfært fólk að lyklaborðinu.

Hvernig skrifar maður?

En hvernig skrifar maður eigin sögu? Hér vil ég ekki leggja öðrum orð í munn, frekar en fyrr. Og aftur helgast þetta af tilganginum. Sumir eru að skrifa eigin persónulegu sögu. Voru í hringiðu atburða. Ég þori ekki að fullyrða hvernig þeir skrifa en ímynda mér að þeir stjórnist öðru fremur af eigin geðþótta. Aðrir styðjast við heimildir annarra. Ég hef sjálfur farið nokkuð hefðbundnar leiðir að ég held. Maður finnur sér viðfangsefni, grúskar og viðar að sér efni. Merkir og flokkar. Maður tekur viðtöl við fólk og mátar sö
gurnar við aðrar tiltækar heimildir. Vegur og metur. En heimildir eru oft fátæklegar og vegurinn vandrataður.  

Ég legg áherslu á að þótt ég hafi reynt að segja satt og rétt frá, hverra sannleikur sem það nú er, þá hefur ekki verið um hávísindaleg skrif að ræða. Hér er um áhugaskrif að ræða sem mótast af knöppu efni og tíma. Tilgangurinn stýrir þessu auðvitað líka. Ég játa til dæmis fúslega að í sögugöngurnar mínar hefur ýmislegt misjafnt fengið að slæðast með. Eitthvað sem er ekki alveg sannleikanum samkvæmt en sem gerir góða sögugöngu skemmtilegri. En þá hef ég líka reynt að matreiða þannig að ekki fari milli mála.

Hvað skrifar maður um?

Hvað er svo skrifað um? Ég hef reynt að ávarpa allt hinsegin samfélagið, ekki bara homma og lesbíur sem eru sátt við það kyn sem þeim var úthlutað við fæðingu. En það er ekki þar með sagt að það hafi tekist. Eins og allir hef ég ýmislegt í farteskinu og er mótaður af mínum reynsluheimi sem samkynhneigður cís-kynjaður karlmaður og það getur byrgt manni sýn. Kemur maður yfir höfuð auga á sögu eða reynsluheim annarra? Getur maður sett sig inn í efnið? Skilið það? Miðlað því? Það er hægara sagt en gert. Viljinn er til staðar, en heimildirnar og fólkið ekki beint á hverju strái. Svo er það náttúrulega tímaleysið.

Vettvangurinn er annar höfuðverkur. Er þetta saga pólitískra átaka? Réttindabaráttu og lagabóta? Stofnana og regluverks? Eða vill maður segja frá menningu? Skemmtanalífi? Mannlífsflóru? Er eitt mikilvægara en annað? Ég hef reynt að gera þessu öllu skil – enda eru þetta að mínu viti ekki aðskildir heimar. Þetta er meira og minna samtvinnað. Pólitíkin getur sett mark sitt á skemmtanalífið. Skemmtanir geta valdið pólitísku fjaðrafoki. Og það er sama hvar mann ber niður – alls staðar fer fram valdabarátta í einni eða annarri mynd.

Svo má spyrja um sjónarhornið. Er maður að skrifa um samfélag? Kerfi? Eða er þetta saga einstaklinga? Og er hún þá ekki alltaf hluti af einhverju stærra?

Hvers konar söguskoðun birtist – hvaða álitamál koma upp?

Það eru mörg álitamál fólgin í ritun eigin sögu. Hér er það oft baráttufólkið sjálft sem skrifar og því getur skort nauðynlega fjarlægð bæði í tíma og rúmi. Sjónarhornið getur verið of þröngt. Að frásögnin verði einhliða. Snúist um persónulega sigra, og eftir atvikum sorgir, fremur en að greina samfélagið og menninguna. Hættan felst líka í því að einblínt sé á reynsluheim sagnaritaranna. Að t.d. nær eingöngu sé fjallað um áberandi homma á vettvangi stofnunarinnar Samtakanna ‘78 fremur en samfélag hinsegin fólks. Að hópar innan hinsegin samfélagsins sem hefur verið útskúfað eða hafa átt erfitt uppdráttar gleymist. Sagan verði saga þeirra sem notið hafa mestu valdanna og forréttindanna innan hinsegin samfélagsins. Íslensk hinsegin saga þar sem hetjur ríða um héruð.

Með þessu er ég ekki að tala niður það sem hefur verið skrifað eða gera mér þá grillu að aðkoma sagnfræðinga muni öllu breyta og að þá verði allt gott. Nei, ég tel að það sem hafi verið skrifað sé mikilvægt og fullkomlega lögmætt. Það er til aragrúi af sambærilegu efni sem lýsir gagnkynhneigðum veruleika og hvers vegna þá ekki í hinsegin samfélaginu? Það sem ég er að kalla eftir er aukin breidd og dýpt. Vandaðar akademískar rannsóknir.

Söguskoðun eða þjóðrembingsleg syndaaflausn?

Að þessu sögðu verð ég að segja að ég hef í raun meiri áhyggjur af þeirri söguskoðun sem birtist t.d. í fjölmiðlum, og byggir samt væntanlega að stórum hluta á frásögnum okkar hinsegin fólks af sigrunum í réttindabaráttunni. Þessi söguskoðun snýst í mjög stuttu máli um að hér hafi allt verið ömurlegt einu sinni en að nú séu Íslendingar svo rosalega frjálslyndir. Þessi söguskoðun dvelur ekki við það hvernig ástandið raunverulega var. Hún lýsir heldur engum blæbrigðum. Hún gerir enga tilraun til greiningar á íslensku samfélagi almennt. Og í henni felst engin sjálfsskoðun. Hún krefst þess ekki að fólk líti í eigin gagnkynhneigða barm og spyrji hvort það hafi jafnvel átt þátt í kúgun hinsegin fólks. Hún gefur afslátt. Býður öllum að skreyta sig fjöðrum. Eigin, eða stolnum. Hún telur upp sigrana og lýsir því yfir við hverja réttarbót að baráttu okkar sé lokið. Hún upphefur íslenskt samfélag sem frábært og frjálslynt samfélag. Að við stöndum útlendingum framar. „Aumingja fólkið í Úganda og Rússlandi – mikið er ég nú þakklátur fyrir að hafa fæðst á Íslandi.“ Þessi söguskoðun snýst um að ýta óþægindunum burt. Veita syndaaflausn. Vandamálin eru í fjarlægri fortíð, nú eða í löndum sem blessunarlega eru fjarlæg Íslands ströndum. Vandamálin eru sko umfram allt ekki hjá okkur.

Það er engu líkara en að íslenski þjóðrembingurinn hafi rænt hinsegin sögunni. Þetta er hætt að snúast um sögu og menningu hinsegin fólks á Íslandi. Þetta snýst um að nota sigrana úr réttindabaráttu hinsegin fólks til að þess að baða íslenska þjóðríkið bleikum ljóma. Um ágæti þess að vera Íslendingur. Hinsegin frásögnin verður þjónandi aukaatriði. Hinsegin hættir að skipta máli.
Við erum jú svo frjálslynd.

Er þetta búið? Uuuuu… nei!

Þessa fölsku skoðun tekur margt hinsegin fólk sjálft undir og gleðst með. Kannski vegna þess að okkur hefur lengi verið kennt að vera þakklát og glöð fyrir það sem við höfum með harðri baráttu mátt sækja í klær gagnkynhneigða regluverksins. Þakklát fyrir molana sem með miklum semingi var ýtt í áttina til okkar, einum í einu. Þakklát fyrir að vera umborin. Eða kannski hoppum við á vagninn vegna þess að baráttan hefur verið löng. Við viljum bara fá smá frið. Telja okkur trú um að allt sé í himnalagi. Það er auðvitað skiljanlegt. Þetta ER þreytandi. Hver vill standa í eilífri baráttu? Ekki ég.

Þessi afstaða býður hins vegar hættunni heim. Að við sofnum á verðinum. Að við horfumst ekki í augu við vanrækta hópa og vandamál en veljum þess í stað að ýta því öllu undir teppið. Að við föllumst á að baráttunni sé lokið. Henni er ekki lokið, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og þrátt fyrir að okkur sé talin trú um hið gagnstæða. Þessi afstaða rænir okkur líka sögu okkar, menningu og sjálfsvirðingu. Það var t.d. varla að hinsegin fólki á Íslandi leyfðist að fagna þeim merka viðburði er fyrsta opinbera hinsegin manneskjan í heiminum settist hér í stól forsætisráðherra. Því var mætt af fálæti í fjölmiðlum og umræðu og lítið gert úr. Meira segja af forsvarsmönnum okkar hreyfingar. Af því að á Íslandi skipti kynhneigð bara engu máli lengur. Ekki einu sinni í pólitík.

BULL segi ég.

Mín upplifun og margra annarra er í hrópandi mótsögn við þetta. Víst skiptir kynhneigðin máli. Víst skiptir kynið máli. Kyngervið. Kyntjáningin. Kyneinkennin. Þetta skiptir allt verulegu máli. Við rekum okkur á það daglega í okkar starfi í hreyfingunni. Í glímunni við fordómana, andúðina, mismununina, ofbeldið – og ekki síst sjálfsritskoðunina. Og það þarf t.d. ekki annað en að glugga lauslega í bók þeirra Jóhönnu og Jónínu til að sjá það svart á hvítu.

Niðurstaða

Og þá komum við einmitt að kjarna málsins. Mikilvægi þess að skoða söguna. Þarna er einmitt komið aðkallandi verkefni fyrir sagnfræðinga. Og ekki verra að þeir væru hinsegin sjálfir – eða að minnsta kosti með djúpan skilning á lífi og menningu hinsegin fólks. Það þarf að skoða hinsegin söguna og þá söguskoðun sem hefur orðið ríkjandi síðustu árin. Það þarf að rannsaka, kryfja, brjóta til mergjar – og gera það með skipulögðum og vísindalegum hætti. Það þarf að skrifa okkar sögu en það þarf ef til vill fyrst að vinda ofan af þeirri söguskoðun sem nú virðist ríkja – endurskoða hana og endurskrifa. Það er ekki verkefni fyrir okkur áhugafólkið og þau sem lifa og hrærast í baráttunni. Við munum ekkert hætta að skrifa – ég hef engar áhyggjur af því.

En ég held að það sé líka kominn tími til að kalla sagnfræðina að borðinu.

Leave a Reply