Skip to main content
Uncategorized

Fyrirmyndin John Paulk

By 21. janúar, 2001No Comments

“̎Undanfarið hefur öfgafullt bókstafstrúarfólk reynt að draga umræðuna um samkynhneigð niður á vettvang "lækninga á samkynhneigð". Þessar staðhæfingar komu m.a. fram í greinum Morgunblaðsins haustið 1999 þegar umræðan um samkynhneigð stóð sem hæst. Nú er það hin "kristilega" sjónvarpstöð Omega sem dælir út áróðri m.a. gegn samkynhneigðum.

Sjónvarpsstöðin er notuð sem áróðurstæki og eftir gildistöku laga um stjúpættleiðingar var daglega rætt í útsendingum um hve samkynhneigð væri mikil synd. Á sama tíma voru námskeið auglýst sem höfðu það að markmiði að lækna samkynhneigða. Með þessu eru trúarhópar að freista þess að koma á skipulögðum “lækningum” eins og starfræktar eru í vestan hafs.

Við skulum taka fyrir þekktasta “fyrrverandi hommann” í Bandaríkjunum, John Paulk, og skoða feril hans. Hann samsamar sig nefnilega vel að þeim hópi fólks sem segist hafa breytt kynhneigð sinni. Fortíð þeirra er oft ansi skrautleg og líkist frekar farsa en dæmi um árangur lækninga. Trúverðuleikann í málinu er nefnilega frekar að finna í lífshlaupi þeirra en í yfirlýsingum hinna ýmsu trúarhópa.

John Paulk er einn þeirra "fyrrverandi homma" sem mesta athygli hefur vakið í Bandaríkjunum. Líf Paulks hefur breyst mikið. Fyrir nokkrum árum var hann ekki annað en drag-drottning sem seldi sig. Nú er hann titlaður “sérfræðingur um samkynhneigð og kynferði” fyrir stofnunina Focus on the Family sem er áberandi og íhaldsamur trúarhópur. Stofnunin er stærsti trúarlegi fjölmiðill í heimi. Paulk er einnig stjórnarformaður Norður-Ameríkudeildar Exodus International sem eru regnhlífasamtök fyrir trúarhreyfingar sem berjast gegn samkynhneigðum. Samtökin Exodus eru líklega þekktust fyrir þær sakir að tveir af stofnendum þeirra, þeir Michael Bussee og Gary Cooper, urðu ástfangnir á ráðstefnu einni á vegum samtakanna. Þeir skildu við eiginkonur sínar, hófu sambúð og hafa síðan þá gagnrýnt samtökin fyrir blekkingar og svik. Þeir segja meðferðina hjá Exodus árangurslitla og ekki einn hafi “læknast”.

John Paulk er giftur Anne sem er “fyrrverandi lesbía”. Þau ferðast um Bandaríkin og boða þá trú að samkynhneigð sé ekki guði þóknanleg og að samkynhneigðir séu dæmdir til eilífðar í vítiseldi nema þeir lifi samkvæmt sinni “náttúrlegu” gagnkynhneigð. Paulk-hjónin voru kynnt í auglýsingaherferð sem olli miklu fjaðrafoki í Bandaríkjunum í júlí 1998. Þá birtu fimmtán trúarhreyfingar sameiginlega heilsíðuauglýsingar undir fyrirsögninni “Truth in Love” þar sem samkynhneigðir eru hvattir til að leita sér lækninga. Auglýsingarnar birtust í nokkrum víðlesnustu dagblöðunum: Washington Post, New York Times og USA Today. Í kjölfarið birtust Paulk-hjónin á forsíðu Newsweek með fyrirsögninni “Gay for Life”“ og einnig í þáttunum Good Morning America, Ophra Winfrey og Jerry Springer.

Samkvæmt vefsíðu Paulks og sjálfævisögu hans Not Afraid to Change þá átti hann erfiða æsku. Foreldrar hans skildu þegar hann var fimm ára gamall og honum var strítt í skóla vegna þess hve kvenlegur hann var og lélegur í íþróttum. Hann hóf að drekka áfengi fjórtán ára gamall og á lokaári í framhaldsskóla fór hann fyrst á hommabar. Stuttu síðar hóf Paulk sambúð með öðrum manni sem stóð í eitt ár. Sambandsslitin voru honum svo erfið að hann varð að hætta í skólanum. Hann jók áfengisdrykkjuna og lagðist í þunglyndi.

Eftir mikinn innblástur úr skáldsögu, sem fjallaði um velgengni fylgdarsveins (male escort), ákvað hann að stunda vændi til að verða eins ríkur og eftirsóttur og fyrirmyndin úr skáldsögunni. Paulk hóf störf hjá fylgdarþjónustu og seldi líkama sinn fyrir 80 dollara á klukkustund. Fyrr en varði hafði hann sofið hjá meira en 300 manns. En, eins og hann hefur sjálfur lýst, þá varð hann leiður á að vera notaður kynferðislega svo hann hætti þessari iðju sinni. Þá tók við fjárhagsvandi sem einkenndist af gúmmítékkum og rafmagnsleysi vegna vanskila. Það versta var að hann hóf reglulega að stela peningum frá besta vini sínum.

Sem tómstundagaman ákvað Paulk að verða kveneftirherma, nota nafnið “Candi” og reyndi að verða besta kona sem hann gæti orðið. Til viðbótar við áfengisneysluna byrjaði hann að nota LSD um helgar. Nótt eina í þunglyndi sínu reyndi hann að svipta sig lífi en það tókst ekki. Þar næst reyndi hann árangurslaust að hætta að drekka.

Samkvæmt lýsingum John Paulks þá varð hann fyrir örlagaríkri trúarlegri reynslu kvöld eitt á dansgólfi skemmtistaðar. Í einni útgáfu frásagnarinnar sem birtist fyrst á vefsíðu Paulks þá bað hann til guðs að hann hjálpaði sér. Frásögnin hefur þó breyst með árunum og mörg smáatriði hafa bæst við hana. Löngu síðar í viðtali við Washington Times sagði Paulk að guð hefði, að fyrra bragði, sagt við hann þetta örlagaríka kvöld: “Komdu aftur til mín og ég mun frelsa þig frá þessu öllu og breyta lífi þínu.” Að vera ákallaður af guði gerir reynslusöguna auðvitað áhrifameiri en að biðja um hjálp.

Paulk gekk í trúarhreyfinguna Love in Action innan Exodus sem standa fyrir meðferð á samkynhneigðum. Þar átti hann erfitt með að yfirvinna samkynhneigðar kenndir sínar eins og aðrir í hreyfingunni sem sumir stunduðu leynilegt kynlíf. Paulk varð ástfanginn af einum &iacut
e; hópnum. Samt sem áður tóku þeir þátt í auglýsingaherferðinni sem Exodus stóð fyrir sumarið 1998. Paulk og vinir hans koma þar fram undir fyrirsögninni: “Geta samkynhneigðir breyst” Það gerðum við!” Á þeim tíma voru þeir enn í meðferð og samkvæmt eigin frásögn hafði hann enn tilfinningar gagnvart öðrum körlum. Einn forsvarmanna meðferðarinnar staðhæfði síðar í hreinskilni að markmið hennar væri ekki að breyta fólki í gagnkynhneigt fyrir lok ársins heldur að færa það nær guði. Ef fólk væri nær guði eftir meðferðina þá hefði hún heppnast.

Ári eftir meðferðina bað hann guð um þrennt: Að hann mætti giftast fyrrverandi lesbíu; að þau mættu eignast barn; og að guð myndi með reynslusögu þeirra gera heiminn dolfallinn. Ekki er ljóst af hverju eiginkona hans þurfti að vera fyrrverandi lesbía. Hann sagði þó í viðtali við Washington Times að honum hefði þótt það “flott”. Síðar kynntist hann fyrrverandi lesbíunni Anne og giftist henni árið 1992.

Stuttu eftir giftinguna lét hann hafa eftir sér í viðtali við Wall Street Journal að hann vissi ekki hvort hann hefði jafnmikla löngun fyrir kynlíf með konum og gagnkynhneigðir menn almennt. Hann sagði þó að samband hans við eiginkonuna væri að þróast. “Þegar maður byrjar í sambandi með konu, sem þú trúir að guð hafi leitt til þín, þá þróast tilfinningar í garð hennar,” er haft eftir honum. Fimm árum síðar viðurkennir hann í Newsweek að honum finnist karlmenn ennþá aðlaðandi en samt sé hann gagnkynhneigður.

Þegar vitnisburður fólks um lækningar er skoðaður yfir langt tímabil er afskaplega fátt sem bendir til að hægt sé að breyta kynhneigð fólks. Maður sannfærist einungis um að enn eru fordómarnir svo miklir að þeir kynda undir hatrinu og fælninni gagnvart samkynhneigðum. Hatrið fær samkynhneigða og aðstadendur þeirra til að láta hafa sig af fíflum og féþúfu, svo ekki sé minnst á þjáninguna. Eftir standa trúarhreyfingar sem halda því fram að neyða þurfi samkynhneigða í meðferð eins og alkohólista sem þurfi að breyta um lífsstíl – og græða svo á öllu saman.

Heimildir:
www.westword.com
www.religioustolerance.org
www.indegayforum.org
www.newtimesla.com
www.truluck.com

Leave a Reply