Samtökin ’78 kynna nýjan framkvæmdastjóra, Kára Garðarsson
Samtökin ’78 hafa ráðið Kára Garðarsson sem nýjan framkvæmdastjóra félagsins. Kári tekur við starfinu af Daníel E. Arnarsyni sem gegnt hefur stöðunni undanfarin sjö ár.
Kári Garðarsson er menntaður íþróttafræðingur með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu. Hann kemur til Samtakanna ’78 eftir starf sem framkvæmdastjóri Íþróttafélagsins Gróttu, en þar leiddi Kári félagið í gegnum mikilvæga þróunartíma. Áður starfaði hann sem aðstoðarskólastjóri í Dalskóla í Reykjavík, þar sem hann öðlaðist verðmæta reynslu af stjórnunar- og menntamálum.
„Við erum afskaplega spennt að fá Kára til liðs við okkur,“ segir Bjarndís Helga Tómasdóttir formaður Samtakanna ‘78. „Samtökin hafa vaxið gríðarlega síðustu ár og við erum þess fullviss að hann sé rétt manneskja til þess að fylgja þeim vexti eftir. Kári hefur mikið fram að færa í baráttunni fyrir réttindum og sýnileika hinsegin fólks á Íslandi.“
Ráðning Kára Garðarssonar tók formlega gildi þann 1. júlí 2024.