Skip to main content
search
Uncategorized

Kirkjan má líka vera stolt af samkynhneigðum

By 23. ágúst, 2004No Comments

Um þessa helgi fagna samkynhneigðir og önnur þau sem vilja sýna samstöðu með málefnum og málstað samkynhneigðra á Hinsegin dögum í Reykjavík. Hátíðahöldin fara fram undir merkjum þess að efla sýnileika samkynhneigðra og stoltar tilfinningar. Þessu stolti deila fjölskyldur og vinir samkynhneigðra um allt land.

Með þessu greinarkorni viljum við benda á að kirkjan er líka stolt af samkynhneigðum og vill ganga með þeim í leitinni að góðu og hamingjuríku lífi. Hún lítur hvorki á það sem óeðlilegt né ónáttúrulegt að laðast kynferðislega að einstaklingi af sama kyni en vill virða og styðja siðferðilega góð sambönd samkynhneigðra sem byggja á ást, trúnaði og réttlæti.

Einhver reka kannski upp stór augu vegna þessarar framsetningar. Víst er að oft hefur kirkjan haldið utan um og jafnvel stutt þá skoðun að þau sem hafi hina biblíulegu opinberun að leiðarljósi geti ekki viðurkennt samkynhneigð sem hluta Guðs góðu sköpunar þar sem í ákveðnum biblíutextum birtist andúð eða fordæming á kynlífsathöfnum samkynhneigðra.

Hæpin guðfræði – vafasöm siðfræði

Á hinn bóginn ber að benda á að hver sem stunda vill guðfræði eða kristna siðfræði, þarf að eiga umtalsvert samtal við ritningartextana til að geta byggt á merkingu þeirra. Það samtal þarf að eiga forsendur í þekkingu á menningarlegu, sögulegu og félagslegu samhengi textanna sem og innsýn í eigin samtíð. Afdráttarlaus fordæming á ástar- og kynlífssambandi einstaklinga af sama kyni sem byggir gagnrýnislaust á framsetningu einstakra biblíuversa er því hæpin guðfræði og vafasöm siðfræði.
Þá hefur kirkjan, trú hinni hefðbundnu kristnu kynlífssiðfræði, átt erfitt með að leggja af þá skoðun að gæði kynlífssambanda fari eftir því hvort þar eigi hlut að máli einstaklingar af sitt hvoru eða sama kyni. Gagnkynhneigðarhyggja nefnist það þegar litið er þannig á að gagnkynhneigð sé hið eina eðlilega viðmið alls kynlífs og þar af leiðandi allra ástarsambanda. Gagnkynhneigðarhyggja umbreytist í misrétti og mismunun þegar þeim sem ekki eru gagnkynhneigðir er mismunað kerfisbundið í samfélaginu, t.d. í lagalegu og efnahagslegu tilliti.

Ýmsir guðfræðingar hafa fundið hugmyndafræði gagnkynhneigðarhyggjunnar stoð í Biblíunni. Gagnkynhneigðarhyggjan er þó langt því frá sprottin upp úr Biblíunni heldur hvílir hún á þeirri tvíhyggjuhugsun sem hefur verið ríkjandi í allri vestrænni menningu og þótt víðar væri leitað. Sú hugsun lítur með tortryggni á efnislegan veruleika, þar meðtalið líkamlegar hliðar manneskjunnar og kynlífsiðkan hennar.

Kynverundin, grundvallarstef í mannlegri sjálfsmynd

Að þessari tvíhyggju þarf að ráðast og umbreyta henni. Þar getur guðfræðin lagt hönd á plóg og umskapað kristna kynlífssiðfræði. Umbreytt kristin kynlífssiðfræði gengur ekki út frá hinu líkamlega sem andstæðu hins andlega og gengur gegn syndaskilningi hinnar kristnu kynlífshefðar sem skilur allt kynlíf í ljósi syndafallsins. Hún leggur áherslu á að sérhver manneskja hefur hlotið kynverund sína (sexuality) að gjöf frá Guði og er sem slík óendanlega stór og mikilvæg í augum Guðs. Kynverund manneskjunnar er að sama skapi hluti af órjúfanlegri heild hennar sjálfrar og grundvallarstef í sjálfsmynd hennar.
Tilraunir til að viðurkenna þá staðreynd að fólk sé kynverur en jafnframt meina því að lifa sem slíkar eru guðfræðilega óásættanlegar og órökréttar í ljósi hinnar umbreyttu kristnu kynlífssiðfræði. Undir engum kringumstæðum verður hægt að smætta svo líf manneskjunnar að nokkur geti krafist þess af samkynhneigðum að þau lifi ekki sem kynverur. Þessi jákvæði skilningur á kynverund og kynlífi leggur áherslu á gagnkvæmni sem siðferðilegt gildi og hugsjón í allri umfræðu um kynlíf. Gagnkvæmni í kynlífssambandi og hjónabandi felst ekki í því að vera af andstæðu kyni, heldur að gefa af sér ást og kærleika og fá slíkt hið sama tilbaka.

Gegn gagnkynhneigðarhyggju

Gagnkvæmni í kynlífi er því engan veginn frátekin fyrir þau sem eru gagnkynhneigð heldur er siðferðilegur mælikvarði á góð sambönd hvort sem um er að ræða fólk af sitthvoru kyninu eða af sama kyni. Umbreytt kristin kynlífssiðfræði lyftir margbreytileikanum fram og sér fyrirheit um slíkt í orðum Biblíunnar um sköpun manneskjunnar. Sköpunarsögur Biblíunnar njörva guðfræðina ekki niður í andstæðumiðaðan mannskilning, eins og tvíhyggjan byggir á, heldur benda á margbreytileika sem er innbyggður í sköpunina alla.
Það sjónarmið sem hér kom fram í upphafi, að ástar- og kynferðissamband einstaklinga af sama kyni sé hvorki óeðlilegt né ónáttúrulegt, afneitar að sjálfsögðu þeirri gagnkynhneigðarhyggju að hið eina rétta viðmið sé ást og kynlíf milli karls og konu. Það gengur út frá samkynhneigð sem fullgildu og fullkomnu stefi í stórbrotinni og margbreytilegri sköpun Guðs. Það er því full ástæða fyrir kirkjuna að vera stolt af samkynhneigðum og samgleðjast þeim í dag.

Kristín Þórunn Tómasdóttir og Sólveig Anna Bóasdóttir eru guðfræðingar og þjóna Þjóðkirkjunni.
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu á Hinsegin dögum 2004, 7. ágúst.

Leave a Reply