Mjög er um tregt tungu að hræra, sagði Egill Skallagrímsson í sorg sinni. Og í dag er mér tregt tunguna að hræra. Skilaboðin frá Prestastefnu á Húsavík eru vonbrigði. Við prestar getum haldið því fram að mikilvægum áfanga hafi verið náð með því að samþykkja að blessa staðfesta samvist og viðurkenna að Biblíunni sé ekki hægt að halda á lofti til að tefja réttindabaráttu samkynhneigðra. En þetta snýr eingöngu að prestastéttinni.
Fyrir almenningi er áfanginn núll og tíðindin um að prestar séu tilbúnir að blessa sambúð samkynhneigðra eru ekkifrétt. Ég er ekki hissa á því að margir séu búnir að fá upp í kok af kirkjunni og tjái þá afstöðu sína með því að segja sig úr þjóðkirkjunni. En ég vil líka minna á 42 presta og guðfræðinga sem lýstu sig opinberlega fúsa til að gefa samkynhneigða í hjónaband. Og það á bara eftir að fjölga í þeim hópi á næstunni. Vonandi reynist það einn af vonarneistunum fyrir þau sem eru sár og reið út í prestastéttina en er enn annt um þjóðkirkjuna.
Niðurstaða prestastefnu mun veikja þjóðkirkjuna í samfélaginu, trúverðugleikinn minnkar og ekki kæmi mér á óvart að umræður um aðskilnað ríkis og kirkju fengju byr undir báða vængi á næstu mánuðum og misserum. Svanur Kristjánsson prófessor flutti erindi á Prestastefnu. Hann taldi það athyglisverða stöðu ef kærleikur almennings næði lengra en kærleikur kirkjunnar í málefnum samkynhneigðra. Og þegar talað er um kirkjuna hér þá er átt við æðstu stofnanir hennar og samráðsvettvang, prestastefnu og kirkjuþing. Og það var þörf áminning frá prófessornum að minna á hvernig stöðugt væri verið að tefla lýðræðinu í hættu í samfélaginu með ótta og ofbeldi.
Slíkir straumar náðu sannarlega að svífa yfir vötnum á Prestastefnu 2007. Þegar gengið var til atkvæða um málefni samkyneigðra var dregið fyrir alla glugga. Úti var sólskin og vor. Þetta var mjög táknrænt og skýr skilaboð. Jafnréttinu var frestað enn eina ferðina í kirkjunni. Við misstum af gullnu tækifæri. Það tækifæri kemur örugglega aftur því leiðin og endapunkturinn eru alveg skýr. En þá er hins vegar hætt við að staða þjóðkirkjunnar verði orðin veikari en áður og vandséð hvernig hún muni endurheimta þann sess sem henni ber í samfélaginu.
Vonin er fólgin í því að Alþingi taki nú af skarið og taki ákvörðunina fyrir kirkjuna og samfélagið. Þar hafa síðustu misserin blásið ferskir vindar í afstöðunni til réttindabaráttu samkynhneigðra. Nú gildir að styðja gott fólk til góðra verka. Baráttan heldur áfram og ég ætla ekki að segja mig úr þjóðkirkjunni.
Sr. Óskar H. Óskarsson 27. apríl 2007