Skip to main content
Grein

Kjósum með mannréttindum á laugardaginn

By 29. nóvember, 2024desember 4th, 2024No Comments

Bjarndís Helga Tómasdóttir og Kári Garðarsson skrifa: 

Á Íslandi hefur frelsi hinsegin fólks til að vera það sjálft og lagaleg réttindi tekið stakkaskiptum á síðustu árum, í kjölfar þrotlausrar áratugalangrar baráttu. Hér eru lagaleg réttindi og samfélagslegt samþykki hinsegin fólks orðin með því besta sem fyrirfinnst í heiminum. En það þýðir ekki að Ísland sé einhver hinsegin útópía, samfélag þar sem engar ógnir steðja að mannréttindum hinsegin fólks.

Mannréttindi hinsegin fólks sæta árásum í ríkjum nálægt okkur

Þegar rætt er um ógn við mannréttindi hinsegin fólks detta fólki líklega fyrst í hug ríki eins og Rússland og Ungverjaland. En staðreyndin er að nú þegar liggur hinsegin fólk undir árásum frá stjórnvöldum og stjórnmálafólki í ríkjum sem við teljum standa okkur nær. Nú þegar er raunverulega verið að draga til baka réttindi hinsegin fólks, eða sækja þannig gegn þeim að það jaðrar við ofsóknir gegn ákveðnum hópum.

Á Ítalíu hafa stjórnvöld til dæmis afnumið réttindi samkynja foreldra til að vera skráðir löglegir foreldrar barna sinna, og takmarkað þann rétt við líffræðilegt foreldri barnsins. Löggjöf sem gera átti það ólöglegt að mismuna fólki eftir kynhneigð og kynvitund var kastað út úr ítalska þinginu við fögnuð þingmanna.

Í Bandaríkjunum hafa verið lögð fram 668 lagafrumvörp gegn trans fólki á þessu ári, sem beinast að því að hindra þau í að fá heilbrigðisþjónustu, koma í veg fyrir fræðslu um tilveru þeirra, og takmarka eða afnema lagalega viðurkenningu og rétt þeirra til að taka þátt í samfélaginu. Þá gerðu repúblikanar harkalega aðför að réttindum trans fólks að sérstöku áhersluefni í kosningaherferð sinni síðustu vikurnar fyrir forsetakosningarnar. Líklegt þykir að hæstiréttur Bandaríkjanna muni taka rétt samkynja para til að ganga í hjónaband til umfjöllunar á sama grundvelli og þegar almennur réttur til fóstureyðinga var afnuminn, áður en langt um líður.

Í Bretlandi birtist nú árlega gríðarlegur fjöldi neikvæðra frétta og greina gegn trans fólki í fjölmiðlum og stjórnmálamenn ýta markvisst undir ósamstöðu og fordóma í garð trans fólks í opinberri umræðu til að beina athygli frá öðrum stærri og flóknari málaflokkum. Afleiðingin er meðal annars sú að hatursglæpir gegn trans fólki hafa aukist um 100% frá 2019. Á sama tíma hefur aðgengi trans fólks að heilbrigðisþjónustu verið skert á ýmsan hátt og sjálfsvígum fjölgað í beinu samhengi.

Það er því ekki verið að tala um eitthvað huglægt eða óáþreifanlegt þegar við segjum að mannréttindi hinsegin fólks séu í hættu. Það er staðreynd að mannréttindi hinsegin fólks liggja undir mjög raunverulegum og alvarlegum árásum víða í samfélögum sem við hér á landi samsömum okkur yfirleitt við og verðum óhjákvæmilega fyrir miklum menningarlegum og stjórnmálalegum áhrifum frá.

Stjórnmálamenn bera ábyrgð á því að standa vörð um mannréttindi

Alls staðar þar sem þessi neikvæða þróun á sér stað hafa stjórnmálaflokkar tekið þátt í neikvæðri umræðu um hinsegin fólk, jafnvel markvisst, eða sofið á verðinum og ekki staðið gegn henni.

Í öllum tilfellum eru það stjórnmálaflokkar við völd sem taka ákvarðanir um afnám eða afturköllun lagalegra réttinda hinsegin fólks.

Í öllum tilfellum bera stjórnmálaflokkar ábyrgð á því að standa vörð um mannréttindi allra í samfélaginu og því miður bregðast þeir of oft þeirri skyldu þegar tækifæri gefast til atkvæðaveiða í gruggugu vatni.

Það gildir því miður nákvæmlega eins um Ísland og önnur lönd.

Stjórnmálaöfl sem bregðast mannréttindum

Það eru veruleg vonbrigði, og augljóst hættumerki, að sjá í kosningabaráttunni hér á Íslandi síðustu vikur síendurtekin stef í stjórnmálaumræðunni sem augljóslega koma frá sömu rót og beita sömu rökum gegn mannréttindum hinsegin fólks og gert er m.a. í löndunum sem voru nefnd hér að ofan.

Á undanförnum vikum hafa fulltrúar nokkurra stjórnmálaflokka kvartað hástöfum yfir meðvitund um mannréttinda- og jafnréttismál, gegn sjálfsákvörðunarrétti trans fólks, gegn því að hatursorðræða í garð minnihlutahópa í samfélaginu sé refsiverð, og gegn einföldum hugtökum eins og inngildingu sem miða að því að allir þegnar samfélagsins geti tekið jafnan þátt í því eða hafi jöfn tækifæri til þess.

Þetta kalla þau „vók“, vælustjórnmál eða pólitískan rétttrúnað. Við köllum þetta það sem það er: Að tala gegn mannréttindum.

Í fyrsta skipti í sögunni hefur pólitískt framboð á Íslandi talað fyrir því að afturkalla áunnin réttindi hinsegin fólks, nánar tiltekið að banna heilbrigðisþjónustu fyrir trans börn og ungmenni – þvert á vísindalega þekkingu og af fullkomnu ábyrgðarleysi gagnvart velferð þeirra barna sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins og stuðningi samfélagsins að halda. Það er grafalvarlegt.

Stjórnmálaöfl sem standa með mannréttindum

Samtökin ’78 óskuðu fyrir skömmu eftir svörum framboðana við spurningum um hvort þau styðji við mannréttindi hinsegin fólks. Sum framboðin sendu ítarleg og jákvæð svör, önnur voru afar loðin í svörum, jafnvel eins og þau væru að forðast umræðuna. Svör framboðanna má sjá á vefnum https://samtokin78.is/kosningar-2024/.

Við hvetjum öll sem styðja jöfn mannréttindi allra í samfélaginu og hafa áhuga á viðhorfum stjórnmálaflokkanna til mannréttinda hinsegin fólks til að kynna sér afstöðu flokkanna, ræða hana við fjölskyldu og vini og vekja fólk í nærumhverfi sínu til vitundar um mikilvægi mannréttinda nú daginn fyrir kosningar.

Reynslan frá nágrannalöndum okkar sýnir skýrt og greinilega að það er ekki nóg að stjórnmálaflokkar hampi því að þeir styðji réttindabaráttu hinsegin fólks, svona almennt. Það er nauðsynlegt að stjórnmálafólk sem vill standa með mannréttindum geri það í verki, hafi kjark til að rísa upp gegn þeirri umræðu sem nú þegar heyrist og sést á Íslandi gegn jöfnum réttindum hinsegin fólks á við aðra í samfélaginu og andmæla þannig að eftir því sé tekið.

Mannréttindi eru því miður ekki sjálfsögð, þau verða ekki til af sjálfum sér og það þarf ótrúlega lítið til að brjóta þau niður ef vilji stjórnmálaafla við völd stendur til þess.

Stjórnmálamenn sem vilja ekki að mannréttindi hinsegin fólks á Íslandi fari sömu leið og t.d. í Bandaríkjunum, Bretlandi og Ítalíu, þurfa að þora að standa upp og segja það. Þora að leggja pólitíska framtíð sína á vogarskálar jafnra mannréttinda allra í samfélaginu.

Við kjósum með mannréttindum hinsegin fólks

Það er eðlileg og skilyrðislaus krafa Samtakanna ’78, samtaka alls hinsegin fólks á Íslandi, að stjórnmálaöfl sem sækjast eftir því fá völd til að stjórna samfélaginu sem við erum hluti af, segi okkur hvort þau styðja að við höfum jöfn mannréttindi á við aðra. Stjórnmálaflokkar sem geta ekki svarað þeirri einföldu spurningu með skýlausu já, fá ekki okkar atkvæði. Það ætti ekki að koma neinum á óvart.

Myndir þú kjósa einhvern sem ætlar ekki að standa með eða vill jafnvel takmarka mannréttindi þín, eða fjölskyldu þinnar og vina?

Ísland er sem betur fer samfélag þar sem allt fólk á að geta notið virðingar og jafnra réttinda. Til þess að svo verði áfram þurfum við að kjósa eftir þeim gildum sem við höfum í hávegum. Við hvetjum stjórnmálafólk til ábyrgrar umræðu um alla í samfélaginu og við hvetjum kjósendur til þess að velja vel hvert atkvæði þeirra fer.

Við kjósum með mannréttindum. Hvað með þig?

Bjarndís Helga er formaður Samtakanna ‘78.
Kári Garðarsson er framkvæmdastjóri Samtakanna ‘78.

Greinin birtist fyrst á Vísi 29. nóvember 2024.