Skip to main content
FréttirHagsmunabarátta

Framboð krafin um svör

By 17. maí, 2022No Comments

Laugardaginn 14. maí var gengið til sveitarstjórnarkosninga á Íslandi. Samtökin ‘78 tóku virkan þátt í að tala fyrir og minna á mikilvægi málefna hinsegin fólks í aðdraganda kosninganna, enda er hægt að gera margt á sveitarstjórnarstiginu til að stuðla að jafnrétti. Ákveðið var að senda fjórar spurningar til framboða og birta svör þeirra opinberlega á síðu samtakanna. Miðað var við sveitarfélög þar sem íbúar eru 1500 eða fleiri, eða 26 fjölmennustu sveitarfélög landsins.

Þau svör sem bárust má finna hér

Spurningarnar voru eftirfarandi:

Þjónustusamningur
Samtökin ‘78 eru með þjónustusamninga við Reykjavík, Hafnarfjörð, Grindavík og Snæfellsbæ. Samningarnir kveða meðal annars á um fræðslu fyrir nemendur grunnskóla og starfsfólk og framlagi til að halda úti ókeypis ráðgjöf fyrir hinsegin fólk og aðstandendur. Mun þitt framboð leggja áherslu á að gerður verði slíkur þjónustusamningur við Samtökin ‘78? Ef samningur er þegar í gildi, sérð þú fyrir þér að útvíkka samninginn?

Heildræn hinsegin stefna
Mikilvægt er að sveitarfélög setji sér heildræna stefnu í hinsegin málum. Sveitarfélög hafa mikil tækifæri til að hafa áhrif, enda nær þjónusta þeirra til allra bæjarbúa og þau eru oftast nær einn stærsti vinnuveitandi innan sveitarfélagsins. Mun þitt framboð beita sér fyrir því að sveitarfélagið setji sér sérstaka hinsegin stefnu, t.a.m. með tilliti til þjónustuþega, skólastarfs og starfsfólks sveitarfélagsins?

Hinsegin félagsmiðstöð
Samtökin ’78 reka hinsegin félagsmiðstöð í samvinnu við Reykjavíkurborg. Mikill árangur hefur hlotist af starfinu og ungmennin sem nýta sér félagsmiðstöðina hafa lýst yfir þörf fyrir að boðið sé upp á þessa þjónustu víðar. Mun þitt framboð beita sér fyrir því að sveitarfélagið leggi til fjármagn svo tryggja megi rekstur hinsegin félagsmiðstöðvar, þá jafnvel í samstarfi við önnur sveitarfélög?

Hinsegin fólk á framboðslista
Eru frambjóðendur á þínum lista sem eru opinberlega hinsegin? Hver eru þau og hvernig upplifa þau hinsegin áherslur listans?