Samtökin ’78 hafa sent eftirfarandi framboðum* spurningar varðandi stefnur, kosningaáherslur og ályktanir framboðanna.
Flokkur fólksins
Svör við spurningum
Framboðið hefur ekki skilað inn svörum
Framsóknarflokkurinn
Svör við spurningum
Er framboðið tilbúið til að efla hagsmunasamtök hinsegin fólks og gera áframhaldandi þjónustu- og styrktarsamninga við þau?
Framsókn styður réttindabaráttu hinsegin fólks og leggur áherslu á að Ísland verði fremst meðal þjóða þegar kemur að réttindum þeirra. Í stefnu okkar er ekki tekin nákvæm afstaða til þjónustu- og styrktarsamninga við hagsmunasamtök hinsegin fólks en skýr vilji er fyrir því að styðja þau í baráttu sinni.
Þessi vilji var m.a. sýndur í verki þegar mennta- og barnamálaráðuneytið, undir stjórn Ásmundar Einars ritara Framsóknar, gerði samning við Samtökin 78 upp á 25 milljónir króna til þess að þróa og veita fræðslu og ráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum um málefni hinsegin fólks meðal annars. Ráðuneytið hafði áður veitt styrki til Samtakanna til að tryggja getu þeirra til að veita félagsfólki sínu stuðning á meðan heimsfaraldrinum stóð.
Er framboðið viljugt til þess að bæta við breytum sem varða hinseginleika inn í stjórnarskrá Íslands?
Það er mikilvægt að stjórnarskráin endurspegli sameiginleg grunngildi þjóðarinnar og sé í takt við nútímann. Endurskoðun stjórnarskrárinnar verður að byggja á skýru lýðræðislegu umboði og ferli hennar að vera gagnsætt.
Hvernig ætlar framboðið að vinna gegn fordómum og hatursorðræðu gagnvart minnihlutahópum?
Framsókn leggur áherslu á að sporna gegn hatursorðræðu og vill skýra stefnumótun stjórnvalda í samræmi við 233. gr. a. laga nr. 19/1940. Flokkurinn leggur áherslu á upplýst samfélag þar sem hatursorðræða er ekki liðin. Með því að vinna gegn hatursorðræðu vill Framsókn stuðla að jafnara aðgengi að stjórnsýslu og dómstólum og tryggja að samfélagið sé öruggt og réttlátt fyrir öll.
Fræðsla hefur mikilvægu hlutverki að gegna þegar það kemur að því að sporna gegn hatursorðræðu og fordómum. Við viljum auka vægi hinsegin fræðslu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi í samræmi við aldur og þroska. Þá viljum við að fræðsla um kynvitund, kynhneigð og mismunandi kyneinkenni verði hluti af foreldrafræðslu á heilsugæslustöðvum.
Hefur framboðið sett sér stefnu þegar kemur að því að efla hinsegin fólk í stjórnmálum?
Framsókn hefur frá árinu 1996 átt jafnréttisáætlun sem hefur það að markmiði að ná jafnri þátttöku félagsfólks óháð þáttum á borð við kynferði, kynhneigð, kyneinkenni og kynvitund í störfum á vegum flokksins, ákvarðanatöku og ábyrgðarskiptingu. Til staðar er jafnréttisnefnd sem vinnur með einingum innan flokksins til að tryggja framkvæmd áætlunarinnar.
Er framboðið með áherslu á eldra hinsegin fólk í málefnum þess hóps?
Framsókn leggur áherslu á að efla forvarnir og heilsueflingu fyrir eldra fólk almennt, sem felur í sér aukinn félagslegan stuðning og skimanir til að vinna gegn einmanaleika, félagslegri einangrun, kvíða og þunglyndi. Þó að sérstök áhersla á eldra hinsegin fólk sé ekki nefnd sérstaklega í stefnu flokksins, er markmiðið að tryggja að allir, óháð bakgrunni, kynferði, kynhneigð, kyneinkennum eða kynvitund, fái nauðsynlega þjónustu og stuðning.
Er áhersla á mannréttindi hinsegin fólks á heimsvísu hluti af utanríkisstefnu framboðsins?
Framsókn vill að Ísland beiti sér áfram fyrir vernd og eflingu mannréttinda um heim allan, þar á meðal réttindum hinsegin fólks. Þetta er hluti af utanríkisstefnu flokksins, sem leggur áherslu á frið og jafnrétti sem leiðarljós í alþjóðasamskiptum.
Hver er stefna framboðsins í málefnum hinsegin umsækjenda um alþjóðlega vernd?
Framsókn leggur áherslu á að móttaka og þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd, þar á meðal hinsegin einstaklinga, sé unnin með mannréttindi að leiðarljósi. Flokkurinn vill tryggja að framkvæmd laga sé skilvirk og að vel sé staðið að skipulagi umsókna og þjónustu samfélagsins. Markmiðið er að byggja kerfi sem tekur mið af mannúðarsjónarmiðum og alþjóðlegum skuldbindingum, þannig að allir umsækjendur fái réttláta málsmeðferð.
Hvað hefur framboðið gert í réttindabaráttu hinsegin fólks áður? (ATH. þau sem hafa áður verið með manneskju á þingi svara hér)
Hér að neðan má finna dæmi um framlag Framsóknar til réttindabaráttu hinsegin fólks. Listinn er alls ekki tæmandi:
Frumvarp um réttarstöðu samkynhneigðra, sem lagt var fram af Halldóri Ásgrímssyni, þáverandi formanni Framsóknar og forsætisráðherra, og samþykkt árið 2006, heimilaði óvígða sambúð, ættleiðingu og tæknifrjóvganir samkynhneigðra. Fulltrúi Samtakanna 78 átti sæti í nefndinni sem vann frumvarpið. Lögin voru stórt framfaraskref í réttindabaráttu hinsegin fólks og lagði grundvöllinn fyrir framtíðarbreytingum á t.a.m. hjúskaparlögum.
Þingflokkur Framsóknar kaus með frumvarpi um breytingar á hjúskaparlögum árið 2010 sem gerði samkynhneigðum pörum kleift að ganga í hjúskap.
Lög um kynrænt sjálfræði voru lögð fram af ríkisstjórn sem Framsókn átti sæti í.
Fyrsta aðgerðaráætlun Íslands í málefnum hinsegin fólks var sett fram af ríkisstjórn með þátttöku Framsóknar og var framkvæmd undir leiðsögn ráðuneyta flokksins allt kjörtímabilið.
Samkynhneigðum karlmönnum verður loksins heimilt að gefa blóð frá og með 1. júlí á næsta ári, eftir langa baráttu, með breytingu Willums Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra Framsóknar, á reglugerð um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs.
Í úttekt Evrópunefndarinnar gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi (ECRI) frá árinu 2023 er lýst ánægju með menntastefnu stjórnvalda, sem Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar, lagði fram og Ásmundur Einar Daðason, ritari Framsóknar, hélt áfram með. Menntastefnan byggir á jöfnum tækifærum og hefur, með fjölmörgum aðgerðum gegn einelti, markað framfaraskref samkvæmt úttektinni.
Þegar Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, skipaði starfshóp til að móta heildarstefnu í áfengis- og vímuefnavörnum, var sérstök áhersla lögð á að mæta þörfum hinsegin fólks og annarra hópa í meðferðarúrræðum við fíknisjúkdómum.
Mun framboðið standa vörð um áunnin réttindi hinsegin fólks á Íslandi, t.a.m. lög um kynrænt sjálfræði?
Framsókn stendur staðfastlega vörð um áunnin réttindi hinsegin fólks á Íslandi. Við höfnum allri mismunun sem gerir greinarmun á fólki eftir kynþætti, kynferði, tungumáli, trú, þjóðerni, kynhneigð, kyneinkennum, kynvitund, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við trúum því að öll eigi að fá tækifæri til að lifa frjáls og örugg.
Því miður hefur reynslan sýnt okkur að áunnin réttindi eru ekki sjálfgefin. Því er mikilvægt að standa vörð um mannréttindi hinsegin fólks, svo ekki verði afturför í þeirri baráttu sem þegar hefur skilað miklum árangri.
Er hinsegin fólk sýnilegt á listum framboðsins?
Það er hinsegin fólk á framboðslistum Framsóknar. Við metum fjölbreytileikann mikils og einstaklingar úr öllum hópum eru velkomnir í Framsókn. Við berum ríka virðingu fyrir friðhelgi og sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga og spyrjum því ekki sérstaklega út í kynhneigð, kynvitund eða aðra þætti sem falla undir hinsegin regnhlífina þegar einstaklingar gefa kost á sér á lista. Því er erfitt að segja til um hlutfall hinsegin fólks á listum okkar.
Miðflokkurinn
Svör við spurningum
Er framboðið tilbúið til að efla hagsmunasamtök hinsegin fólks og gera áframhaldandi þjónustu- og styrktarsamninga við þau?
Miðflokkurinn styður frjáls félagasamtök og rétt þeirra til starfa. Ef skattpeningum er varið í að aðstoða við starfsemi þeirra er brýnt að það sé gert með gegnsæjum og sanngjörnum hætti. Slík ráðstöfun skattfjár hlýtur ávallt að vera til endurskoðunar.
Er framboðið viljugt til þess að bæta við breytum sem varða hinseginleika inn í stjórnarskrá Íslands?
Miðflokkurinn hefur stutt ákveðnar breytingar á stjórnarskránni, þá breytingar sem miða að því að bæta stjórnskipun landsins. Ísland er í fremstu röð í heiminum þegar kemur að réttindum minnihlutahópa og því verður að ætla að núverandi stjórnarskrá hafi reynst vel.
Hvernig ætlar framboðið að vinna gegn fordómum og hatursorðræðu gagnvart minnihlutahópum?
Miðflokkurinn styður tjáningarfrelsi og opna og frjálsa skoðanaumræðu. Um leið er brýnt að við sýnum hvert öðru sanngirni, hógværð og mildi.
Hefur framboðið sett sér stefnu þegar kemur að því að efla hinsegin fólk í stjórnmálum?
Miðflokkurinn telur mikilvægt að sem flestir sjái sér fært að taka þátt í stjórnmálum ef hugsjónir þeirra standa til þess.
Er framboðið með áherslu á eldra hinsegin fólk í málefnum þess hóps?
Miðflokkurinn lætur sér mjög umhugað um réttindi eldra fólks og styður baráttu þess til betra lífs, óháð kynferði eða kynhneigð.
Er áhersla á mannréttindi hinsegin fólks á heimsvísu hluti af utanríkisstefnu framboðsins?
Ísland er í fremstu röð í heiminum þegar kemur að mannréttindum almennt og þó sérstaklega þegar kemur að mannréttindum hinsegin fólks. Við Íslendingar getum því
með stolti horft framan í aðrar þjóðir sem án efa geta sótt fordæmi hingað kjósi þær það.
Hver er stefna framboðsins í málefnum hinsegin umsækjenda um alþjóðlega vernd?
Ísland veitir fólki vernd samkvæmt alþjóðlegum samningum þar um óháð kynferði eða kynhneigð.
Hvað hefur framboðið gert í réttindabaráttu hinsegin fólks áður? (ATH. þau sem hafa áður verið með manneskju á þingi svara hér)
Miðflokkurinn hefur látið sér umhugað um að bæta og vernda mannréttindi allra borgara landsins.
Mun framboðið standa vörð um áunnin réttindi hinsegin fólks á Íslandi, t.a.m. lög um kynrænt sjálfræði?
Miðflokkurinn virðir þá baráttu fyrir mannréttindum sem hér hefur átt sér stað síðan landið fékk fullveldi.
Er hinsegin fólk sýnilegt á listum framboðsins?
Miðflokkurinn spyr fólk ekki um kynhneigð þegar valið er hverjir eru í forystu fyrir flokkinn.
Píratar
Svör við spurningum
Er framboðið tilbúið til að efla hagsmunasamtök hinsegin fólks og gera áframhaldandi þjónustu- og styrktarsamninga við þau?
Já. Píratar telja starf Samtakanna ‘78 vera ómetanlegt framlag og þjónusta við hinsegin fólk. Við munum því beita okkur fyrir auknu fjármagni og styrktarsamningum til að tryggja að hægt sé að sinna þjónustunni áfram.
Er framboðið viljugt til þess að bæta við breytum sem varða hinseginleika inn í stjórnarskrá Íslands?
Já. Píratar hafa frá stofnun barist fyrir nýrri stjórnarskrá Íslands sem byggir á tillögum Stjórnlagaráðs. Í kosningastefnu Pírata leggjum við til að uppfæra ákveðna hluta stjórnarskrárinnar í fullu samráði við almenning og sérfræðinga. Þar nefnum við til dæmis að uppfæra þurfi jafnræðisákvæðið þannig að það nái ekki bara til kynhneigðar, heldur líka kyntjáningar, kynvitundar og kyneinkenna.
Hvernig ætlar framboðið að vinna gegn fordómum og hatursorðræðu gagnvart minnihlutahópum?
Píratar telja það undirstöðuatriði að efla fræðslu um hinsegin málefni á öllum sviðum. Það er til að mynda gert með frekari fjárstuðningi til hagsmunasamtaka og verkefna sem tækla fordóma og mismunun. Þar má sérstaklega nefna að námsefni í skólum taki mið af hinsegin málefnum í samræmi við aðalnámskrá og að hugað sé sérstaklega að fræðslu í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Píratar vilja einnig tryggja skýrari lagaramma í tengslum við hatursorðræðu og hatursglæpi, til að tryggja að hinsegin fólk geti leitað réttar síns og upplifað að það búi við viðeigandi vernd hér á landi. Bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks hefur svo sannarlega raungerst hérlendis og því er mikilvægt að stjórnvöld bregðist við með afgerandi hætti.
Hefur framboðið sett sér stefnu þegar kemur að því að efla hinsegin fólk í stjórnmálum?
Píratar vilja efla hinsegin fólk til jafnréttis og jafnrar stöðu á allan hátt. Lýðræðisleg þátttaka og valdefling hinna valdaminni gagnvart hinum valdameiri er jafnframt mikilvægur hluti af grunnstefnu Pírata. Píratar telja að þátttaka í stjórnmálum, hvort sem um er að ræða kjósanda, frambjóðanda eða virkan þátttakanda í samfélagsumræðu og skoðanaskiptum, sé grundvallar þáttur í borgaralegum réttindum. Það er ekki nóg að fólki sé tæknilega leyft að taka þátt, það þarf að hafa raunverulegt aðgengi að þátttöku og þar þarf sérstaklega að huga að þeim hópum sem sögulega hafa verið jaðarsettir.
Er framboðið með áherslu á eldra hinsegin fólk í málefnum þess hóps?
Já. Í kosningastefnu Pírata er sérstaklega tekin fram nauðsyn þess að skoða sérstöðu eldra hinsegin fólks og sjá til þess að þjónusta við hinsegin eldra fólk taki mið af sérþörfum og lífi þess og að starfsfólk sem annast þennan hóp á t.d. hjúkrunarheimilum fái viðeigandi fræðslu.
Er áhersla á mannréttindi hinsegin fólks á heimsvísu hluti af utanríkisstefnu framboðsins?
Píratar eru með mjög skýra áherslu á varðveislu og útvíkkun mannréttinda, borgararéttinda og hinsegin réttinda. Við viljum gera Ísland að leiðandi ríki í réttindabaráttu hinsegin fólks á heimsvísu. Þar að auki leggjum við áherslu á að gera Ísland að öflugri rödd á alþjóðavettvangi þegar kemur að friði, mannúð, mannréttindum og alþjóðalögum og við viljum tryggja að Ísland sýni í verki að brot gegn þessum hugsjónum hafi afleiðingar.
Hver er stefna framboðsins í málefnum hinsegin umsækjenda um alþjóðlega vernd?
Píratar vilja að Ísland sé gott móttökuland fyrir þau sem hingað koma: Innflytjendur, flóttafólk eða umsækjendur um alþjóðlega vernd. Fordómar og ofsóknir gegn hinsegin fólki færast því miður í aukana á heimsvísu og því skiptir það meira máli en nokkru sinni að tekið sé vel á móti því fólki sem flýr heimili sín af þeim orsökum.
Hvað hefur framboðið gert í réttindabaráttu hinsegin fólks áður? (ATH. þau sem hafa áður verið með manneskju á þingi svara hér)
Píratar börðust einart, og á tíðum ein, gegn harkalegum breytingum á lögum um útlendinga sem innleidd voru á síðasta kjörtímabili. Við höfum lagt áherslu á mannúð, skilvirkt og gott kerfi sem leyfir fólki að vinna og mynda tengsl meðan það bíður afgreiðslu sinna mála og sem vísar fólki ekki úr landi eða tekur af því stuðning meðan mál þeirra eru í vinnslu.
Einstaklingar innan flokksins komu m.a. að gerð laga um kynrænt sjálfræði og hafa lagt til breytingar á þeim lögum til að styðja betur við trans fólk, sbr. árangursríka tillögu þingmanna Pírata um að fella niður kostnað við nafna- og kynskrárbreytingar, frumvarp um ferðaöryggi kynsegin fólks og öflugt aðhald með innleiðingu laga um kynrænt sjálfræði eins og t.d. að reglugerðir um hollustuhætti taki tillit til kynhlutlausra salerna og búningsaðstöðu. Píratar hafa sömuleiðis átt í reglulegu samráði við hagsmunasamtök hinsegin fólks á borð við Samtökin ‘78 og Trans Ísland.
Mun framboðið standa vörð um áunnin réttindi hinsegin fólks á Íslandi, t.a.m. lög um kynrænt sjálfræði?
Já. Það er stefna Pírata að verja þær breytingar sem orðið hafa á réttarstöðu hinsegin fólks með lögum um kynrænt sjálfræði, en þar má enn gera betur. Píratar vilja tryggja að hinsegin mæður búi við sama lagalegt jafnrétti og gagnkynja pör í tengslum við tæknifrjóvgun, t.d. að þær þurfi ekki að skila aukalega inn staðfestingu á tæknifrjóvgun til Þjóðskrár. Uppfæra þarf ákvæði í stjórnarskrá um að öll séu jöfn fyrir lögum sem nái ekki aðeins til kynhneigðar, heldur líka kyntjáningar, kynvitundar og kyneinkenna. Tryggja þarf að blóðgjöf hinsegin karlmanna og trans fólks verði leyfð án takmarkana. Framfylgja verður lögum um kynrænt sjálfræði sem gerir ráð fyrir því að kynsegin fólk hafi greiðan aðgang að salernis- og búningsaðstöðu í samræmi við kynvitund í almannarýmum og starfsstöðvum íþróttastarfs, á baðstöðum, og í líkamsræktarstarfi. Sjúkratryggingar eiga að taka þátt í niðurgreiðslu á öllum læknisfræðilegum þáttum kynstaðfestandi ferlis, svo sem vegna hárrótartöku, andlitsaðgerða, brjóstauppbyggingar og talþjálfunar. Koma þarf á niðurgreiðslu á kostnaði við frystingu kynfrumna fyrir trans fólk. Við þetta má bæta að Píratar munu berjast gegn falsfréttum og áróðri, efla fræðslustarfsemi og tryggja að hinsegin fólk búi við sömu lífsgæði og annað fólk. Styrkja þarf löggjöf um hatursorðræðu og regluverk í kringum hatursglæpi.
Er hinsegin fólk sýnilegt á listum framboðsins?
Já. Mörg þeirra sem eru í framboði fyrir Pírata hafa verið öflugt baráttufólk fyrir réttindum hinsegis fólks og trans fólks í gegnum tíðina. Píratar hafa jafnframt haft áberandi og öfluga hinsegin fulltrúa á öllum stigum flokksstarfs og á það einnig við fyrir komandi kosningar.
Samfylkingin - Jafnaðarmannaflokkur Íslands
Svör við spurningum
Er framboðið tilbúið til að efla hagsmunasamtök hinsegin fólks og gera áframhaldandi þjónustu- og styrktarsamninga við þau?
Já, Samfylkingin telur nauðsynlegt að styðja við starfsemi Samtakanna ‘78 þannig að þau geti haldið út fjölbreyttu starfi fyrir þann fjölbreytta hóp fólks sem heyrir undir regnbogaregnhlífina auk aðstandenda þeirra. Samfylkingin telur æskilegt að Samtökunum 78 verði tryggir fjármunir í fjárlögum og þjónustusamningar verði gerðir til lengri tíma til að stuðla að markvissri uppbyggingu á sértækri þjónustu. Þá þarf að styðja sérstaklega við að hinsegin börn hafi aðgengi að félagslegum vettvangi, s.s. hinsegin félagsmiðstöð, og slíkt félagsstarf þarf að vera aðgengilegt á fleiri stöðum en í Reykjavík. Þá telur Samfylkingin brýnt að halda áfram vinnu um aukna hinseginfræðslu í skólum og meðal fagfólks til þess að vinna gegn fordómum og staðalímyndum í samfélaginu. Það má til dæmis gera með þjónustusamningum við þar til bær hagsmunasamtök.
Er framboðið viljugt til þess að bæta við breytum sem varða hinseginleika inn í stjórnarskrá Íslands?
Já, Samfylkingin er fylgjandi því að tryggja réttindi hinsegin fólks með skýrari hætti í stjórnarskrá, t.d. með því að bæta kynhneigð inn í upptalningu á mismunaþáttum inn í jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þá telur Samfylkingin að ákvæði sem kveður á um bann við margþættri mismunun geti tryggt hinsegin fólki sem tilheyra fleiri en einum jaðarsettum hópum, t.d. fatlað hinsegin fólk eða hinsegin fólk af erlendum uppruna, aukin réttindi.
Hvernig ætlar framboðið að vinna gegn fordómum og hatursorðræðu gagnvart minnihlutahópum?
Að mati Samfylkingarinnar er fræðsla besta forvörnin gegn fordómum. Líkt og fram kemur í svari við spurning 1 hér að ofan leggur Samfylkingin áherslu á áframhaldandi vinnu við aukna hinsegin fræðslu í skólum og í samfélaginu almennt til að vinna gegn staðalímyndum og fordómum. Ein af áherslum Samfylkingarinnar hefur verið stofnun Ofbeldisvarnarráðs sem hafi það hlutverk að vinna markvisst að forvörnum og fræðslu gegn ofbeldi, þar sem sérstaklega verði tekið utan um jaðarhópa á borð við hinsegin fólk. Þá þarf að tryggja með lögum að samtalsmeðferðir sem ætlað er að breyta hinsegin fólki (e. conversion therapy) verði ólöglegar hér á landi svo slíkt megi aldrei þrífast.
Hefur framboðið sett sér stefnu þegar kemur að því að efla hinsegin fólk í stjórnmálum?
Samfylkingin hefur ekki sett sér sérstaka stefnu varðandi þátttöku hinsegin fólks í stjórnmálum. Hins vegar kveða skuldbindandi reglur um aðferðir við val á framboðslista Samfylingarinnar á um að tryggja skuli að framboðslisti í heild endurspegli á sem bestan hátt fjölbreytni samfélagsins (t.d. með tilliti til aldurs, kyns og starfsstéttar). Í gegnum tíðina hefur fjöldi hinsegin fólks setið fyrir hönd Samfylkingarinnar í sveitastjórnum og á Alþingi.
Er framboðið með áherslu á eldra hinsegin fólk í málefnum þess hóps?
Samfylkingin leggur áherslu á að mikilvægt sé að átta sig á því að eldra fólk er ekki einsleitur hópur þegar þegar fjallað er um málefni þeirra, heldur fjölbreytilegur hópur með mismunandi óskir og þarfir. Í stefnulýsingu Samfylkingarinnar, sem samþykkt var á stofnfundi flokksins árið 2000, er lögð áhersla á jafnrétti í sinni víðustu mynd og rétt einstakra hópa innan hvers samfélags til þess að njóta verndar og öryggis fyrir tilstuðlan samfélagsins og til þess að njóta virðingar og sama réttar til áhrifa og aðrir. Jafnframt segir að jafnrétti feli í sér sömu réttarstöðu fyrir samkynhneigða og gagnkynhneigða. Stefna flokksins og aðgerðir í öllum málaflokkum byggja á stefnulýsingunni og grunngildum jafnaðarmanna.
Er áhersla á mannréttindi hinsegin fólks á heimsvísu hluti af utanríkisstefnu framboðsins?
Já, í stefnu flokksins segir að Ísland skuli taka sér skýra stöðu fyrir mannréttindum hinsegin fólks, tali fyrir réttindum þess í alþjóðastarfi og innan alþjóðastofnana. Fulltrúar Íslands skuli rísa upp gegn hvers kyns ofbeldi og mismunun gegn hinsegin fólki og fylki öðrum með sér þegar kerfisbundið er sótt er að réttindum hinsegin fólks. Mannréttindabarátta hinsegin fólks verði haldið hátt á lofti í íslenskri utanríkisstefnu. Þá skuli Ísland vera leiðandi á heimsvísu í málefnum hinsegin fólks.
Hver er stefna framboðsins í málefnum hinsegin umsækjenda um alþjóðlega vernd?
Í stefnu Samfylkingarinnar segir eftirfarandi um hinsegin flóttafólk: „Samfylkingin vill tryggja rétt alls fólks til þess að lifa með reisn án ótta við ofbeldi. Vinna þarf markvisst að forvörnum og fræðslu gegn ofbeldi og sú fræðsla þarf að ná til fólks á öllum aldri og til allra hópa, svo sem jaðarhópa á borð við hinsegin fólk. Styðja þarf við hinsegin fólk sem mætir margþættri mismunun vegna þess að það hefur margþætta jaðarsetningu, m.a. hinsegin flóttafólk og fatlað hinsegin fólk. Ísland taki sér skýra stöðu fyrir mannréttindum hinsegin fólks, tali fyrir réttindum þess í alþjóðastarfi og innan alþjóðastofnana. Fulltrúar Íslands rísi upp gegn hvers kyns ofbeldi og mismunun gegn hinsegin fólki og fylki öðrum með sér þegar kerfisbundið er sótt er að réttindum hinsegin fólks. Mannréttindabarátta hinsegin fólks verði haldið hátt á lofti í íslenskri utanríkisstefnu. Einnig eiga íslensk stjórnvöld að taka sérstaklega vel á móti hinsegin flóttafólki sem neyðist til að flýja sína heimahaga sökum kynhneigðar.“
Mun framboðið standa vörð um áunnin réttindi hinsegin fólks á Íslandi, t.a.m. lög um kynrænt sjálfræði?
Já það mun Samfylkingin gera enda hafa málefni hinsegin fólks verið ofarlega á stefnuskrá flokksins allt frá stofnun hans og hefur flokkurinn í gegnum tíðina stutt þau þingmál sem aukið hafa réttindi hinsegin fólks á Íslandi.
Hvað hefur framboðið gert í réttindabaráttu hinsegin fólks áður? Samfylkingin hefur frá stofnun flokksins staðið með og stutt réttindabaráttu hinsegin fólks. Hér eru nefnd nokkur mál sem þingmenn flokksins hafa lagt fram en rétt er að taka fram að ekki er um að ræða tæmandi talningu.
Árið 1992 lögðu Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (þáverandi þingkona Samtaka um kvennalista) og Össur Skarphéðsinsson (þáverandi þingmaður Alþýðuflokks) sem bæði gengdu síðar formennsku í Samfylkingunni fram þingsályktunartillögu ásamt þremur öðrum þingmönnum um afnám misréttis gagnvart samkynhneigðu fólki – sjá hér. Í samræmi við tillöguna var skipuð nefnd til þess að kanna stöðu samkynhneigðra á Íslandi. Nefndin lauk störfum árið 1994 með útgáfu skýrslu um málefni samkynhneigðra þar sem fram komu tillögur um úrbætur í málefnum samkynhneigðra hér á landi. Tillögur nefndarinnar um úrbætur voru þríþættar. Í fyrsta lagi lutu þær að fræðslu um samkynhneigð og hvernig mætti uppræta fordóma í þjóðfélaginu í garð samkynhneigðs fólks. Í öðru lagi fjalla þær um hvernig breyta mætti refsilögum til þess að vernda samkynhneigða gegn aðkasti og misrétti. Í þriðja og síðasta lagi fjölluðu þær um úrbætur til þess að veita samkynhneigðum í sambúð kost á því að njóta réttarstöðu sem er sambærileg við réttarstöðu hjóna, en þó með nokkrum undantekningum. Umrædd þingsályktunartillaga lagði þannig grunninn að því að veita samkynhneigðum á Íslandi þau réttindi sem þau búa við í dag en tillagan leiddi m.a. til lögfestingar á rétti samkynhneigðra til að stofna til staðfestrar samvistar.
Árið 2001 lagði Guðrún Ögmundsdóttir þingkona Samfylkingarinnar fram þingsályktunartillögu um mannréttindabrot gegn samkynhneigðum körlum í Egyptalandi – sjá hér og ári síðar þingsályktunartillögu um skipun nefndar til að kanna réttarstöðu samkynhneigðs fólks – sjá hér. Árið 2006 lagði Guðrún í tvígang fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um staðfesta samvist nr. 87/1996 þar sem lagt var til að prestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga er hafa vígsluheimild samkvæmt hjúskaparlögum verði heimilt að staðfesta samvist. Frumvarpið var samþykkt – sjá hér. Árið 2007 lagði Guðrún síðan fram fyrirspurn til forsætisráðherra um einstaklinga í kynáttunarvanda, sjá hér.
Jóhanna Sigurðardóttur fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar var fyrsta opinberlega samkynhneigða manneskjan í heiminum til að gegna embætti forsætisráðherra. Meðal fyrstu verka ríkisstjórnar Jóhönnu var breyting á hjónabandslöggjöfinni en í júní 2010 voru samþykkt ný hjúskaparlög sem fólu í sér að sömu lög giltu fyrir fólk, óháð kynhneigð.
Líkt og áður segir er ekki um að ræða tæmandi talningu á þingmálum sem þingmenn og konur Samfylkingarinnar hafa lagt fram í gegnum tíðina til að bæta réttindi hinsegin fólks. Þá hafa þingmenn flokksins stutt og verið meðflutningsmenn á fjölda mála sem lögð hafa verið fram af þingmönnum í öðrum flokkum sem ætlað hefur verið að auka réttindi hinsegin fólks, nýleg dæmi eru tillaga til þingsályktunar um skráningu foreldratengsla, frumvarp til laga sem kvað á um bann við bælingarmeðferðum og frumvarp um breytingu á ýmsum lögum til að bæta stöðu trans fólks.
Er hinsegin fólk sýnilegt á listum framboðsins?
Já, á listum Samfylkingarinnar er að finna fjölbreyttan hóp fólks, gagnkynhneigt sem og hinsegin sem valið var af uppstillingarnefndum kjördæmaráða Samfylkingarinnarsamkvæmt skuldbinandi reglum um aðferðir við val á framboðslista.
Hér getið þið síðan fundið áherslur Samfylkingarinnar í málefnum hinsegin fólks.
Sjálfstæðisflokkurinn
Svör við spurningum
Er framboðið tilbúið til að efla hagsmunasamtök hinsegin fólks og gera áframhaldandi þjónustu- og styrktarsamninga við þau?
Sjálfstæðisflokkurinn styður hagsmunasamtök hinsegin fólks og telur þau sinna mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Starfsemi hagsmunasamtaka hinsegin fólks leikur jafnframt lykilhlutverk á sviði fræðslu og stuðnings. Að því marki sem mögulegt er leitast Sjálfstæðisflokkurinn við að gera félagasamtökum sem starfa í þágu almannaheilla kleift að fjármagna starfsemi sína með fjárframlögum einstaklinga og fyrirtækja. Í því augnamiði innleiddi Sjálfstæðisflokkurinn m.a. heimild til skattafrádráttar vegna slíkra framlaga. Sjálfstæðisflokkurinn styður hins vegar að einkaaðilum sé, upp að ákveðnu marki, falið að veita opinbera þjónustu. Í því sambandi samrýmist það stefnu Sjálfstæðisflokksins að gera áframhaldandi þjónustu- og styrktarsamninga við hagsmunasamtök hinsegin fólks.
Er framboðið viljugt til þess að bæta við breytum sem varða hinseginleika inn í stjórnarskrá Íslands?
Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að mannréttindi allra séu virt og að stjórnarskráin endurspegli þau gildi sem þjóðin stendur fyrir, þar með talið jafnan rétt allra óháð kynhneigð eða kynvitund. Við munum skoða tillögur um breytingar á stjórnarskránni með opnum huga og í þverpólitísku samstarfi.
Hvernig ætlar framboðið að vinna gegn fordómum og hatursorðræðu gagnvart minnihlutahópum?
Fordómar og hatursorðræða eiga ekki að viðgangast í íslensku samfélagi og Sjálfstæðisflokkurinn er staðráðinn í að berjast gegn þeim, nú sem endranær. Flokkurinn telur að fræðsla sé lykilatriði og höfum við lagt áherslu á aukna fræðslu um hinsegin málefni innan menntakerfisins, auk þess viljum við tryggja að starfsfólk hins opinbera hafi greiðari aðgang að fræðslu um þessi málefni. Þá höfum við einnig lagt fram og stutt lagasetningu sem eflir vernd hinsegin fólks og annarra minnihlutahópa gegn hatursorðræðu enda sé háttsemin til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun.
Stefna Sjálfstæðisflokksins er að flokkurinn haldi áfram að vera í fararbroddi þeirra sem vilja tryggja mannréttindi og auka réttindi hinsegin fólks á Íslandi sem og að halda áfram að stuðla að því að Ísland sé fremst í flokki þjóða er við kemur réttindum hinsegin fólks.
Hefur framboðið sett sér stefnu þegar kemur að því að efla hinsegin fólk í stjórnmálum?
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á fjölbreytileika og jafnrétti í samfélaginu og styður virka aðkomu allra hópa að stjórnmálum, þar með talið hinsegin fólks. Í starfi flokksins er unnið að því að allir hafi jöfn tækifæri til þátttöku og framgangs, og markmið flokksins er að tryggja jafnrétti og stuðla að fjölbreytileika á öllum sviðum samfélagsins.
Er framboðið með áherslu á eldra hinsegin fólk í málefnum þess hóps?
Í stefnu Sjálfstæðisflokksins er lögð áhersla á að bæta stöðu og þjónustu fyrir eldra fólk almennt. Flokkurinn leggur áherslu á að einstaklingar geti notið góðs ævikvölds með aukinni þjónustu heima fyrir, betri heimaþjónustu og öflugu heilsugæslukerfi. Þessi stefna nær til allra eldri borgara, þar á meðal eldra hinsegin fólks, og á að stuðla að auknu öryggi og lífsgæðum. Þá er það einnig stefna flokksins að ríki og sveitarfélög tryggi starfsfólki sínu aðgengi að hinseginfræðslu, þá sérstaklega þeim sem koma að því að veita þjónustu til hinsegin fólks.
Er áhersla á mannréttindi hinsegin fólks á heimsvísu hluti af utanríkisstefnu framboðsins?
Ísland hefur undanfarin ár beitt sér fyrir réttindum hinsegin fólks með aðild að alþjóðlegum ríkjabandalögum á borð við Equal Rights Coalition og kjarnahóp ríkja Sameinuðu þjóðanna um hinsegin réttindi (UN LGBTI Core Group). Með þátttöku sinni hefur Ísland, undir forystu Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum, unnið að því að verja og efla réttindi hinsegin fólks einstaklinga í gegnum ályktanir, verkefni og fjárframlög sem styðja grasrótarsamtök og málefni hinsegin fólks í þróunarríkjum.
Ísland hefur einnig lagt sérstaka áherslu á mannréttindi hinsegin fólks á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins, og unnið með UNESCO og ÖSE (Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu) að réttindum hinsegin fólks með fjölþjóðlegum stuðningi. Með fjárhagslegum framlögum og stuðningi til verkefna á borð við Global Equality Fund og UN Free & Equal herferð Sameinuðu þjóðanna hefur Ísland komið að mörgum aðgerðum sem miða að því að berjast gegn mismunun og ofbeldi á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar, sem og að stuðla að afglæpavæðingu samkynja sambanda í löndum þar sem þau eru refsiverð.
Hver er stefna framboðsins í málefnum hinsegin umsækjenda um alþjóðlega vernd?
Sjálfstæðisflokkurinn vill að stjórnvöld setji sér skýra stefnu um hinsegin fólk í leit að alþjóðlegri vernd. Flokkurinn leggur almennt áherslu á að innflytjendamál séu unnin samkvæmt gildandi lögum og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Íslensk löggjöf stendur vörð um réttindi hinsegin fólks og veitir hinsegin einstaklingum vernd ef þeir eiga á hættu ofsóknir í heimalandi sínu vegna kynhneigðar eða kynvitundar.
Hvað hefur framboðið gert í réttindabaráttu hinsegin fólks áður?
„Fjölbreytni þrífst best í frjálsu samfélagi“ hefur verið leiðarstef Sjálfstæðisflokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið þátt í ýmsum aðgerðum sem hafa bætt réttindi hinsegin fólks á Íslandi:
1985: Breytingar voru gerðar á greinum í almennum hegningarlögum sem höfðu áður verið nýttar gegn samkynhneigðum karlmönnum
1992: Þingsályktunartillaga var samþykkt um að nefnd skyldi skipuð af forsætisráðherra sem skyldi vinna skýrslu á stöðu samkynhneigðra á Íslandi sem, í framhaldinu, myndi verða grunnurinn af nauðsynlegum lagalegum úrbótum í málaflokknum.
1996: Öll mismunun sem byggði á kyni eða kynhneigð var fjarlægð úr hegningarlögum.
1996: Staðfest samvist var leyfð. Samkynja pörum var leyft að ganga í staðfesta samvist. Lagabreytingin gerði Ísland að framsæknasta landi í norður Evrópu er kom að réttindum samkynhneigðra.
2000: Öll mismunun sem byggði á kynhneigð var gerð ólögleg.
2003: Samkynja foreldrum var gert kleift að ættleiða börn maka sinna.
2003: Þingsályktunartillaga samþykkt um stofnun nýrrar nefndar um málefni samkynhneigðra.
2014: Önnur þingsályktunartillaga samþykkt um stofnun nefndar um málefni hinsegin fólks sem innihélt hagsmunaaðila og fagaðila í málaflokknum.
2014: Öll mismunun gegn transfólki gerð ólögleg.
2014: Hanna Birna Kristjánsdóttir, dómsmálaráðherra leggur fram frumvarp um breytingar á almennum hegningarlögum sem gerir það refsivert að mismuna einstaklingum á grundvelli kynvitundar í atvinnurekstri
og þjónustustarfsemi. Einnig verður refsivert að breiða út ummæli eða tjá sig á annan hátt um hóp manna á grundvelli þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar.
2020: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra leggur fram frumvarp um breytingar á mannanafnalögum sem myndi afnema eins og unnt er takmarkanir sem eru á skráningu nafna.
2021: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra leggur fram frumvarp um kynrænt sjálfræði sem verður að lögum.
2021: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra leggur fram frumvarp um breytingar á almennum hegningarlögum sem myndi þyngja refsingar vegna hatursorðræðu, auk þess að færa í lög bann við mismunum sem megi rekja til þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar, kynvitundar eða annarra sambærilegra þátta.
Alþjóðlegt samstarf: Flokkurinn hefur tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi sem miðar að því að efla mannréttindi og berjast gegn mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar.
Fulltrúar flokksins, þ.á.m. ungliðahreyfingin, hafa sýnt stuðning við hinsegin samfélagið í verki með þátttöku í viðburðum eins og Hinsegin dögum.
Það er þó mikilvægt að taka fram að réttindabarátta hinsegin fólks á Íslandi hefur verið þverpólitískt verkefni, þar sem margir stjórnmálaflokkar og samfélagsöfl hafa lagt sitt af mörkum til að ná fram þeim árangri sem hefur orðið. Mikilvægt er að svo verði áfram.
Mun framboðið standa vörð um áunnin réttindi hinsegin fólks á Íslandi, t.a.m. lög um kynrænt sjálfræði?
Í stefnu Sjálfstæðisflokksins frá síðasta landsfundi segir: „Sjálfstæðisflokkurinn vill áfram vera í fararbroddi þeirra sem vilja tryggja mannréttindi og auka réttindi hinsegin fólks. Þarft er að stíga áfram skref sem tryggja jöfn réttindi og jafna stöðu þeirra. Stjórnvöld þurfa að móta sér heildstæða stefnu í málefnum hinsegin fólks, í samstarfi við samtök þeirra, þar sem sérstaklega verði skoðað að styrkja stöðu hinsegin fjölskyldna, einkum með tilliti til ættleiðinga, skráningar og sjálfkrafa viðurkenningar samkynja foreldra. Ísland er, og á ávallt að vera, í fararbroddi þegar kemur að réttindum hinsegin fólks. Fólki á að vera frjálst að skilgreina kyn sitt að vild.“
Þegar lög um kynrænt sjálfræði voru samþykkt árið 2019, var umtalsverður stuðningur meðal þingmanna flokksins við málið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki í hyggju að breyta lögunum eða veikja þau. Þvert á móti hefur flokkurinn ítrekað mikilvægi þess að standa vörð um réttindi hinsegin fólks og tryggja að allir njóti sömu réttinda og tækifæra í samfélaginu.
Er hinsegin fólk sýnilegt á listum framboðsins?
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á fjölbreytileika á framboðslistum sínum, þar á meðal að tryggja þátttöku hinsegin fólks í stjórnmálum og á vettvangi flokksins. Flokkurinn vinnur að því að hafa breiðan hóp einstaklinga með mismunandi bakgrunn og reynslu til að endurspegla íslenskt samfélag.
Sósíalistaflokkur Íslands
Svör við spurningum
Er framboðið tilbúið til að efla hagsmunasamtök hinsegin fólks og gera áframhaldandi þjónustu- og styrktarsamninga við þau?
Já. Mannréttindi og stuðningur við viðkvæma hópa samfélagsins eru okkur mikilvæg og í stefnu okkar um jafnréttismál kemur fram að flokkurinn ætli að vinna markvisst að fullum mannréttindum hinsegin fólks. Í sömu stefnu okkar um dómsmál segir einnig: „Til að tryggja að ekki sé troðið á mannréttindum fólks í hverslags aðgerðum og reglum af hendi hins opinbera skal taka upp samvinnu við alla minnihluta- og eða notendahópa og miða alla áætlanagerð ríkis og sveitarfélaga út frá stéttavinkli og fjölbreytileika en ekki einungis út frá kynjum. Þar er mikilvægt að skoða hvernig þættir eins og efnahagsleg staða, uppruni, hinseginleiki eða fötlun móta veruleika fólks. Með samvinnu er átt við að þeir einstaklingar sem hafa reynslu af því sem um er að ræða fái að koma sameiginlega að ráðagerð með valdhöfum.“ Frjáls félagasamtök gegna mikilvægu starfi í samfélaginu og eru hluti af íslensku velferðarkerfi, enda sækja þau flest fjárstuðnings til ríkis og sveitarfélaga. Okkur finnst mjög mikilvægt að slíkur stuðningur tryggi starfsemi félaganna og fjármagni þau að fullu, enda sé hið opinbera annað hvort ekki að veita viðkomandi þjónustu, eða veitir hana aðeins að hluta eða annar ekki eftirspurn. Frjáls félagasamtök eru einnig mikilvæg vegna fjarlægðar þeirra við „kerfið“ sem getur skapað öryggi fyrir fólk sem ber vantraust til kerfisins. Einnig búa félagasamtök yfir gríðarlegri fag- og reynsluþekkingu sem er mjög mikilvæg í úrlausnum erfiðra og viðkvæmra mála. Þá eru félagasamtök mikilvægur tengiliður fólks við opinberar og aðrar stofnanir ásamt því að vera öflugur málsvari síns hagsmunahóps. Einnig skapast gríðarleg þekking innan slíkra samtaka, þekking sem nýtist í opinberri stefnumótun, í rannsóknarvinnu háskólasamfélagsins sem og í forvarna- og fræðslustarfi. Samtökin 78 eru þar engin undantekning og við vitum hversu mikilvægt það starf sem þar er unnið er fyrir hinsegin samfélagið á Íslandi, hvort sem litið er til hinsegin einstaklinga sjálfra eða fjölskyldna þeirra. Að sjálfsögðu myndum við vilja tryggja samtökunum fulla fjármögnun. Í stefnu okkar um jafnréttismál segir að verja skuli þau réttindi hinsegin fólks sem hafi áunnist og unnið að fullu jafnrétti þeim til handa í samræmi við regnbogakort ILGA Europe, Evrópsk regnhlífasamtök hinsegin fólks. Kyn skulu ekki sjálfkrafa álitin aðeins tvö heldur geti fólk verið skráð kynsegin, notað kvár í stað konu/manns og bur sem endingu á kenninafni sbr. Jónsbur. Þá megi samkynhneigðir karlar gefa blóð eins og aðrir og samkynhneigðum foreldrum gert jafn hátt undir höfði þegar kemur að skráningu og forræði barna sinna og öðrum foreldrum. Virða skal lög um kynrænt sjálfræði og skal mannanafnanefnd lögð niður.
Er framboðið viljugt til þess að bæta við breytum sem varða hinseginleika inn í stjórnarskrá Íslands?
Já, mannréttindi ná yfir hinsegin fólk og nauðsynlegt að réttindi þeirra séu tryggð í Stjórnarskrá Íslands. Til dæmis þarf að breyta 65. grein þar sem ekki er minnst á kynhneigð eða kynvitund og einungis er talað um konur og karla. Tryggja þarf full réttindi hinsegin, trans og intersex fólks.
Hvernig ætlar framboðið að vinna gegn fordómum og hatursorðræðu gagnvart minnihlutahópum?
Í stefnu Sósíalista um Dómsmál segir að flokkurinn skuli vinna gegn hvers kyns ofsóknum, hatursorðræðu og heimilisofbeldi, ofbeldi gegn fólki af ákveðnu kyni, uppruna, fötluðu fólki og hinsegin fólki. Þá má finna slíkt víðar í stefnum okkar en einnig að bæta aðgengi að upplýsingum og koma í veg fyrir upplýsingaóreiðu til að minnka líkurnar á skautun og umræðu sem dregur jaðarhópa í dilka. Þá höfum við lagt fram tilboð um ofbeldis-eftirlit sem viðbragð við þeim faraldri sem kynbundið ofbeldi er. Þar er m.a. stefnt að því að efla alla fræðslu um kynjafræði, kynferðisofbeldi og annað ofbeldi í samfélaginu og bæta bæði viðbrögð opinberra aðila og dómskerfisins við slíku. Fræðsla um hinseginleikann á að vera eðlilegur hluti fræðslu barna og efla á jafningjafræðslu. Hefur framboðið sett sér stefnu þegar kemur að því að efla hinsegin fólk í stjórnmálum? Sósíalistaflokkurinn er grasrótarflokkur sem leggur ríka áherslu á lýðræðisleg vinnubrögð og eru stefnur flokksins unnar af slembivöldum félögum hans. Þegar eru komnar fram stefnur í 20 málaflokkum og 12 sérstök kosningatilboð. Hinsegin mál eru ávörpuð víða enda mikið af hinsegin fólki og fjölskyldum í kjarnastarfi innan flokksins. Innan flokksins starfa ýmsir hópar sjálfstætt en hóparnir móta sín eigin „manifestó“ og gefa út yfirlýsingar við ýmis tilefni ef þeim þykir ástæða til. Hinsegin fólk hefur verið starfandi innan Ungra Sósíalista og Sósíalískra femínista, en þeir síðarnefndu hafa þegar sent frá sér manifestó sem ítrekar réttindabaráttu hinsegin og kynsegin fólks sem og hafa þeir sérstaklega sent frá sér stuðningsyfirlýsingu við trans konur og annað trans fólk og félagar flokksins mætt í útvarpsviðtöl vegna þessa. Okkur þykir mjög mikilvægt að virkja hinsegin sósíalista innan flokksins sem og að tryggja hinseginleika á framboðslistum til sveitarstjórna og alþingiskosninga.
Hefur framboðið sett sér stefnu þegar kemur að því að efla hinsegin fólk í stjórnmálum?
Sósíalistaflokkurinn er grasrótarflokkur sem leggur ríka áherslu á lýðræðisleg vinnubrögð og eru stefnur flokksins unnar af slembivöldum félögum hans. Þegar eru komnar fram stefnur í 20 málaflokkum og 12 sérstök kosningatilboð. Hinsegin mál eru ávörpuð víða enda mikið af hinsegin fólki og fjölskyldum í kjarnastarfi innan flokksins. Innan flokksins starfa ýmsir hópar sjálfstætt en hóparnir móta sín eigin „manifestó“ og gefa út yfirlýsingar við ýmis tilefni ef þeim þykir ástæða til. Hinsegin fólk hefur verið starfandi innan Ungra Sósíalista og Sósíalískra femínista, en þeir síðarnefndu hafa þegar sent frá sér manifestó sem ítrekar réttindabaráttu hinsegin og kynsegin fólks sem og hafa þeir sérstaklega sent frá sér stuðningsyfirlýsingu við trans konur og annað trans fólk og félagar flokksins mætt í útvarpsviðtöl vegna þessa. Okkur þykir mjög mikilvægt að virkja hinsegin sósíalista innan flokksins sem og að tryggja hinseginleika á framboðslistum til sveitarstjórna og alþingiskosninga.
Er framboðið með áherslu á eldra hinsegin fólk í málefnum þess hóps?
Réttindi hinsegin fólks eiga jafnt við þau sem eru eldri sem þau yngri þó það þurfi að nálgast hvorn hóp fyrir sig með mismunandi aðferðum. Það er í stefnunni okkar að stemma skuli stigu við einmanaleika eldra fólks og þá þarf að sjálfsögðu að taka hinseginleika með inn í framkvæmdina.
Er áhersla á mannréttindi hinsegin fólks á heimsvísu hluti af utanríkisstefnu framboðsins?
Já, í utanríkisstefnu flokksins segir: „Stefna Sósíalistaflokks Íslands er … Að Ísland sýni samstöðu með hinum smáu og undirokuðu sem þrá frelsi og sjálfstæði hvar sem þá er að finna í heiminum. Að staðið sé með lýðræði og mannréttindum hvar sem er og baráttunni gegn auðvaldi og kúgun á alþjóðavettvangi. Að styðja alla jafnréttisbaráttu á alþjóðavísu á grundvelli stétta, uppruna, ríkisfangs, trúar, tungumálakunnáttu, menntunar, kyns, kynhneigðar, kyntjáningar, kynvitundar, húðlitar, getu, líkamlegs eða andlegs atgervis og holdafars.
Hver er stefna framboðsins í málefnum hinsegin umsækjenda um alþjóðlega vernd?
Stefna flokksins er að allir fái efnislega meðferð og frestun réttaráhrifa á meðan beðið er úrskurðar. Mannréttindi eru fyrir okkur öll, óháð því hvort við erum hinsegin eða ekki. Sérstaklega þarf að huga að viðkvæmum hópum (börnum og barnafólki, mansalsfórnarlömbum, fötluðu fólki og hinsegin fólki. Í utanríkisstefnu flokksins segir: Að útlendingalög landsins verði endurskoðuð frá grunni með mannúð og mannréttindi í öndvegi. Ísland er ríkt samfélag og skal taka ríkulegan þátt í þróunarsamvinnuverkefnum, huga sérstaklega að félagslegri uppbyggingu, réttindabaráttu hinna kúguðu og stuðning við hina fátækustu samhliða stuðningi varðandi tækni og nýsköpun. Markmið Íslands í utanríkismálum á að snúast um að gera heiminn allan að betri stað. Sífellt eru fleiri dæmi þess að lýðræði, lífskjör og völd almennings molni niður vegna ágangs kapítalismans, borgaraleg réttindi víkja fyrir valdi hins svokallaða markaðar og bitnar það harðast á veikstæðustu hópunum sem eru háðust lýðræðislegri uppbyggingu samfélagsins og virkri hagsmunabaráttu almennings; fátækara fólki og jaðarhópum, konum, hinsegin fólki og öðrum minnihlutahópum. Í dag stendur heimsbyggðin frammi fyrir mestu fólksflutningum sögunnar og flóttamenn hafa ekki verið fleiri síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Þetta er afleiðing styrjalda og valdabaráttu, efnahagslegs vanda veikstæðra þjóða í alþjóðavæddum kapítalisma og loftslagsbreytingar. Gera þarf ráð fyrir því að flóttafólki muni fjölga verulega á næstu árum, ekki síst vegna loftslagsbreytinga. Allar þjóðir heimsins þurfa að axla ábyrgð á þessum vanda og til að mæta honum þurfum við að endurskoða útlendingalögin sem við störfum eftir í dag. Innflytjendum mun fjölga á næstu ár og áratugi og styrkja íslenskt samfélag, rétta við óhagstæða aldurssamsetningu og tryggja okkur aukið afl til að standa undir velferð og réttlæti innan samfélagsins. Hagsmunir okkar fara því saman með fólkinu sem hrakið hefur verið á flótta og leitar sér að nýju heimili þar sem það getur tryggt sér og sínum öryggi, frið og þokkalega afkomu. Taka verður á móti flóttafólki með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi og hafa það í huga að við erum öll íbúar á sömu jörð.
Hvað hefur framboðið gert í réttindabaráttu hinsegin fólks áður? (ATH. þau sem hafa áður verið með manneskju á þingi svara hér)
Flokkurinn hefur ekki verið með manneskju á þingi en margir frambjóðendur hafa starfað með samtökum eða í réttindabaráttu hinsegin fólks. Mun framboðið standa vörð um áunnin réttindi hinsegin fólks á Íslandi, t.a.m. lög um kynrænt sjálfræði? Já enda segir í stefnu flokksins um jafnréttismál: Í stefnu okkar um jafnréttismál segir að verja skuli þau réttindi hinsegin fólks sem hafi áunnist og unnið að fullu jafnrétti þeim til handa í samræmi við regnbogakort ILGA Europe, Evrópsk regnhlífasamtök hinsegin fólks. Kyn skulu ekki sjálfkrafa álitin aðeins tvö heldur geti fólk verið skráð kynsegin, notað kvár í stað konu/manns og bur sem endingu á kenninafni sbr. Jónsbur. Þá megi samkynhneigðir karlar gefa blóð eins og aðrir og samkynhneigðum foreldrum gert jafn hátt undir höfði þegar kemur að skráningu og forræði barna sinna og öðrum foreldrum. Virða skal lög um kynrænt sjálfræði og skal mannanafnanefnd lögð niður. Í stefnu flokksins um dómsmál segir einnig að borgaralegra réttinda skuli ávallt vera gætt og þau útfærð í takt við samfélagslega þróun. Þannig þarf kerfið t.d. að gera ráð fyrir flóknara fjölskyldumunstri vegna kynja, kynhneigðar og -kyngervis. Við þurfum að passa upp á þau réttindi sem hafa náðst og berjast gegn bakslagi sem hefur orðið með rísandi hægri sveiflu í stjórnmálum. Við erum öll jöfn og við eigum öll jafnan rétt til að njóta mannréttinda án mismununar.
Mun framboðið standa vörð um áunnin réttindi hinsegin fólks á Íslandi, t.a.m. lög um kynrænt sjálfræði?
Já enda segir í stefnu flokksins um jafnréttismál: Í stefnu okkar um jafnréttismál segir að verja skuli þau réttindi hinsegin fólks sem hafi áunnist og unnið að fullu jafnrétti þeim til handa í samræmi við regnbogakort ILGA Europe, Evrópsk regnhlífasamtök hinsegin fólks. Kyn skulu ekki sjálfkrafa álitin aðeins tvö heldur geti fólk verið skráð hán eða milli kynja. Þá megi samkynhneigðir karlar gefa blóð eins og aðrir og samkynhneigðum foreldrum gert jafn hátt undir höfði þegar kemur að skráningu og forræði barna sinna og öðrum foreldrum. Virða skal lög um kynrænt sjálfræði og skal mannanafnanefnd lögð niður.
Í stefnu flokksins um dómsmál segir einnig að borgaralegra réttinda skuli ávallt vera gætt og þau útfærð í takt við samfélagslega þróun. Þannig þarf kerfið t.d. að gera ráð fyrir flóknara fjölskyldumunstri vegna kynja, kynhneigðar og -kyngervis. Við þurfum að passa upp á þau réttindi sem hafa náðst og berjast gegn bakslagi sem hefur orðið með rísandi hægri sveiflu í stjórnmálum. Við erum öll jöfn og við eigum öll
jafnan rétt til að njóta mannréttinda án mismununar.
Er hinsegin fólk sýnilegt á listum framboðsins?
Já hinsegin fólk er sýnilegt á framboðslistum flokksins og má finna í dag allt frá oddvitum og niður listana en einnig eru margir sem eiga hinsegin fjölskyldur (eru börn eða foreldrar hinsegin og eða trans fólks).
Viðreisn
Svör við spurningum
Er framboðið tilbúið til að efla hagsmunasamtök hinsegin fólks og gera áframhaldandi þjónustu- og styrktarsamninga við þau?
Já. Samtökin ’78 hafa gegnt veigamiklu hlutverki í að efla vitund almennings um stöðu hinsegin fólks á Íslandi og á að hafa burði til að halda því mikilvæga starfi áfram.
Er framboðið viljugt til þess að bæta við breytum sem varða hinseginleika inn í stjórnarskrá Íslands?
Við höfnum allri mismunun á fólki á grundvelli jaðarsetningar og tökum skýra afstöðu gegn hvers kyns hatri gagnvart jaðarsettum hópum samfélagsins. Tryggja þarf réttindi hinsegin fólks í stjórnarskrá og útvíkka jafnréttislöggjöf á vinnumarkaði til að hún nái einnig til hinsegin fólks.
Hvernig ætlar framboðið að vinna gegn fordómum og hatursorðræðu gagnvart minnihlutahópum?
Viðreisn vill tryggja að hinsegin fólk njóti frelsis, réttinda og tækifæra í samfélaginu á öllum sviðum. Það er mikilvægt að auka sýnileika hinsegin fólks, í stjórnmálum, menningu og í fjölmiðlum til að auka skilning í samfélaginu. Baráttunni fyrir jöfnum réttindum hinsegin fólks er ekki lokið.
Benda má á nýlega breytingu á hegningarlögum, að frumkvæði Viðreisnar, þar sem það er gert refsivert að beita nauðung eða blekkingum til að fá fólk til að undirgangast ógagnreynda meðferð í þeim tilgangi að bæla eða breyta kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu þess.
Meðferðir við hinseginleika eiga ekki að líðast, né sjúkdómavæðing hinsegin fólks. Endurskoða þarf lög um hatursglæpi og hatursáróður til að tryggja stöðu og réttindi hinsegin fólks og annarra jaðarsettra hópa
Þess má geta að þrír af sex oddvitum Viðreisnar eru hinsegin. Við leggjum okkur þannig fram um að tryggja aukinn sýnileika hinsegin fólks á Alþingi.
Fræðsla og miðlun upplýsinga um málefni hinsegin fólks er afar mikilvæg til að sporna gegn hatursorðræðu og fordómum gagnvart minnihlutahópum og þar gegna Samtökin ´78 lykilhlutverki.
Hefur framboðið sett sér stefnu þegar kemur að því að efla hinsegin fólk í stjórnmálum?
Viðreisn vill tryggja að hinsegin fólk njóti frelsis, réttinda og tækifæra í samfélaginu á öllum sviðum. Það er mikilvægt að auka sýnileika hinsegin fólks, í stjórnmálum, menningu og í fjölmiðlum til að auka skilning í samfélaginu. Baráttunni fyrir jöfnum réttindum hinsegin fólks er ekki lokið.
Viðreisn hefur ekki aðeins mótað sér stefnu í þessum málefnum heldur hrint henni í framkvæmd innan flokksins eins og skipan framboðslista. Þá má geta þess að innan flokksins starfar sérstakt félag hinsegin fólks, ReisVið.
Er framboðið með áherslu á eldra hinsegin fólk í málefnum þess hóps?
Viðreisn hefur ekki sett fram sérstaka stefnu um eldra hinsegin fólks en almenn stefna Viðreisnar í þeim málaflokki á við alla aldurshópa. Reisvið – félag hinsegin fólks í Viðreisn hélt opinn fund um stöðu eldra hinsegin fólks fyrir einhverjum misserum sem var mjög upplýsandi. Að auki hefur Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar talað ítrekað fyrir því á Alþingi að starfsáætlanir um málefni eldri borgara þurfi að innihalda málefni hinsegin fólks. Einnig að auka þurfi fagþekkingu á málefni hinsegin fólks á öldrunar- og hjúkrunarheimilum landsins.
Er áhersla á mannréttindi hinsegin fólks á heimsvísu hluti af utanríkisstefnu framboðsins?
Já. Því miður er enn langt í land að réttindum hinsegin fólks á heimsvísu verði náð. Við leggjum mikla áherslu á mannréttindi hinsegin fólks á heimsvísu. Ísland á að miðla sinni reynslu og þekkingu sem ein af brautryðjendaþjóðum í málefnum hinsegin fólks. Með það fyrir augum að þrýsta á framfarir í réttindum hinsegin fólks um allan heim.
Hver er stefna framboðsins í málefnum hinsegin umsækjenda um alþjóðlega vernd?
Viðreisn vill tryggja að hinsegin fólk njóti frelsis, réttinda og tækifæra í samfélaginu á öllum sviðum. Viðreisn hafnar allri mismunun á fólki og telur mikilvægt að hinsegin fólk njóti réttinda sinna til jafns við aðra og tekið sé sérstakt tillit til jaðarsetningar hinsegin fólks í þeim löndum sem það hefur flúið frá.
Hvað hefur framboðið gert í réttindabaráttu hinsegin fólks áður? (ATH. þau sem hafa áður verið með manneskju á þingi svara hér).
Viðreisn hefur lagt mikla áherslu á jafna stöðu og jöfn réttindi allra einstaklinga óháð kyni, aldri, búsetu, líkamlegu atgervi, fötlun, trúarbrögðum, skoðunum, uppruna, kynþætti, litarhætti, kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu og stöðu að öðru leyti. Uppræta þarf rótgróna fordóma í samfélaginu og huga sérstaklega að stöðu þeirra sem höllustum fæti standa.
Benda má á nýlega breytingu á hegningarlögum, að frumkvæði Viðreisnar, þar sem það er gert refsivert að beita nauðung eða blekkingum til að fá fólk til að undirgangast ógagnreynda meðferð í þeim tilgangi að bæla eða breyta kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu þess.
Viðreisn studdi lög um kynrænt sjálfstæði og barðist fyrir því að auka því fylgis, bæði innan þings sem utan.
Þá hafa þingmenn Viðreisnar tekið þátt, í hlutverki sínu sem þingmenn, á margvíslegum ráðstefnum um málefni hinsegin fólks og talað fyrir auknum réttindum þess, sýnileika og gegn fordómum.
Mun framboðið standa vörð um áunnin réttindi hinsegin fólks á Íslandi, t.a.m. lög um kynrænt sjálfræði?
Já það mun Viðreisn gera enda studdi flokkurinn það mál með ráðum og dáð á alþingi.
Er hinsegin fólk sýnilegt á listum framboðsins?
Já það er mjög sýnilegt. Þrjú af oddvitum Viðreisnar eru hinsegin og mörg önnur neðar á listum í öllum kjördæmum.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð
Svör við spurningum
Er framboðið tilbúið til að efla hagsmunasamtök hinsegin fólks og gera áframhaldandi þjónustu- og styrktarsamninga við þau?
VG hefur ætíð lagt mikið upp úr mikilvægi frjálsra félagasamtaka. Störf félagasamtaka mynda verðmætan félagsauð fyrir samfélagið, fólk með sambærileg lífsgildi og áhugamál. Mörg stærstu framfaraskref samfélagsins eru tilkomin vegna félagasamtaka sem hafa barist dag og nótt fyrir sínum málefnum.
Í ríkisstjórnartíð Vinstri grænna hafa fastir rekstrarstyrkir til félagasamtaka sem vinna fyrir hinsegin fólk margfaldast, eða úr 12 milljónum í rúmlega 90 milljónir. Vinstri græn vita að mannréttindabarátta er raunveruleg vinna og sú vinna verður ekki bara unnin í sjálfboðavinnu.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, alþingismaður og fyrrverandi félags-og vinnumarkaðsráðherra, breytti fyrirkomulagi styrkja til félagasamtaka í ráðherratíð sinni þannig að í stað eins árs styrkja þá geta nú félagasamtök sótt um allt að þriggja ára rekstrarstyrk auk þess að geta sótt um styrki til sérstakra verkefna. Nú síðast í janúar veitti Guðmundur Ingi Samtökunum ’78 styrk að upphæð 20 milljónum króna. Styrkurinn var veittur til að sinna ráðgjöf fyrir hinsegin fólk, aðstandendur þess og þau sem eru ekki viss um eigin hinseginleika. Honum var meðal annars varið í að veita einstaklingsráðgjöf, bjóða upp á stuðningshópa, virknihópa og sinna sértækum stuðningi við flóttafólk sem og eldra fólk. Markmiðið er að styðja einstaklinginn, veita aðstoð og vera til staðar. Í janúar 2022 veitti Guðmundur Ingi samtökunum styrk að upphæð 10 milljónir króna í þeim tilgangi að efla stuðning samtakanna við hinsegin eldra fólk og hinsegin fólk sem leitar eftir alþjóðlegri vernd.
Gríðarleg mikilvæg skref hafa verið stigin á undanförnum árum í réttindabaráttu hinsegin fólks, en því miður hefur orðið bakslag í viðhorfum á allra síðustu misserum sem afar brýnt er að vinna gegn. Mikilvægt er að styðja við þau sem þurfa aðstoð vegna hinseginleika og stuðla að þátttöku þeirra í samfélaginu.
Við Vinstri græn munum að sjálfsögðu halda áfram að styðja við félagasamtök, eins og Samtökin ’78. Félagasamtök eins og Samtökin ’78 eru gríðarlega mikilvæg, ekki aðeins til að styðja hinsegin samfélagið heldur líka til að vera kröftugt og gagnrýnið aðhald á stjórnvöld. Í stefnu okkar segir: “Hagsmunasamtök hinsegin fólks á Íslandi gegna lykilhlutverki í réttindabaráttu hinsegin samfélagsins. Innan þeirra vébanda eru sérfræðingar í málefnum hinsegin fólks og nauðsynlegt er að leitað sé til þeirra við alla stefnumótun.Tryggja þarf virkt samtal, þátttöku og aðkomu hagsmunasamtaka í opinberri stefnumótun um hinsegin mál og framkvæmd hennar með stuðningi við rekstur og fræðslustarf.”
Samtökin 78 hafa leitt mannréttindabaráttu hinsegin fólks síðustu áratugi, lyft grettistaki og náð stórkostlegum árangri í starfsemi sinni. Ráðgjafaþjónusta Samtakanna við hinsegin fólk og aðstandendur þeirra er ómetanleg. Takk Samtökin ’78 fyrir að standa vörð um mannréttindi okkar og styðja við hinsegin fólk beint og milliliðalaust.
Þá viljum við í VG tryggja aðkomu félagasamtaka við ákvarðanatöku, til dæmis í gegnum nýja Mannréttindastofnun.
Er framboðið viljugt til þess að bæta við breytum sem varða hinseginleika inn í stjórnarskrá Íslands?
Já.
Hvernig ætlar framboðið að vinna gegn fordómum og hatursorðræðu gagnvart minnihlutahópum?
Við í VG teljum skýrt að setja þurfi skýran lagaramma um hatursorðræðu gegn hinsegin fólki og öðrum minnihlutahópum. Hvers kyns hatursorðræða og hatursglæpir í garð hinsegin fólks eiga aldrei að líðast. Viðbragðsaðilar þurfa að geta spornað gegn og brugðist við slíku á grundvelli skýrra laga og viðbragðsáætlana.
Árið 2022 skrifuðu Katrín Jakobsdóttir, þá forsætisráðherra, og Ásmundur Einar Daða mennta-og barnamálaráðherra, undir starfssamning við Samtökin ’78 um að styrkja þau og átak vegna hinsegin barna og ungmenna um níu milljónir króna í ljósi þeirrar hatursorðræðu sem hinsegin ungmenni höfðu orðið fyrir. Þá skipaði Katrín starfshóp til að bregðast við vaxandi hatursorðræðu og lagði í kjölfarið fram þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu 2023-2026. Því miður var tillagan ekki samþykkt í þinginu, en unnið hefur verið að mörgum tillagnanna í ráðuneytinu. Sérfræðingar hafa síðar bent á að það voru mistök að fella tillöguna.
Guðmundur Ingi fyrrv. Félags- og vinnumarkaðsráðherra hóf undirbúning að aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu þegar jafnréttis og mannréttindamál færðust í ráðuneytið í september sl. Sú vinna getur nýst sem undirbúningur fyrir nýja áætlun.
Hefur framboðið sett sér stefnu þegar kemur að því að efla hinsegin fólk í stjórnmálum?
Vinstri græn hafa ekki sett sérstaka stefnu um þetta tiltekna mál en grunngildi Vinstri grænna eru þau að öll eiga að hafa tækifæri til að móta samfélag sitt óháð mismununarbreytum eða stöðu að öðru leyti. Svigrúm til þátttöku í lýðræðislegum verkefnum ásamt aðgengi að traustum og gagnreyndum upplýsingum, staðreyndum og samhengi þeirra, er hverri manneskju mikilvægt. Sérstaklega þarf að huga að valdeflingu minnihluta- og jaðarhópa.
Hátt hlutfall hinsegin kjörinna fulltrúa Vinstri grænna ber þess merki að innan hreyfingarinnar getur allt hinsegin fólk boðið sig fram í stjórnir eða í prófkjör, og verið opin og stolt af því sem þau eru. Vinstri græn virða sjálfsákvörðunarrétt fólks og hafa meðal annars lagt sig fram um að nota kynhlutlaust tungumál í sínum stefnumálum og auglýsingum. Vinstri græn vita að fjölbreytni kynvitundar og kyntjáningar er mikil.
Málefni hinsegin fólks skulu ávallt höfð með í þeim samfélagsbreytingum sem hreyfingin vinnur að enda verður jöfnuði ekki náð fyrr en hinsegin fólki verða tryggð aukin tækifæri og sjálfsögð réttindi.
Er framboðið með áherslu á eldra hinsegin fólk í málefnum þess hóps?
Hinsegin fólk er breiðari og fjölbreyttari hópur en nokkru sinni fyrr, á öllum aldri, og hefur þörf fyrir þjónustu, ráðgjöf og fræðslu aukist samhliða því. Eldra hinsegin fólk er stækkandi hópur sem kallað hefur á aukna fræðslu og ráðgjöf bæði til einstaklinganna sjálfra og þeirra sem vinna með og/eða þjónusta aldrað fólk. Samtökin ’78 hafa leitað leiða til að þjónusta betur hinsegin eldra fólk með það að markmiði að sporna við félagslegri einangrun hópsins. En sem félags-og vinnumarkaðsráðherra styrkti Guðmundur Ingi Guðbrandsson Samtökin ’78 10 milljón króna styrk meðal annars til að hlúa vel að eldra hinsegin fólki. Styrkurinn gerði samtökunum kleift að bjóða upp á heimsóknavini fyrir eldra hinsegin fólk og til framleiðslu á sérstæku fræðsluefni með það að markmiði að tryggja viðeigandi fræðslu, þar með talið til einstaklinga á dvalar-og hjúkrunarheimilum og fyrir starfsfólk sem sinnir eldra hinsegin fólki.
Við munum halda áfram góðu samtali við Samtökin ’78 sem með sinni sérfræðiþekkingu og fagmennsku og reynslu getur bent stjórnvöldum á hvaða hóp þarf sérstaklega að halda utan um hverju sinni og munum við leggja því verkefni lið eins og við mögulega getum á sama tíma og við munum að eigin frumkvæði leggja okkar að mörkum þar sem þörfin er mest hverju sinni.
Er áhersla á mannréttindi hinsegin fólks á heimsvísu hluti af utanríkisstefnu framboðsins?
Já, í stefnunni segir að: “Ísland á að koma fram af dirfsku á alþjóðavettvangi í baráttu fyrir kynjajafnrétti, kvenfrelsi og réttindum hinsegin fólks í heiminum. Mikilvægt er að hamla uppgangi öfgaafla sem vinna m.a. að afnámi mannréttinda og afmennskun.”
Staða hinsegin fólks er til að mynda bágborin í fjölmörgum Evrópulöndum, eins og Regnbogakortið sýnir glögglega. Íslensk stjórnvöld hafa lagt sérstaka áherslu á að Ísland tali hátt og skýrt fyrir réttindum hinsegin fólks bæði í tvíhliða samskiptum við önnur ríki, í gegnum ríkjabandalög sem Ísland er aðili að og á vettvangi alþjóðastofnana. Mikilvægt er að Ísland haldi því mannréttindastarfi áfram af krafti og eldmóð.
Á alþjóðavettvangi er í aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks, sem VG lagði fyrir þingið og fékk samþykkt, lögð áhersla á að Ísland standi hér eftir sem hingað til vörð um réttindi hinsegin fólks hvarvetna og leggi áherslu á málaflokkinn í sinni utanríkisstefnu Eitt af þeim málum sem lögð var áhersla á þegar Ísland tók sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna var staða hinsegin fólks. Barátta hinsegin fólks eins og önnur jafnréttis- og mannréttindabarátta er í stöðugri mótun og henni lýkur ekki þó að við náum ákveðnum markmiðum.
Hver er stefna framboðsins í málefnum hinsegin umsækjenda um alþjóðlega vernd?
Vinstri græn nefna sérstaklega hinsegin fólk í stefnu sinni um fólk á flótta. Stjórnvöld eiga að leita allra leiða til að taka á móti fleira hinsegin fólki á flótta. Móta þarf stefnu um móttöku hinsegin fólks sem leitar að alþjóðlegri vernd.Þá skal tryggja hinsegin fólki á flótta sérstaka vernd í lögum um útlendinga.
Hvað hefur framboðið gert í réttindabaráttu hinsegin fólks áður?
Lög um kynrænt sjálfræði í samstarfi við Samtökin ‘78, Trans Ísland og Intersex Ísland.
Breytingar á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna svo við bætist einnig óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.
Þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022–2025 var samþykkt á Alþingi. Áætlunin er sú fyrsta sem snýr eingöngu að málefnum hinsegin fólks. Áætluninni fylgir 21 aðgerð en hver og ein þeirra miðar að því að bæta stöðu og réttindi hinsegin fólks, samfélaginu öllu til hagsbóta. Aðgerðirnar eru margvíslegar og snerta sumar mörg svið og þar af leiðandi fleira en eitt ráðuneyti, sem og stofnanir, sveitarstjórnir, félagasamtök og hagsmunaaðila. Lögð er áhersla á fræðslutengd verkefni og vitundarvakningu um málefni hinsegin fólks, enda mikilvægt að auka þekkingu og búa til farveg fyrir málefnalega umræðu um stöðu og réttindi hinsegin fólks. Jafnframt er vikið að lagabreytingum, rannsóknum, stefnumótun og fleiru.
Nú þegar hefur nokkrum aðgerðum verið hrint í framkvæmd og sem dæmi má nefna að ákvæði um hatursorðræðu í almennum hegningarlögum var rýmkað svo hatursorðræða á grundvelli kyneinkenna var gerð refsiverð.
hatursorðræða:
Árið 2022 skrifuðu Katrín Jakobsdóttir, þá forsætisráðherra, og Ásmundur Einar Daða mennta-og barnamálaráðherra, undir starfssamning við Samtökin 78 um að styrkja þau og átak vegna hinsegin barna og ungmenna um níu milljónir króna í ljósi þeirrar hatursorðræðu sem hinsegin ungmenni höfðu orðið fyrir. Þá skipaði Katrín starfshóp til að bregðast við vaxandi hatursorðræðu og lagði í kjölfarið fram þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu 2023-2026. Sérfræðingar hafa síðar bent á að það voru mistök að fella tillöguna.
Við í VG teljum skýrt að setja þurfi skýran lagaramma um hatursorðræðu gegn hinsegin fólki og öðrum minnihlutahópum. Hvers kyns hatursorðræða og hatursglæpir í garð hinsegin fólks eiga aldrei að líðast. Viðbragðsaðilar þurfa að geta spornað gegn og brugðist við slíku á grundvelli skýrra laga og viðbragðsáætlana. Guðmundur Ingi fyrrv. Félags- og vinnumarkaðsráðherra hóf undirbúning að aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu þegar jafnréttis og mannréttindamál færðust í ráðuneytið í september sl. Sú vinna getur nýst sem undirbúningur fyrir nýja áætlun.
Styrkir:
Í ríkisstjórnartíð Vinstri grænna hafa fastir rekstrarstyrkir til félagasamtaka sem vinna fyrir hinsegin fólk margfaldast, eða úr 12 milljónum í rúmlega 90 milljónir. Vinstri græn vita að mannréttindabarátta er raunveruleg vinna og sú vinna verður ekki bara unnin í sjálfboðavinnu.
Annað:
Svandís Svavarsdóttir, þingkona og fyrrv. innviðaráðherra, lagði fram breytingu á reglugerð, sem yrði til þess að óheimilt yrði að mismuna blóðgjöfum vegna kynhneigðar og lagði þar með grunn að þeim breytingum sem nú er búið að lögfesta. Heimsþing hinsegin stjórnmálafólks er í undirbúningi í stjórnarráðinu að tillögu Guðmundar Inga Guðbrandssonar. Að lokum má nefna Mannréttindastofnun Íslands sem var stofnuð en frumvarp þess efnis var lagt fram af Katrínu Jakobsdóttur sem þá var forsætisráðherra. Meginhlutverk stofnunarinnar er að efla og vernda mannréttindi á Íslandi, eins og þau eru skilgreind í stjórnarskrá, lögum, alþjóðasamningum og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum. Nú í haust lagði Jódís Skúladóttir þingkona í annað sinn fram þingsályktunartillögu þess efnis að fela dómsmálaráðherra að setja reglugerð á grundvelli ákvæðis 7. mgr. 7. gr. barnalaga, nr. 76/2003, um form og framkvæmd skráningar barns í þjóðskrá, með það að markmiði að afnema mismunun í skráningu foreldratengsla.
Mun framboðið standa vörð um áunnin réttindi hinsegin fólks á Íslandi, t.a.m. lög um kynrænt sjálfræði?
Það er gríðarlega mikilvægt á tímum sem þessum, þar sem vegið er að réttindum hinsegin fólks víða um heim að standa vörð um áunnin réttindi. Þau eru sjálfsögð réttindi en það er ekki sjálfsagt að fólk við völd standi vörð um þau. VG leggur mikla áherslu á málefni hinsegin fólks í allri sinni stefnumótun og mun leggja sitt af mörkum til að standa vörð í stormi sem þessum sem og logni.
Vinstri græn leggja áherslu á framfylgja lögum um kynrænt sjálfræði og bæta þau enn frekar. Næstu skref eru að tryggja intersex fólki víðtækari vernd í samfélaginu með því að brýna lög um kynrænt sjálfræði enn frekar, t.d. Með því að leggja alhliða bann við inngripum ódæmigerðra kyneinkenna, bæta viðbragðsteymi og áætlanir, og að auki breyta lögum til að þau sem urðu fyrir ólögmætum inngripum geti leitað réttar síns.
Lög um kynrænt sjálfræði er gott dæmi um mikilvægi félagasamtaka á borð við Trans Ísland og samstarfs og samtals félagasamtaka og stjórnmálanna. Hugmyndin að lögunum og drifkrafturinn að baki þeim kom frá félagasamtökum sem berjast fyrir hinsegin réttindum en stjórnmálin með VG í fararbroddi tryggðu að hún yrði að lögum. Þetta dæmi er eina af ástæðunum fyrir því að VG hefur og mun alltaf leggja mikið kapp við að styrkja og styðja félagasamtök. Stjórnmálaafl er ekkert án grasrótar eða grasrótarstarfs.
Er hinsegin fólk sýnilegt á listum framboðsins?
Já.
*Spurningar voru sendar á þau framboð sem mældust með meira en 1% fylgi í könnunum Gallup þann 4. nóvember 2024.
Stjórnmálaflokkarnir gerðu með sér samkomulag að þeir myndu einungis svara þremur spurningum hver frá félagasamtökum í aðdraganda kosninga. Stjórn Samtakanna ‘78 tók málið fyrir og tók þá ákvörðun að krefja flokkana svara við öllum þeim 10 spurningum sem Samtökin höfðu lagt fram.
Allir flokkar að undanskildum Miðflokki svöruðu öllum tíu spurningunum. Flokkur fólksins svaraði ekki.