Skip to main content
Uncategorized

Kúgunartæki jafnréttisbaráttunnar

By 9. apríl, 2006No Comments

Hugleiðing Viðars Eggertssonar, leikstjóra og stjórnarmanns í Samtökunum 78.

Ég man….
Ég man kvennafrídaginn 24 október 1975.
Ég man frelsistilfinninguna, baráttuhuginn, samstöðuna.

Ég man hvað ég hreyfst af baráttugleðinni, réttlætiskröfunni, sannfæringunni. Ég var sannfærður.
Ég stóð með vinkonum mínum, frænkum, systur minni og móður. Stóð með konum þessa ísakalda lands.
Ég stóð á Lækjartorgi og tók undir sönginn: “’A Íslandi eru allir jafnir / en sumir jafnari og sumir hafnir / yfir jafnrétti yfirleitt…”
Vinkonur mínar allar, konurnar allar, baráttukonurnar allar tíndust burt heitar í hamsi með reiddann hnefa. Ég stóð einn eftir á Lækjartorgi.
Ég stend þar eftir einn – ennþá. Eftir öll þessi ár.
Konur náðu vopnum sínum.
Konur hafa smíðað vopn í jafnréttisbaráttunni við Hvíta, Vestræna, Millistéttarkarlmenn, – Gagnkynhneigða.
Ég var ekki óvinurinn.

Ég er ekki þessi Gagnkynhneigði, Hvíti, Vestræni, Millistéttarkarlmaður.
Nei.
Ég er einn af þeim kúguðu.
Ég er einn af þeim sem stjórnarskráin segir að megi ekki mismuna.
Ég er varinn af stjórnarskránni, eða er ekki svo?
Ég stend einn á Lækjartorgi með öllum þeim sem sérstaklega eru tíundaðir sem minnihlutahópar í stjórnarskráni og við megum ekki mismuna.
Hópar fólks sem á á hættu að verða mismunað af samfélagi sem hinn stóri forréttindahópur Hvítra, Gagnkynhneigðra, Vestrænna, Millistéttarkarlmanna hefur sniðið innan hins þrönga sjóndeildarhrings síns.
Viðmið kvennabaráttunnar, eða hvað?
Er það heimurinn sem konurnar vildu setjast að í, miða sig við?
Var það þeim nóg, eftir allt saman?
Af hverju standa þær ekki með mér á Lækjartorgi? Sjá þær ekki vin sinn, frænda, bróður, son? Eru sum börn Evu enn of óhrein. Vill hún fela þau fyrir valdinu, stóra bróður?
Konur hafa náð vopnum sínum og það er vel, en konur hafa einnig smíðað sín eigin vopn og beita þeim sér í hag.
Konur tala um jafnrétti, konur tala um mannréttindi, en eiga þær bara við kvenréttindi? “Á Íslandi eru allir jafnir / en sumir jafnari og sumir hafnir / yfir jafnrétti yfirleitt…” – söngurinn af Lækjartorgi ómar enn í höfði mínu, en nú hefur hann fengið aðra merkingu. Nú skil ég hann í nýju ljósi.
Konar hafa fengið Jafnréttislög. Konur hafa fengið Jafnréttisnefndir, Konur hafa fengið Kærunefnd jafnréttismála…. – vopn í baráttunni fyrir jafnrétti? Jafnrétti hverja? Er jafnrétti í einkaeigu? Sumra? Getur verið að vopn kvenna berji á öðrum þeim sem stjórnaskráin tiltekur að ekki megi níðast á?
Þegar jafnréttishugtakið er túlkað svo þröngt að einn hópur fær sérstök lögvarin vopn til að berjast með, í nafni jafnréttis, getur það skapað mikið óréttlæti gagnvart öðrum. Því þessar stofnanir sem komið hefur verið á fót í nafni Jafnréttis, geta oft á tíðum verið hin verstu kúgunartæki á aðra hópa samfélagsins sem eru að berjast fyrir þeim mannréttindum sem sem þær eiga að þjóna.
Jafnrétti er ekki í eigu sumra, jafnréttindi eru mannréttindi. Ekki mannréttindi kvenna til að samsama sig þeim heimi sem Hvíti, Vestrænir, Millistéttarkarlmenn – Gagnkynhneigðir hafa skapað.
Er það sú veröld sem við viljum? Er það sú veröld sem konur vilja?
Afmiðjum þessa veröld, leggjum niður jafnréttistal sem kúgar, breytum jafnréttisumræðunni í mannréttindabaráttu!
Baráttunni er ekki lokið.
Ég man orð Jóns Hreggviðssonar: "Vont er þeirra ranglæti, en verra er þeirra réttlæti".

Komið aftur niður á Lækjatorg og hrópið með mér: Á Íslandi eru allir jafnir / en sumir jafnari og sumir hafnir / yfir jafnrétti yfirleitt / og einmitt því verður breytt!
Já.
Ég man……

Leave a Reply