Skip to main content
Fréttir

Kynhneigð skiptir ekki máli

By 4. febrúar, 2009No Comments

Það eru ánægjuleg tíðindi að kynhneigð skuli ekki standa í vegi fyrir því að á Íslandi veljist hæfileikaríkt fólk í æðstu stöður samfélagsins. Jóhanna Sigurðardóttir er í senn fyrst kvenna til að gegna starfi forsætisráðherra á Íslandi og fyrst samkynhneigðra til að gegna því starfi í heiminum.

Það eru ánægjuleg tíðindi að kynhneigð skuli ekki standa í vegi fyrir því að á Íslandi veljist hæfileikaríkt fólk í æðstu stöður samfélagsins. Jóhanna Sigurðardóttir er í senn fyrst kvenna til að gegna starfi forsætisráðherra á Íslandi og fyrst samkynhneigðra til að gegna því starfi í heiminum. Sú staðreynd að Jóhanna skuli vera samkynhneigð hefur vakið mikla athygli erlendra fjölmiðla enda hefur kynhneigð víða staðið í vegi fyrir að hæfileikaríkir einstaklingar nái frama t.d. í stjórnmálum. Íslendingar hafa sent þjóðum heims skýr skilaboð um að kynhneigð eigi ekki að standa í vegi fyrir því að einstaklingar fái að njóta sín.

Þegar Jóhanna tók sæti á Alþingi í fyrsta skipti árið 1978 var réttarstaða og félagsleg staða homma og lesbía á Íslandi afar bágborin. Fjölmargir hommar og lesbíur treystu sér ekki til að búa við þau neikvæðu viðhorf sem hér ríktu og settust að erlendis. Þetta sama ár voru Samtökin ’78 stofnuð með það að markmiði að bæta stöðu homma og lesbía í íslensku samfélagi, kynhneigð ætti ekki að standa í vegi fyrir því að þau fengju notið sjálfsagðra mannréttinda og sömu tækifæra og aðrir.
 
Skipun Jóhönnu Sigurðardóttur í stöðu forsætisráðherra undirstrikar þær jákvæðu þróun sem hefur átt sér stað á Íslandi á tiltölulega skömmum tíma. Á þeim rúmu 30 árum sem liðin eru frá stofnun Samtakanna ’78 hefur íslenskt samfélag tekið stakkaskiptum. Viðhorf til homma og lesbía eru allt önnur, löggjöf hefur verið bætt og misrétti gagnvart samkynhneigðum nánast aflagt. Framsækin löggjöf á Íslandi vekur athygli margra þjóða um víða veröld en ekki síður þau viðhorf sem hér ríkja gagnvart samkynhneigðum. Það er ef til vill lýsandi fyrir þá miklu hugarfarsbreytingu sem hefur orðið á Íslandi á þessum tíma að samkynhneigð forsætisráðherra þykir ekkert tiltökumál. Því miður er það ekki svo allstaðar í kringum okkur. Athygli erlendra fjölmiðla staðfesta það svo ekki verður um villst. Það að hér skuli samkynhneigður einstaklingur vera valin til starfa í jafn mikilvægt embætti þykja stórmerkileg tíðindi.  Íslendingar hafa sýnt eftirtektarvert fordæmi og vonandi verður það til þess að fleiri þjóðir horfi til hæfileika einstaklinganna en setji ekki kynhneigðina fyrir sig þegar kemur að því að velja gott fólk til góðra verka.

-FJ

Leave a Reply