Skip to main content
Fréttir

Lagabreytingatillögur lagðar fyrir Aðalfund 2015

By 10. mars, 2015No Comments

Til stjórnar bárust lagabreytingatillögur frá þremur félögum fyrir Aðalfund 2015. Tillögurnar varða sjö atriði í lögunum:

  1. Um ungliðastarf (ný grein)
  2. Intersex fólks getið í markmiðum laga og skilgreiningu á hugtakinu 'hinsegin' (breyting á gr. 1.2)
  3. Um stjórn fyrsta fundar trúnaðarráðs og kosningu í embætti (breyting á gr. 5.3 eða 3.4, 3.5 og 5.3)
  4. Fækkun fulltrúa í trúnaðarráði (breyting á gr. 5.2)
  5. Lágmarksfjöldi á fundum trúnaðarráðs (breyting á gr. 5.5)
  6. Um kynningu varaframboða (viðbót við gr. 3.3)
  7. Um lögmæti aðalfundar (breyting á gr. 3.6)

Tillögurnar eru svohljóðandi og orðréttar frá höfundum (núverandi texti sem lagt er til að verði breytt er merktur með grænum lit en breytingar eru merktar með rauðum lit):

1. Um ungliðastarf (ný grein)

Klausan myndi bætast við kafla 6. Skipulag og starfsemi og er svohljóðandi:

6.8. Stjórn skal sjá til þess að reglulegt og öflugt ungliðastarf farið fram. Ungliðahreyfing Samtakanna 78 skal hafa aðgang að aðstöðu og fjárstuðningi frá Samtökunum 78.

2. Intersex fólks getið í markmiðum laga og skilgreiningu á hugtakinu 'hinsegin' (breyting á gr. 1.2)

Eftirtalin lagabreyting skal lögð fyrir aðalfund. Tilgangur lagabreytingarinnar er að hópur intersex fólks á Íslandi njóti meiri sýnileika í lögum félagsins. þetta er tillaga sem lýtur að orðalagi en ekki efni laganna og felst í því að brjóta upp og aðlaga upptalningu um hvað felst í hugtakinu hinsegin fólk í markmiðum félagsins.

[Grein 1.2 eins og hún hljóðar í dag:

1.2. Markmið félagsins er að lesbíur, hommar, tvíkynhneigðir og transgender fólk, hér eftir nefnd hinsegin fólk, verði sýnileg og viðurkennd og njóti fyllstu réttinda í íslensku samfélagi.]

Eftir breytingu samkvæmt tillögu þessari mun grein 1.2. hljóða svo:

1.2. Markmið félagsins er að lesbíur, hommar, tvíkynhneigðir, intersex og trans fólk, hér eftir nefnd hinsegin fólk, verði sýnileg og viðurkennd og njóti fyllstu réttinda í íslensku samfélagi.

3. Um stjórn fyrsta fundar trúnaðarráðs og kosningu í embætti (breyting á gr. 5.3 eða 3.4, 3.5 og 5.3)

Á fyrsta fundi trúnaðarráðs þarf að skipa fundarstjóra fram yfir kosningu formanns. Skv. fundarsköpum er fundarstjóri ekki gjaldgengur til framboðs. Það gefur því auga leið að annaðhvort þarf fyrsta fundi trúnaðarráðs að vera stýrt af utanaðkomandi aðila eða að aðalfundur kjósi formann trúnaðarráðs sérstaklega. Ég legg því til tvær mögulegar leiðir til að auvðelda þetta ferli.

Leið 1.

Utanaðkomandi aðili stjórnar fyrsta fundi trúnaðarráðs fram yfir kjör formanns. Sé sú leið valin þarf aðeins að breyta einni grein laga Samtakanna er fjalla um trúnaðarráð. Grein 5.3 sem hljóðar nú svona:

5.3. Fyrsti fundur trúnaðarráðs skal haldinn eigi síðar en 2 vikum eftir aðalfund. Skal þá kjósa formann og varaformann trúnaðarráðs, áheyrnarfulltrúa í stjórn og varamann hans. Trúnaðarráð skal setja sér skriflegar starfsreglur á fyrsta fundi sínum.

Tillaga mín að breytingu greinarinnar er að hljóði svona:

5.3. Fyrsti fundur trúnaðarráðs skal haldinn eigi síðar en 2 vikum eftir aðalfund. [utanaðkomandi aðili] skal stýra fundi þar til formaður hefur verið kosinn. Skal kjör formanns fara fram eins fljótt og hægt er. Að kjöri formanns loknu skal formaður taka við stjórn fundarins. Skal þá kjósa varaformann trúnaðarráðs, áheyrnarfulltrúa í stjórn og varamann hans. Trúnaðarráð skal setja sér skriflegar starfsreglur á fyrsta fundi sínum.

Þar sem ritað er [utanaðkomandi aðili] má setja inn þann aðila sem stjórn eða aðalfundur telur henta best, má það t.a.m. vera formaður Samtakanna, framkvæmdastjóri eða eitthvað annað. Undirritaður hefur ekki sérstaka skoðun á því. Einnig má umorða greinina ef betri orðun finnst.
 
Leið 2.

Aðalfundur kýs formann trúnaðarráðs um leið og almenn kosning til trúnaðarráðs fer fram. Sú leið krefst þess að fleiri greinum sé breytt.

3.4. Kosningar fara fram í þrennu lagi í þessari röð: 1) embætti formanns, varaformanns, ritara, gjaldkera og alþjó
ðafulltrúa; 2) embætti meðstjórnenda; 3) sæti í trúnaðarráði. Nú nær frambjóðandi ekki kjöri í tilsett embætti og tekur hann þá þátt í kjöri skv. varaframboði hans. Ekki er hægt að sitja nema í einu kjörnu embætti í einu.

myndi hljóða svo:

3.4. Kosningar fara fram í þrennu lagi í þessari röð: 1) embætti formanns, varaformanns, ritara, gjaldkera og alþjóðafulltrúa; 2) embætti meðstjórnenda; 3) embætti formanns trúnaðaráðs og önnur sæti í trúnaðarráði. Nú nær frambjóðandi ekki kjöri í tilsett embætti og tekur hann þá þátt í kjöri skv. varaframboði hans. Ekki er hægt að sitja nema í einu kjörnu embætti í einu.

3.5. Dagskrá aðalfundar er:

1. Skipan fundarstjóra og fundarritara
2. Lögmæti aðalfundar staðfest
3. Skýrsla stjórnar, trúnaðarráðs, nefnda og starfshópa
4. Áritaðir reikningar fyrra árs kynntir og bornir upp til samþykktar
5. Fjárhagsáætlun ársins lögð fram
6. Laga- og stefnuskrárbreytingar
7. Kjör formanns, varaformanns, ritara, gjaldkera og alþjóðafulltrúa.
8. Kjör tveggja meðstjórnenda
9. Kjör tíu félaga í trúnaðarráð
10. Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga
11. Önnur mál

myndi hljóða svo:

3.5. Dagskrá aðalfundar er:

1. Skipan fundarstjóra og fundarritara
2. Lögmæti aðalfundar staðfest
3. Skýrsla stjórnar, trúnaðarráðs, nefnda og starfshópa
4. Áritaðir reikningar fyrra árs kynntir og bornir upp til samþykktar
5. Fjárhagsáætlun ársins lögð fram
6. Laga- og stefnuskrárbreytingar
7. Kjör formanns, varaformanns, ritara, gjaldkera og alþjóðafulltrúa.
8. Kjör tveggja meðstjórnenda
9. Kjör tíu félaga í trúnaðarráð auk formanns þess
10. Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga
11. Önnur mál

5.3. Fyrsti fundur trúnaðarráðs skal haldinn eigi síðar en 2 vikum eftir aðalfund. Skal þá kjósa formann og varaformann trúnaðarráðs, áheyrnarfulltrúa í stjórn og varamann hans. Trúnaðarráð skal setja sér skriflegar starfsreglur á fyrsta fundi sínum.

myndi hljóða svo:

5.3. Fyrsti fundur trúnaðarráðs skal haldinn eigi síðar en 2 vikum eftir aðalfund. Skal þá kjósa formann og varaformann trúnaðarráðs, áheyrnarfulltrúa í stjórn og varamann hans. Trúnaðarráð skal setja sér skriflegar starfsreglur á fyrsta fundi sínum.

Auk þessara tveggja leiða til breytinga á skipan formanns trúnaðarráðs legg ég einnig til eftirfarandi lagabreytingar:

4. Fækkun fulltrúa í trúnaðarráði (breyting á gr. 5.2)

5.2. Aðalfundur kýs árlega tíu manns í trúnaðarráð. Að auki hafa hagsmunafélög, sbr. 2.4, rétt til að skipa 2 fulltrúa í trúnaðarráð til eins árs í senn, með málfrelsi, tillögurétt og atkvæðarétt enda séu þeirra fulltrúar fullgildir félagar í Samtökunum '78. Þeir fulltrúar hafa ekki kjörgengi til embætta innan trúnaðarráðs.

skal hljóða svo:

5.2. Aðalfundur kýs árlega fimm manns í trúnaðarráð. Að auki hafa hagsmunafélög, sbr. 2.4, rétt til að skipa 2 fulltrúa í trúnaðarráð til eins árs í senn, með málfrelsi, tillögurétt og atkvæðarétt enda séu þeirra fulltrúar fullgildir félagar í Samtökunum '78. Þeir fulltrúar hafa ekki kjörgengi til embætta innan trúnaðarráðs.

5. Lágmarksfjöldi á fundum trúnaðarráðs (breyting á gr. 5.5)

5.5. Trúnaðarráð skal funda í það minnsta fjórum sinnum á ári og auk þess með stjórn tvisvar á ári. Fundir í trúnaðarráði eru lögmætir sé til þeirra boðað samkvæmt starfsreglum og minnst helmingur ráðsins sé á fundi.

skal hljóða svo:

5.5. Trúnaðarráð skal funda í það minnsta fjórum sinnum á ári og auk þess með stjórn tvisvar á ári. Fundir í trúnaðarráði eru lögmætir sé til þeirra boðað samkvæmt starfsreglum og í það minnsta 5 með
limir séu á fundi.

6. Um kynningu varaframboða (viðbót við gr. 3.3)

3.3 Framboðsfrestur rennur út hálfum mánuði fyrir aðalfund og skulu frambjóðendur skila framboði sínu skriflega til kjörnefndar og tilgreina hvaða embætti þeir sækjast eftir og tilgreina varaframboð ef við á. Öll framboð til stjórnar og trúnaðarráðs skulu eftir það kynnt á vefsíðu félagsins.

skal hljóða svo:

3.3 Framboðsfrestur rennur út hálfum mánuði fyrir aðalfund og skulu frambjóðendur skila framboði sínu skriflega til kjörnefndar og tilgreina hvaða embætti þeir sækjast eftir og tilgreina varaframboð ef við á. Öll framboð til stjórnar og trúnaðarráðs skulu eftir það kynnt á vefsíðu félagsins. Varaframboð skulu þó ekki kynnt nema til þess komi að frambjóðandi taki þátt í kjöri skv. áður tilgreindu varaframboði.

Punktur: Ég legg til þessa breytingu til að taka af allan vafa um það hvort varaframboð eigi að vera tilkynnt eða ekki. Auðvitað má leggja til breytingu sem gengur í hina áttina og sérstaklega sé tekið fram varaframboð þeirra sem bjóða þau fram. En til að setja þetta í samhengi þá var það hugmynd lagabreytinganefndar sem lagði fram þessa lagabreytingu, og undirritaður sat í, að með varaframboði væri verið að hvetja fólk til að sækjast eftir embættum þar sem aðeins einn aðili getur náð kjöri án þess að eiga það á hættu að ná engu kjöri vegna vilja viðkomandi til að taka meiri ábyrgð. Með þessu gæti aðili t.a.m. sóst eftir embætti gjaldkera án þess að eiga það á hættu, skyldi hann ekki ná kjöri, að fá ekki tækifæri til að sinna öðru embætti innan stjórnar eða trúnaðarráðs. Enda er oft ekki mikill fjöldi fólks sem sækist eftir að starfa innan samtakanna og synd að láta fólk víkja frá einfaldlega vegna þess að því langaði að sinna stöðu þar sem aðeins einn aðili getur náð kjöri.

En sé dæminu snúið við og varaframboð kynnt getur það snúist upp í andhverfu sína. Ef t.a.m. tveir aðilar sækjast eftir stöðu ritara og annar þeirra hefur tilkynnt varaframboð en ekki hinn geta fundargestir hæglega upplifað það sem áhrifavald í kjöri sínu og kosið einstaklinginn sem ekki tilgreindi varaframboð með þeim rökum að hinn aðilinn verði þá bara kosinn skv. varaframboði hans. Það myndi því virka neikvætt á frambjóðendur að bjóða fram varaframboð og því væri öll hugmyndin orðin að hringavitleysu sem skilaði engu fyrir Samtökin.

Um lögmæti aðalfundar (breyting á gr. 3.6)

3.6. Aðalfundur telst lögmætur sæki hann 15 félagsmenn hið fæsta. Aðalfundi skal stjórnað samkvæmt almennum fundarsköpum.

skal hljóða svo:

3.6. Aðalfundur telst lögmætur hafi til hans verið boðað með lögmætum hætti og hið minnsta 15 félagsmenn sæki hann. Aðalfundi skal stjórnað samkvæmt almennum fundarsköpum.

Leave a Reply