Skip to main content
FréttirHagsmunabarátta

Launamunur hinsegin fólks rannsakaður

By 8. febrúar, 2022No Comments

BHM og Samtökin ‘78 hafa skrifað undir samkomulag um aukið samstarf á sviði jafnréttismála en fyrsta skrefið er rannsókn á stöðu hinsegin fólks á vinnumarkaði. Markmiðið er m. að kanna hvort launamunur sé til staðar á íslenskum vinnumarkaði með tilliti til kynhneigðar eða kynvitundar. Launamunur hinsegin fólks á við aðra hópa samfélagsins hefur lítt verið kannaður á hinu alþjóðlega sviði og er hér því um tímamótasamkomulag að ræða. Rannsóknin gæti jafnframt haft hagnýta þýðingu fyrir íslenskan vinnumarkað. Að mati BHM og Samtakanna ‘78 er hér verið að vinna nauðsynlegt frumkvöðlastarf í jafnréttismálum.

„Við hjá BHM starfrækjum öflugt jafnréttisstarf innan okkar vébanda og höfum í hyggju að efla greiningar á því sviði. Rannsókn á stöðu hinsegin fólks á vinnumarkaði m.a. á kynhneigðarbundnum launamun er liður í þeirri vinnu. Kominn er tími til að taka kyn, kynhneigð, kynvitund og aðra þætti alfarið út úr jöfnunni í launasetningu og framgangi á vinnumarkaði,“ segir Friðrik Jónsson, formaður Bandalags háskólamanna.

„Samtökin ‘78 fagna því að ráðast eigi í auknar rannsóknir á högum hinsegin fólks og við erum ótrúlega spennt fyrir samstarfinu með BHM við þetta tímamótaverkefni. Við væntum þess að verkefnið muni vekja athygli á stöðu hinsegin fólks á íslenskum vinnumarkaði og að niðurstöðurnar verði hægt að hagnýta til þess að bæta þá stöðu með markvissum hætti,“ segir Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ‘78 .

Niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar með vorinu.