Skip to main content
search
Uncategorized

Leikhúsgesturinn er hvorki tepra né einfeldingur – Viðar Eggertsson í viðtali

By 28. janúar, 2001No Comments

Vorið 1999 var Viðari Eggertssyni, leikara og leikstjóra, boðið á vettvang Samtakanna ´78 þar sem hann hélt fróðlegt erindi um leikhús og samkynhneigð og dró saman mikilsverða sögulega þætti í því samspili. Erindið vakti slíka athygli og þótti svo merk menningarsöguleg heimild að nokkrum vikum síðar átti Þorvaldur Kristinsson blaðaviðtal við Viðar sem hér er endurbirt: Um samkynhneigð eins og hún snýr að íslensku leikhúsi ? í fortíð og nútíð.

Hvenær og hvernig telurðu fyrst örla á einhverju í íslensku leikhúsi sem varðaði tilveru og tilfinningar lesbía og homma?

Íslenskt leikhús hafði löngu slitið barnsskónum þegar fyrst vottaði fyrir einhverju sem hægt væri að kalla samkynhneigt þema á leiksviði eða í leikritun. Hins vegar dafnaði hér frá upphafi leiklistar kunnuglegt fyrirbæri sem minnir ögn á suma menningarleiki samkynhneigðra. Þarna voru á ferðinni einhvers konar ?kynskiptaleikir?, ég kann ekki að kalla þá öðru nafni. Þetta tengist ábyggilega duldum draumi allra manna um að taka hamskiptum, að breyta sér úr karli í konu eða konu í karl. Svo mikið er víst að öldum saman hefur heiminum þótt þetta óstjórnlega fyndið, þótt ég sjái sjálfur lítið fyndið við það. Kynskiptaleikirnir áttu sjálfsagt rætur að rekja til þess að það voru karlar sem áður fyrr léku öll hlutverk í leikhúsum. Þegar leiklist hófst meðal latínuskólapilta á Íslandi voru strákarnir í öllum hlutverkum, til dæmis þegar þeir frumfluttu Útilegumenn Matthíasar Jochumssonar sem síðar hét Skugga-Sveinn . Sú hefð fylgdi því verki frá upphafi að karlmaður túlkaði Grasa-Guddu og til að botna kómíkina var stúlka stundum sett í hlutverk fóstursonar hennar, Gvendar smala. Einn vinsælasti gamanleikur hér á landi fram eftir öldinni, breski farsinn Frænka Charleys, byggist á sömu brellunni. Og í dag er varla haldin sú árshátíð að forstjórar og fulltrúar atvinnulífsins fari þar ekki á kostum í korseletti og á háum hælum.

En þetta hefur varla nokkuð með kynhneigð að gera.

Í rauninni ekki, en samt er þarna á ferðinni endalaust fitl við kynhlutverk og kynhegðun og oft ber þetta í sér heilmikinn brodd, til dæmis í revíunum sem voru ádeiluleikhús síns tíma. Allir þeir sem komnir eru yfir fertugt muna Lárus Ingólfsson þegar hann situr á peysufötunum, saumar í stramma og syngur. Það er erfitt að verjast þeirri tilhugsun að þarna hafi hann öðrum þræði verið að skopast að stöðluðum kynhlutverkum og valdi þeirra.

Brautryðjandinn Kalli klæðskeri

Og þetta verður síðan upptakturinn að samkynhneigðum lýsingum í íslenskri leikritun.
Já, svo kostulegt sem það er þá mætist homminn og klæðskiptingurinn í einni og sömu persónu, Kalla klæðskera í Saumastofu Kjartans Ragnarssonar 1975 sem er fyrst íslenskra leikrita til að sviðsetja hommaskap. Kalli er mikill brautryðjandi í íslensku leikhúsi, því hann er hinsegin og ?einn af stelpunum á stofunni?. Verk Kjartans tekur mjög lipurlega og skemmtilega á tíðaranda og kynhlutverkum en þegar kemur að hommanum fer hann troðnar slóðir, safnar að sér klisjum og neitar Kalla um að njóta karlmannsins í sjálfum sér. Víst er Kalli besta skinn en dæmalaust viðrini. Enda fáum fyrirmyndum fyrir að fara. Meira að segja Hárið, sem fyrst var sýnt í Reykjavík árið 1970 og þótti afskaplega framsækinn söngleikur með boðskap sinn, ?make love, not war?, státar bara af einum homma og það óttalegum titti. Við megum ekki gleyma því að menning ´68-kynslóðarinnar var í rauninni ósköp hómófóbísk. Sá sem lék hommann í Hárinu, Leifur Hauksson, var hins vegar svo aðlaðandi á sviðinu að hann lagði langtum jákvæðari merkingu í persónuna en efniviðurinn gaf tilefni til. En fyrirmyndir okkar komu seinna, með nýjum tíðaranda, þegar samkynhneigðir urðu loksins sýnilegir og samfélagið lét af tepruskap sínum. En eftir Saumastofuna man ég næst eftir samkynhneigðum veruleika í íslenskum leikritum í Fyrsta öngstræti til hægri eftir Örn Bjarnason sem Leikfélag Akureyrar frumflutti 1979. Þar á aðalkvenpersónan í ástarsambandi við aðra konu. Þetta verk lýsir nöturlegum heimi utangarðsfólks, en ást þessara tveggja kvenna er ljós þeirra í myrkrinu. Síðan kom Bílaverkstæði Badda eftir Ólaf Hauk Símonarson sem Þjóðleikhúsið sýndi árið 1987 og kemur inn á fornar ástir tveggja karlmanna, að vísu á lágum nótum sem Ólafur Haukur kann svo vel að beita, en framsetningin er mjög sannfærandi og tengist mikilvægum átökum sem verkið snýst að meginhluta um. Og nú nýverið Ástarsaga 3 Kristínar Ómarsdóttur og Hinn fullkomni jafningi eftir Felix Bergsson.

Fyrstu verk sem lýsa samkynhneigð á íslensku sviði munu vera Vinnukonurnar eftir Jean Genet sem Gríma sýndi fyrst hér á landi á 7. áratugnum og vorið 1967 sýndi Þjóðleikhúsið breska leikritið Hunangsilm eftir Shelagh Delaney sem gekk aðeins þrisvar á sviðinu í Lindarbæ. Þar er ein af persónunum hommi en lítið mun hafa farið fyrir þeirri staðreynd í sviðsetningunni. Hvað Vinnukonurnar snertir þá hugsaði Genet sér að hlutverk kvennanna í leiknum væru leikin af karlmönnum en það var ekki gert hér á landi. Því miður því að með þessari víxlun fær leikritið meiri dýpt, það verður margbrotnara, háskalegra og um leið pólitískara, og manni opinberast eitt og annað sem Genet hefur að segja um tilveru hommans.

Þegar Vinnukonurnar voru svo aftur teknar til sýningar &i
acute; Reykjavík haustið 1997 voru konur þar enn í hlutverkum kvennanna þriggja. Ekkert hafði gerst í þá veru að reyna að nálgast háska leikritsins. Og þetta gerðist sama haustið og Ástarsaga 3 kom á fjalirnar.

Listræn afrek á 9. áratugnum

En við vorum ekki allsendis ósnortin af því sem fram fór í heiminum. Fassbinder, Martin Sherman og Manuel Puig tóku land í Reykjavík.
Já, það var mikið afrek þegar Stúdentaleikhúsið færði Bent eftir Sherman á svið 1982 í leikstjórn Ingu Bjarnason. Þetta var sýning áhugafólks sem fékk atvinnumanninn Andrés Sigurvinsson til liðs við sig, en verkið er vel samið og opinskátt, einkum seinni hlutinn sem gerist í fangabúðunum í Dachau. Ástarsena fanganna tveggja sem hafa mök án þess að snertast er til dæmis eitt best skrifaða leikatriði sem ég man eftir frá síðustu áratugum. Það gerir sýninguna líka að stærri viðburði að leikritið var nýtt og ferskt þegar það var sýnt hér og flestum óþekkt. Sýningin á Kossi kóngulóarkonunnar fáeinum árum síðar var vissulega vönduð, enda hrein atvinnumannasýning, en ekki sama átak leikhússögulega séð. Það var þá þegar heimsfrægt og viðurkennt listaverk sem hafði verið kvikmyndað, jarðvegurinn hafði verið unninn ef svo má segja og allt miklu auðveldara og meinlausara en hvað Bent snerti. Minnisstæðast frá þessum árum er samt Bitur tár Petru von Kant eftir Fassbinder. Þar sá ég það sem mér finnst mestu máli skipta í þessu sambandi, samkynhneigðar persónur á sviði með öllum sínum kostum og brestum. Að samkynhneigðir séu meðhöndlaðir eins og hverjar aðrar dramatískar persónur. Erlend leikrit sem okkar fólk skrifaði um sjálft sig á þessum árum hætti nefnilega stundum til að verða hálfgerð krossfararleikrit, ósköp svart-hvít, samkynhneigðir ætluðu sér að vinna heilan heim og það átti helst að gerast á einu kvöldi. Þessi leikrit voru nokkurs konar brimbrjótar í leiklistarsögunni og sem slík óhjákvæmileg og jafnvel nauðsynleg. En Bitur tár Petru von Kant, sem Alþýðuleikhúsið sýndi veturinn 1984-1985, er miklu betra verk og fjallar um örlög venjulegra kvenna sem reyndar eru lesbískar. Spurning verksins er alls ekki hvort konurnar séu lesbíur, þær eru það, en þær eru líka flóknar dum leikarar og leikstjórar fara um þessi verk. Það speglar óneitanlega þá sjálfa og þarf ekki að vera í neinu samhengi við ætlun höfundar. Þótt höfundur riti verk með eitthvað ákveðið í huga þá fær það í vinnuferli leikhússins á sig aðrar myndir. Þetta er vel þekkt staðreynd um leikhúsið og á einkar vel við um þau verk sem víkja að samkynhneigð, því þau eru viðkvæm eðli málsins samkvæmt, og leikhúsfólk er misjafnlega tilbúið til að fjalla um það sem fyrir liggur. Oftar en ekki spegla efnistökin feimni og fordóma sviðsetjenda þó maður skyldi ætla að leikarar séu opnari og víðsýnni en gerist og gengur. Líf þeirra snýst nú einu sinni um það að taka endalausum hamskiptum. Þetta er spennandi rannsóknarefni því að engar tvær leiksýningar eru eins, og sýning er ekki bara einföld túlkun á skáldskap heldur afhjúpar hún stöðugt eiginleika þeirra sem að henni vinna.

Ef við skoðum til dæmis hvernig hommar hafa birst á íslensku sviði þá er formúlan býsna skýr. Þeir eru yfirleitt gerðir að hálfgerðum viðrinum, það er helst að reynt sé að gera eitthvað fyndið úr þeim. Þetta er hin feimna og forpokaða aðferð og segir oft meira um þá sem túlka verkið en um höfundinn. Þó innan leikhúsins hafi löngum verið samkynhneigt fólk og nokkur skilningur á stöðu þeirra, þá hafa flytjendur af ótta við áhorfendur og samfélagið ekki vogað sér að vera annað en eins konar spegill af því, jafnvel afturhaldssamari og meira á eftir en þjóðfélagið sem þeir eru að tala til.

Nú koma í hugann tvö verk. Gísl eftir Brendan Behan sló fyrst í gegn í íslensku leikhúsi á 7. áratugnum. Þar bregður fyrir tveimur karlmönnum, elskendum, sem eru hrein viðrini og ýktar týpur sem staðfesta klassíska fordóma um það hvernig hommar séu eða eigi að vera. Fyrir vikið eru þær gjörsneyddar því að ögra nokkrum því að þær eiga sér enga dýpt. Að vísu ferðast þær þarna í kompaníi við aðra furðufugla, verkið er nefnilega fullt af fordómafullu og grótesku spéi um þá sem ekki troða alfaraleið. Ekki svo að skilja að ég ætli að amast við því þó að skoffínum og trúðum bregði fyrir á sviði. En grunnurinn verður að vera mannlegur og sannur. Þá fyrst er hægt að tala um jafnræði með samkynhneigðum og gagnkynhneigðum í leiklistinni þegar hinar fyrrnefndu fá að stíga fram sem raunverulegar manneskjur, þegar þær eignast rými og tilverurétt á sviðinu sem fullgildar mannlegar verur án þess að höfundar, leikarar og leikstjórar leggist á eitt við að afskræma þær.

Síðara dæmið og öllu flóknara er Leiguhjallur eftir bandaríska skáldið og hommann Tennessee Williams sem Þjóðleikhúsið sýndi árið 1979. Þetta magnaða verk er eitt af síðustu leikritum höfundarins þar sem hann fjallar um sjálfan sig ungan. Í leiguhjallinum býr eldri maður, hommi, og þarna er að finna ótrúlega opinskáa lýsingu á slíkum manni, en sýningin sjálf var heldur fordómafull og sýndi hann mjög ógeðfelldan, langt umfram það sem handritið gefur tilefni til. Þarna var undarlegur tvískinnungur á ferðinni, &aacute
;kveðin samúð annað slagið sem svo var tekin kverkataki þegar minnst varði og snúin niður. Þarna held ég að hafi ekkert annað verið á ferðinni en hræðsla leikhússins, því finnst auðveldara að fylgja heiminum í afturhaldssemi og fordómum en að stíga fram af heiðarleika. Og stundum verður hræðslan svo mikil að leikhúsið dagar uppi eftir að heimurinn er kominn fram úr því.

Heimur sem fleiri þekkja en vilja við kannast

En þessi dæmi eru komin til ára sinna og einn dýrmætasti réttur mannanna er að mega leiðrétta sjálfa sig, að fá að vera vitrari nú en í fyrrasumar, svo vitnað sé til Sölku Völku. Hefur leikhúsið borið gæfu til að leiðrétta gamla fáfræði og gamla hræðslu?

Ég nefndi hér sýningu á verki Tennessee Williams fyrir tuttugu árum. Miklu betur tókst til þegar kom að samkynhneigðu efni í öðru leikrit hans, Ketti á heitu blikkþaki, sem var sýnt í Þjóðleikhúsinu fyrir fáeinum árum. Og enn nýrra dæmi um glímuna við samkynhneigt þema er að finna í frönsku leikriti sem gekk í Þjóðleikhúsinu leikárið 1998-99, Abel Snorko býr einn. Það er frábærlega vel skrifað verk og með fantagóðum leikurum – falleg sýning í alla staði. En þar þykist ég enn sjá ákveðið hik, ótta við samkynhneigða þræði verksins sem verða til þess að veikja sviðsetninguna að lokum.

Leikritið segir frá heimsfrægum rithöfundi sem hefur einangrað sig á eyju og hefur engin samskipti við heiminn. Hann hefur gefið út bók um samskipti sín við konu sem er látin fyrir skömmu og bókin byggist á bréfum þeirra um langt árabil sem sum geyma opinskáar lýsingar á raunverulegum og hugsanlegum ástarleikjum þeirra. Blaðamaður af heimaslóðum konunnar kemst til höfundarins og tekst að fá hann til að fallast á viðtal við lítið bæjarblað. Smám saman kemur í ljós að blaðamaðurinn er ekki sá sem hann segist heldur eiginmaður konunnar, og það eru ekki fáein ár síðan hún dó heldur mörg. Að henni látinni hefur hann haldið bréfaskriftunum við rithöfundinn áfram og það er hann sem er höfundur hinna berorðu ástarlífslýsinga. Þannig kviknar sá grunur í framvindu verksins að ?blaðamaðurinn? kunni að leggja ástar- eða girndarhug á rithöfundinn og spenna leikritsins snýst smám saman um bælda erótík. Hér og þar í fyrri hluta verksins leggur höfundur persónum sínum orð í munn til að undirbyggja það sem loks verður ljóst. Í lokasenunni er mikill sprengikraftur sem leynist manni ekki við lestur verksins – hvaða tilfinningar bera mennirnir hvor til annars, hvað vissu þeir og hvað vildu þeir vita? En það undarlega við sýninguna er það að þegar kemur að þessum þætti eftir síðustu hvörfin í sýningunni þá er ekki að finna að gesturinn beri neinar sérstakar tilfinningar til rithöfundarins og sá síðarnefndi verður eins og svolítið hómófóbískur á sviðinu. Sprengikrafturinn er aldrei leystur úr læðingi.

Nú held ég að ekki þurfi mikið að gera til að magna þessa spennu, kannski bara meðvitund þeirra sem vinna sýninguna um að þarna sé einn flötur á dæminu, einhvers konar ástarsamband á milli mannanna eða draumur um slíkt samband. Það hefði gefið lokasenunni loft undir vængi og hleypt nokkrum lífsháska upp á svið. En með því að hundsa þennan möguleika verður lokaatriðið ósköp dauflegt eftir stöðuga stígandi. Ekki ætla ég að gera aðstandendum sýningarinnar upp hómófóbískar hneigðir. En þarna fer túlkunarleið forgörðum sem hefði að mínu viti gert góða sýningu frábæra ef henni hefði verið fylgt eftir. Hvað sem öllu þessu líður þá sé ég í Abel Snorko ofurlitla staðfestingu þess hvað við í leikhúsinu erum skammt á veg komin í leit að þeim heimi sem fleiri þekkja en vilja við kannast.

Nýbylgja við aldarlok

Þeir sem hafa fylgst nokkuð með leiklist erlendis hafa varla komist hjá því að verða vitni að mikilli grósku þeirra verka sem tengjast samkynhneigðum körlum sér í lagi. Það er svo undarleg þversögn að eftir að alnæmi lagði undir sig tilveru homma hljóp ótrúlegt andlegt fjör í leikritun þeirra og kvikmyndagerð. Á þeim tímum þegar við sóttum jarðarfarir næstum jafn oft og skemmtistaði og heil kynslóð homma hafði næstum sópast burt af jörðinni, þá birtist hvert frábært leikritið eftir annað um tilveru okkar og efnistökin eru önnur en áður. Það er ekki lengur spurt grundvallarspurninga um réttmæti kynhneigðarinnar og baráttunnar fyrir sýnileikanum heldur um tilgang lífsins sem við lifum. Hvernig við höndlum það stóra hlutverk að vera menn með mönnum á mannlegum nótum. Þessi verk sem urðu til í svo miklum lífsháska hafa varla ratað upp á svið á Íslandi.
Það er rétt, ef við undanskiljum Engla í Ameríku sem Leikfélag Reykjavíkur sýndi árið 1993 og er sumpart sprottið úr þessum jarðvegi. En margt annað hefur farið framhjá okkur og það mikil leikrit. Manstu The Boys in the Band, sem er þrjátíu ára gamalt verk, samið löngu fyrir tíma alnæmis, en hefur einmitt þessa eiginleika sem þú lýsir? Það kom aldrei hingað. Heldur ekki Torch Song Trilogy eftir Harvey Fierstein. En við fengum Petru von Kant sem hefur alla þessa góðu kosti. Samt er ég alveg viss um að við eigum eftir að sjá þau bestu af þessum leikritum frá síðustu árum hér á sviði.

Í þessu sambandi er rétt að nefna það að hér á Íslandi höfum við orðið vitni að grósku í söngleikjum sem
snerta samkynhneigð. Söngleikir eru reyndar yfirleitt ósköp afturhaldsamt listform en stundum gerist það að kraftmiklir og róttækir söngleikir, sem eru upphaflega ?underground?, brjótast upp og hafna á West End eða Broadway. Besta dæmi um þetta er Rocky Horror Picture Show sem er afskaplega gay og var lengi vel forboðinn ávöxtur en rataði góðu heilli hingað. Rent er annað gott dæmi um slíkan söngleik sem slær í gegn á Íslandi og sýnir að naktar staðreyndir um lífið og það sem er að gerjast í þjóðfélaginu höfðar síst verr til áhorfenda en sætsúpur klassískrar söngleikjahefðar. Í þessum verkum troða upp persónur sem markaðsmógúlarnir reyndu árum saman að meina aðgang að sviðinu. En þær létu nú hvorki hefta sig né binda og þegar á reyndi var það frekar að þær löðuðu fólk í leikhúsið en að fæla það. Við erum líka svo lánsöm að tilfinningar ?okkar? persóna í Rent eru frábærlega túlkaðar af Helga Björnssyni og Atla Rafni Sigurðarsyni, tveimur gagnkynhneigðum leikurum. Og maður hrópar ?Bravó, við erum þó komin svona langt!?

Gettómenningin léleg næring fyrir listina

Væri hinn samkynhneigði þáttur leiklistarinnar betur kominn með yfirlýstu hommaleikhúsi eða lesbíuleikhúsi í Reykjavík?
Mannfæðin gerir auðvitað allt slíkt óhugsandi – sem betur fer, vil ég segja. Ég er þeirrar skoðunar að vöntunin á samkynhneigðu leikhúsi sé frekar styrkur Íslendinga en veikleiki. Fátt fer eins í mínar fínu taugar og sterk gettómenning, allir þessir menningarkimar sem eru nógu fjölmennir til að geta ræktað sinn garð ?í friði?. Kannski var það þetta sem gerir það að verkum að ég á erfitt með að viðurkenna ágæti Engla í Ameríku. Skírskotunin til hinna innvígðu er svo dómínerandi þar, það er leikrit fyrir ákveðinn áhorfanda sem er sammála, leikrit sem leyfir sér síðan að draga þá, sem standa fyrir eitthvað annað, sundur og saman í háði. Mesta hættan við leikhús hvers kyns minnihlutahópa, sem eru nógu stórir til að halda slíku starfi uppi, er sú að það spegli bara það sem hópurinn vill sjá og falli í þá freistni að troða upp með ákveðna sjálfsupphafningu á kostnað annars konar lífs. Og slík sjálfsupphafning er jafnmikil afskræming á lífi homma og lesbía og margt það sem ég hef verið að lýsa í hinu hefðbundna leikhúsi og hvernig það tekur á málunum. Í sérstöku leikhúsi okkar er hættan sú að sannleikurinn nái bara eyrum þeirra sem þegar vita og skilja og kinka endalaust kolli til samþykkis. Slíkt leikhús er auðvitað lifandi dautt.

Hvað bíður okkar þá á nýrri öld?

Þegar heimurinn skríður inn í 21. öldina er ljóst að samkynhneigðir eru sýnilegri á Vesturlöndum en nokkru sinni fyrr, viðurkenndari en nokkru sinni fyrr og með alla burði til að tala fullum rómi. Ef leikhúsið er nógu heiðarlegt til að nálgast þetta líf í allri sinni breidd og fjölbreytileika þá fáum við aragrúa af verkum sem skipta máli, ekki sem lokaður menningarafkimi heldur sem einn þáttur í æðaslætti lífsins. Við munum líka sjá endurmat á eldri verkum þar sem hinn samkynhneigði þáttur fær rými sem hann hafði ekki áður. Víða í uppfærslum má núna sjá Merkútsíó í Rómeó og Júlíu túlkaðan á forsendum homma. Það hefur hleypt nýju gæðablóði í þann pilt. Afturgöngur Ibsens urðu allt í einu smellur dagsins í leikhúsum þegar mönnum hugkvæmdist að tengja hinn unga Osvald Alving við alnæmi án þess nokkurn tíma sé rætt um kynhneigð Alving-fjölskyldunnar í verkinu. Og fleiri verk bíða líkast til fjörugrar endurskoðunar. Skugga-Sveinn og Ketill skrækur! Hvernig var sambandi þeirra eiginlega háttað? Hvað sem öllu þessu líður þá er það krafa okkar samkynhneigðra að leikhúsið fjalli um okkur á heiðarlegan hátt og ég hef þá trú að það sé að gerast. Bæði í samfélaginu og leikhúsum heimsins eru núna mikil umbrot sem snúast um það að samfélag og leikhús séu samstíga, og helst á leikhúsið að vera skrefi á undan þegar kemur að því að sýna og afhjúpa eðli tímans og ýta við umhverfi sínu. Alls staðar í leikhúslífi á Vesturlöndum er meiri skilningur og opnari umræða um samkynhneigðan veruleika en nokkru sinni áður, og Ísland kemst ekki hjá því að tileinka sér þann skilning og taka þátt í þeirri umræðu.

Þorvaldur Kristinsson tók viðtalið

Leave a Reply