Skip to main content
search
Uncategorized

Leitin að Inga þór

By 5. janúar, 2006No Comments

Hann er ljóshærður, laglegur og íþróttamannslegur. Hann ber með sér þennan hlýlega en óræða blæ hins íslenska hjartahreina sveitastráks. Það er ískalt og niðdimmt vetrarsíðdegi þegar við hittumst á rólegu kaffihúsi og hann segir mér sögu sína:

“Akranes var mikill fótbolta- bær en ég uppgötvaði það hjá sjálfum mér að ég var meiri einstaklingsíþróttamaður. Fann það þá strax, sem barn, að ég var aðeins öðruvísi en aðrir. Ég endaði í íþróttunum því ég var allaf seinn til. Ég var jafnvel síðastur í mínum bekk til að læra sundtökin. Um leið og sundkennarinn minn tilkynnti mér að ég kynni að synda fór ég að sækja æfingar, og tíu mánuðum síðar varð ég unglingameistari Íslands í sundi.”

Þannig hófst ævintýralegur íþróttaferil Inga Þórs Jónssonar, sem að lokum átti eftir að hlotnast mesti heiður sem íþróttamanni getur auðnast, að keppa á Ólympíuleikunum. En íþróttaferill Inga tók snöggan og ótímabæran endi, því sundhetjan háði innri baráttu sem reyndist honum óbærileg. Hann var samkynhneigður unglingur á Íslandi í upphafi 9. áratugarins sem gat ekki horfst í augu við sjálfan sig, hvað þá aðra.

“Öll mín æsku- og unglingsár gekk lífið bara út á skólann og sundið. Ég er kominn í landslið Íslands aðeins fimmtán ára gamall og er á þeim tíma að uppgötva að ég er hommi. Þá byrjar ballið: Heimsstyrjöldin innra með mér sem átti eftir að standa í mörg ár.”

HELVÍTIS HOMMI

“Það voru miklir fordómar, og hafa alltaf verið, í íþróttaheiminum. Að vera “helvítis hommi” var eitthvað það hræðilegasta sem nokkur maður gat verið. Ég heyrði orðið alls staðar í kring um mig og alltaf notað á neikvæðan hátt. Þetta gerði mér miklu erfiðara fyrir, því mér fannst eins og verið væri að tala beint til mín sjálfs, og ég fór dýpra og dýpra inn í skápinn,” segir Ingi Þór. “Ég þurfti að lifa í felum, hræddur um að aðrir gætu komist að því að ég væri eitthvað öðruvísi en ég átti að vera.”

Ingi Þór vex úr grasi, og sekkur stöðugt dýpra inn í sjálfan sig: “Síðan gerist það að ég næ þeim árangri sem ætti í raun að vera hápunkturinn í lífi hvers íþróttamanns, ég kemst á Ólympíuleikana. En fyrir mig var þetta það erfiðasta sem ég hef upplifað og lægsti punkturinn í lífi mínu. Ég er 21 árs og fer til Kaliforníu í æfingabúðir og líð andlegar vítiskvalir. Allt það sem ég þurfti að fela fyrir öðrum var í rauninni að gera út af við mig.”

Frá Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984 á Ingi aðeins slæmar minningar: “Þessar þrjár vikur eru verstu vikur í lífi mínu. Aðeins eitt komst að í huga mér: Ég hafði gert það upp við mig að eftir leikana ætlaði ég út úr þessum heimi, búa til nýjan Inga Þór og finna hvað það væri sem ég vildi. Ég man ósköp lítið eftir leikunum. Þeir skiptu mig í raun engu máli, en ég vissi að þetta voru mínar lokastundir í íþróttum og með þessum hópi sem ég umgekkst á þessum tíma. Þetta voru ekki vondar manneskjur, en fordómar voru almennir og miklir og ég hafði ekki kjark til að vera ég sjálfur með þeim.”

LEIKARINN SEM GLEYMDI SJÁLFUM SÉR

Inga voru boðnir skólastyrkir við háskóla vestanhafs en hann hafnaði þeim öllum, enda treysti hann sér ekki lengur til að lifa því lífi sem hann lifði. Hann tók algjörlega nýja stefnu í lífinu og sagði með öllu skilið við sundið: “Ég fékk vinnu sem flugþjónn hjá Flugleiðum. Á þessum tíma voru löng stopp erlendis, oft 4–5 dagar í senn sem ég notaði, og öll vetrar- og sumarfrí, sem tækifæri til að læra á sjálfan mig og komast að því hver ég væri. Ég hafði algjörlega misst af ákveðnum andlegum þroska vegna alls þess sem ég lokaði inni. Líf mitt hafði bara gengið út á að ná prófum og bæta mig í sundi. Það var allt mitt líf, og baráttan við að vera ekki sá sem ég er. Ég staðnaði andlega 14–15 ára.”

Ingi segist hafa uppgötvað nýjar hliðar á sjálfum sér árin fjögur sem hann starfaði hjá Flugleiðum. “Ég uppgötvaði hluta af sjálfum mér og uppgötvaði líka að ég gat ekki lengur búið á Íslandi. Þar vissu svo margir hver ég var og í þeirra augum var ég þessi mikla íþróttahetja. Ég gat einhvern veginn ekki skilið mig frá þeirri ímynd og því var eina ráðið fyrir mig að flytja úr landi og reyna að finna Inga Þór þar. Ég hafði auðvitað ekki hugmynd um það þá, en ég skil í dag af hverju ég gerði þessa hluti.”

Ingi innritaðist í leiklistarskóla í Lundúnum þar sem hann nam í þrjú ár: “Þetta var einhver stórkostlegasti tími sem ég hef upplifað. Þar hitti ég fólk sem enn þann dag í dag eru mínir bestu vinir og kynntist manni sem átti eftir að verða samferða mér í níu ár. Ég útskrifaðist og byrjaði að leika í sjónvarpi, leikhúsum og auglýsingum. Þetta voru ekki stór hlutverk en nóg til að lif
a af og uppgötva nýja hluti. En um leið ekki, því ég var aðeins kominn í nýtt hlutverk. Þessi Ingi Þór sem hafði týnst sem unglingur var ekki enn kominn í leitirnar þó að ég gerði mér ekki grein fyrir því þá.”

Dauðinn kvaddi dyra í lífi Inga þegar elskhugi hans greindist með HIV-veiruna. Hann veiktist fljótlega eftir það af alnæmi og vildi frekar vera heima en á spítala. "Ég sneri baki við leiklistinni, var heima í þrjú ár og annaðist hann til dauðadags. Hann dó 1997.”

LEIÐIN TIL MANCHESTER

“Ég hafði tíma til að búa mig undir dauða hans og við höfðum mikið rætt hvað myndi gerast þegar hann væri horfinn. En maður veit aldrei hvernig maður bregst við þegar dagurinn rennur upp. Ég bregst þannig við að fara enn og aftur að leita að nýjum leiðum í lífinu: Ég opna veitingahús í Lundúnum og hleyp þannig burtu frá sorginni í fjögur ár. Þá lendi ég í leiðindamálum með peninga með manninum sem ég bjó með og sé mér þann kost vænstan að selja allt mitt og flytja til Manchester. Fer enn einu sinni af stað til að reyna að finna aftur strákinn frá Akranesi sem týndist einhvers staðar á leiðinni. Ég fæ vinnu hjá Atlanta, kaupi mér íbúð í miðborg Manchester og fæ ráðrúm til að gera upp sorgina, gera upp við framtíðina, sjá hvað það væri sem ég vildi. Það er þá sem ég fór loks að sjá hver hann er, þessi Ingi Þór.”

Ár líður og Ingi kynnist hópi í Manchester – íþróttafélagi homma og lesbía. Þau bjóða honum að koma á æfingu án þess að vita nokkuð um fyrri afrek hans. “Ég er með ólympíuhringina húðflúraða á handleggnum og ákvað að setja plástur yfir, en það dugði ekki til því að þegar ég mætti á æfingu kom strax í ljós að ég var miklu betri en allir hinir,” segir Ingi og hlær.

STINGUR SÉR Í LAUGINA

“Ég uppgötva þennan stórkostlega hóp. Tólf hundruð manns taka þátt í íþróttum og spreyta sig í keppnum um allan heim. Þau þrýsta á mig að koma með en ég er tregur til, enda gat ég ekki hugsað mér að keppa aftur. Nema hvað, í júní 2004 komst ég að því að Evrópuleikar homma og lesbía áttu að fara fram í München og að sundkeppnin fór fram í sömu laug og ameríska sundhetjan Mark Andrew Spitz hafði unnið söguleg sjö gullverðlaun á Ólympíuleikunum 1972. Það voru liðin tuttugu ár frá því ég synti í Los Angeles og nú var rétti tíminn til að stinga sér í keppni aftur.”

Skemmst er frá að segja að Ingi Þór skráir sig í sex greinar og vinnur jafnmörg gullverðlaun, en hin raunverulegu verðlaun reyndust vera miklu stærri: “Fyrsta greinin var 100 metra baksund. Þegar verðlaunin voru afhent var það Mark Tewksbury sem færði mér medalíuna.” Mark þessi er með fremstu sundmönnum heims og vann gull og brons á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992. Árið 1998 var hann fyrstur kanadískra íþróttamanna til að stíga stoltur fram sem hommi. “Það var á því augnabliki að ég uppgötvaði ég að ég var ekki einn í heiminum. Þá breyttist allt.”

Ingi sneri sigurreifur til Manchesterborgar þar sem hann var heiðraður fyrir þann sóma sem hann hafði sýnt borginni á mótinu. “Ég byrja að starfa með hópum í Manchester og ákveð að nú sé kominn tími til að gefa eitthvað af mér aftur til samfélagsins.”

LEIFTURSÓKN GEGN FORDÓMUM

Í rúmt ár hefur Ingi unnið á vegum Manchesterborgar og bresku ríkisstjórnarinnar að æskulýðsstarfi og baráttunni gegn fordómum. Ingi vinnur mikið með skólum þar sem hann kynnir krökkunum hvað það er að komast á Ólympíuleikana – hvað það kostar og hvað þarf að gera. Hann vinnur líka hörðum höndum með breska fótboltasambandinu að átaki gegn hómófóbíu í þeirri íþrótt.

Fyrir starf sitt og afrek var Inga Þór boðið að sækja ráðstefnu sem Samtökin ’78 héldu á dögunum um fordóma í garð samkynhneigðra innan íslenska íþróttasamfélagsins. “Þar var saman komið fólk frá Íþróttasambandinu, fólk frá ráðuneytum og stjórnmálaflokkum, og ekki hvað síst fólk sem var með mér á Ólympíuleikunum og kom til að styðja mig. Það skipti mig miklu máli að sjá hversu opin umræðan var og hvað fólk gerði sér vel grein fyrir að hlutirnir þyrftu að breytast. Mest þótti mér vænt um þegar Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ tók til máls og sagði: “Ingi Þór Jónsson er einn af okkar bestu sonum og það breytir engu þar um að hann er hommi.””

“Þetta var mikil gjöf frá honum, ekki bara fyrir mig heldur fyrir okkur öll sem erum í sömu aðstöðu. Það sem ég hef séð, heyrt og gert á Íslandi í tengslum við þessa ráðstefnu er eitthvað það jákvæðasta sem ég hef upplifað. Við Íslendingar erum ekki komin miklu lengra en margir aðrir, en við erum svo jákvæð og upplýst. Umfram allt erum við einlægir stuðningsmenn hvert annars.”

INGI ÞÓR FUNDINN

Ingi Þór horfir bjartsýnn fram á veginn og er kannski loksins búinn að finna drenginn sem varð eftir við sundlaugarbakkann á Akranesi. “Ég gerði mér auðvitað ekki grein fyrir því fyrr en seinna af hverju ég var svona kvalinn. Ég var kominn svo langt inn í skelina að það tók mig mörg &aacut
e;r að átta mig á af hverju þetta væri svona vont. Það var ekki fyrr en ég byrjaði gagngert að vinna í þessum málum að ég fór að kynnast þessum Inga Þór og láta mér þykja vænna um hann. En það sem mér þykir hvað vænst um í dag er að geta farið að tengjast Íslandi aftur. Ég hef forðast Ísland í átján ár. Núna finnst mér ég geta komið heim, ég vil vinna að góðum málum og gefa til baka svo að aðrir þurfi ekki að ganga í gegnum það sem ég sjálfur gekk í gegnum.”

MÖRG VERKEFNI FRAMUNDAN

Ingi Þór er með mörg járn í eldinum. Hann setti á laggirnar hópinn Out Proud Olympians Family, sérstaklega ætlaðan samkynhneigðum afreksíþróttamönnum. “Hópurinn er ætlaður samkynhneigðu fólki sem keppt hefur á Ólympíuleikunum. Og um leið viljum við vera stuðningshópur fyrir ungt fólk svo því sé kleift að njóta þess sem við gátum ekki notið.”

Ingi er sendiherra Evrópu fyrir Out Games heimsleikana í Montreal 2006 og tekur í auk þess þátt í mannréttindaráðstefnu Sameinuðu .jóðanna á næsta ári: “Umræðan er mikið farið að snúast um samkynhneigð í samhengi mannréttinda. Það hefur aldrei verið rætt um það sem hreint og klárt mannréttindamál að fólk eigi rétt á að vera samkynhneigt. Til ráðstefnunnar er boðið fólki frá ýmsum löndum, janvel löndum þar sem samkynhneigð varðar dauðarefsingu. Ég á von á að margt merkilegt eigi eftir að gerast í sumar.”

Copyright © Ásgeir Þ. Ingvarsson 2005

Leave a Reply