Skip to main content
search
Uncategorized

Málþing um Lýðheilsu

By 15. janúar, 2008No Comments

Þann 3. nóvember 2007 var haldið málþing um lýðheilsu í ráðstefnusal Lauga í Laugardal.  Á málþinginu var lýðheilsa rædd frá ýmsum hliðum en lýðheilsa snýr að því að viðhalda og bæta heilsu, líðan og aðstæður þjóða og þjóðfélagshópa með almennri heilsuvernd,  heilbrigðisþjónustu, heilsueflingu, rannsóknum og samfélagslegri ábyrgð.

Þeirri spurningu var varpað fram hvort samkynhneigðir séu hópur sem huga þurfi sérstaklega að lýðheilsumálum Íslendinga og ef svo er hvaða aðferðir séu árangursríkastar til þess að ná til hópsins með tilliti til forvarna og annarar þjónustu heilbrigðiskerfisins. Ráðstefnan var hin áhugaverðasta en erindi fluttu Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra, Ingi Rafn Hauksson formaður Alnæmissamtakanna,  Haraldur Briem sóttvarnarlæknir, Héðinn Unnsteinsson sérfræðingur, Þórarinn Tyrfingsson yfirlæknir SÁÁ,  Jakobína H. Árnadóttir frá Lýðheilsustöð og Sigrún Sveinbjörnsdóttir sálfræðingur.

Samkynhneigðir meta heilsu sína lakari

Heilbrigðisráðherra kynnti athyglisverðar niðurstöður nýrrar rannsóknar meðal íslenskra ungmenna. Í rannsókninni kom fram marktækur munur milli samkynhneigðra ungmenna og gagnkynhneigðra jafnaldra þeirra þegar spurt var um líkamlega og andlega heilsu en samkynhneigð ungmenni mátu hana talsvert lakari. Þá leita samkynhneigð ungmenni ríflega helmingi oftar til geðlækna eða sálfræðinga en gagnkynhneigðir jafnaldrar þeirra. Þessar niðurstöður eru að mörgu leiti í takt við aðrar sambærilegar rannsóknir og sú staðreynd að samkynhneigð ungmenni leiti sér oftar aðstoðar en gagnkynhneigðir jafnaldrar þeirra er að mörgu leiti jákvætt í ljósi þess að sjálfsvígstilraunir og sjálfsvíg meðal þessa hóps eru tvisvar til fimm sinnum algengari.  

Lýðheilsa Lýðheilsa

Ósýnileikinn alvarlegur áhættuþáttur

Sigrún Sveinbjörnsdóttir sálfræðingur flutti mjög áhugavert erindi um heilbrigði samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender fólks sem þjóðfélagshóps og helstu verndar- og áhættuþætti. Sigrún fjallaði meðal annars um ósýnileika hinsegin fólks og ráðandi gagnkynhneigðarviðmið eins og þau birtast í samfélaginu og ekki síst í námsefni skólanna.

Lýðheilsa

Í því felst að lang oftast er gengið útfrá gagnkynhneigð sem hinu eðlilega og talað er um samkynhneigð sem frávik eða vandamál. Ósýnileikinn eins og hann endurspeglast í námsefni er þannig  alvarlegur umhverfistengdur áhættuþáttur sem ógnar lýðheilsu samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender fólks. Því er mikilvægt að efla vitund og færni fagfólks, samhliða því að endurskoða námsefni skólanna.

Pistillinn birtist fyrst í Fréttabréfi Samtakanna '78 í janúar 2008

Leave a Reply