Skip to main content
Fréttir

Mannréttindaviðurkenningar Samtakanna 78

By 29. júní, 2010No Comments

Á Regnbogahátíð í Fríkirkjunni sunnudaginn 27. júní sl. veitti stjórn Samtakanna ´78 viðurkenningar vegna framlags einstaklinga, fyrirtækja eða stofnanna til mannréttinda og jafnréttis. Að þessu sinni hlutu viðurkenningu hópur presta, djákna og guðfræðinga sem starfa á vettvangi kirkjunnar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og borgarstjóri og Þorvaldur Kristinsson, bókmenntafræðingur og fyrrverandi formaður Samtakanna 78 sem talaði til gesta eins og honum einum er lagið. Þorvaldur sagði m.a.

…”Lífsbaráttunni lýkur aldrei og sú barátta sem nú er fram undan verður ekki síður flókin en sú sem við höfum að baki. Það er baráttan fyrir því að varðveita sérstöðu okkar. Meirihlutanum virðist aldrei líða fyllilega vel nema honum takist að fella lífsstíl og framkomu annarra að sínum eigin stíl og sínu eigin gildismati. Sá réttur til fjölskyldulífs, sem við nú höfum unnið til fulls, er ómissandi forsenda þess að geta lifað og dafnað sem frjálsar manneskjur, en allar þessar réttarbætur mega aldrei verða til þess að við gleymum sérstöðu okkur, að við gleymum hvað það merkir að vera hinsegin. Þess vegna segi ég: Ræktið þann góða og fallega öfugugga sem býr í sál ykkar allra og verið óhrædd við að beita þessum ugga á sundi ykkar gegnum lífið. Ég á þá ósk ykkur til handa að þið megið taka virkan þátt í samfélagi manna hvern einasta dag og njóta þeirrar mannvirðingar sem öllum ber, hvar sem þið komið og hvert sem þið farið. En gleymið því aldrei hvað það er dýrmæt gjöf að vera hinsegin og horfa á heiminn hinsegin augum. Megið þið eignast kraft og anda til að miðla þessu sérstaka augnaráði til annarra manna, kenna þeim að sjá veröldina frá því sjónarhorni sem móðir náttúra færði okkur hinsegin fólki í vöggugjöf af sínum alkunna rausnarskap…”

Áður hafa á vettvangi Samtakanna ´78 verið heiðraðir þeir sem sátu í fyrstu stjórn félagsins, þeir Guðni Baldursson, Heimir Jónsson og Þórir Björnsson, auk þeirra Harðar Torfasonar og Sjafnar Helgadóttur fyrir brautryðjendastarf í þágu samkynhneigðra á Íslandi. Margrét Pála Ólafsdóttir, Böðvar Björnsson, Heimir Már Pétursson, Guðrún Ögmundsdóttir, séra Bjarni Karlsson, Birna Þórðardóttir, Reykjavíkurborg, Siðmennt og Fríkirkjan.

Leave a Reply