Skip to main content
AlþjóðamálFréttirMálefni intersex fólksTilkynning

Mannréttindi intersex fólks: Ný nálgun til framtíðar

By 8. febrúar, 2018maí 27th, 2020No Comments
Hinsegin málefni voru í fyrsta sinn til umfjöllunar í stjórnarsáttmála Íslands árið 2017 með sérstakri áherslu á réttindi intersex fólks.
 
Málþingið Mannréttindi intersex fólks: Ný nálgun til framtíðar leitast við að varpa ljósi á stöðuna á Íslandi í dag, þær framfarir sem nú eiga sér stað í málefnum intersex fólks víðs vegar um heim og hvaða aðgerða sé þörfhér á landi til að fulltryggja mannréttindi intersex fólks.
 
Sérstakir gestir á málþinginu verða:
 
  • Piet de Bruyn, skýrslugjafi Evrópuráðsins um réttindi hinsegin fólks (e. General rapporteur on the rights of LGBTI people) og höfundur skýrslu ráðsins um mannréttindi intersex fólks.
  • Ruth Baldacchino, formaður ILGA-World, alþjóðasamtaka hinsegin fólks og stjórnandi intersex mannréttindasjóðs Astraea – Réttlætissjóðs lesbía. Hán lék lykilhlutverk í setningu fremstu löggjafar í heimi um réttindi trans og intersex fólks sem var lögfest á Möltu árið 2015.
  • Laura Carter, rannsakandi og sérfræðingur í hinsegin málefnum hjá Amnesty International. Hún vann skýrslu Amnesty „First, Do No Harm“ um stöðu intersex fólks í heilbrigðiskerfum Danmerkurog Þýskalands.
 
Undanfarna hálfa öld hefur fólk með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni verið látið sæta róttækum og oft óafturkræfum inngripum s.s. skurðaðgerðum og hormónameðferðum til að laga kyneinkenni þeirra að væntingum um dæmigert útlit og form. Oft eru inngripin framkvæmd á ungabörnum sem geta ekki tekið þátt í ákvörðuninni þrátt fyrir að bið myndi ekki stefna líkamlegri heilsu þeirra í hættu. Leyndarhyggja var viðtekin venja innan læknastéttarinnar og intersex fólki var ráðlagt að ræða ekki breytileika sinn. Á árum áður var fólki jafnvel ekki sagt frá eigin breytileika.
 
Á síðustu árum hefur þó orðið mikill viðsnúningur hérlendis samhliða vitundarvakningu á erlendri grund. Nefndir Sameinuðu þjóðanna hafa beint tilmælum til margra samanburðarlanda okkar um að núverandi meðferðarform á intersex börnum brjóti gegn samningi SÞ gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð og samningi SÞ um réttindi barnsins. Mannréttindasamtök á borð við Amnesty International og Human Rights Watch hafa gefið út skýrslur byggðar á rannsóknum sínum á högum intersex fólks þar sem glöggt kemur fram að breytingar innan læknisfræðinnar hafa verið litlar og einna helst tæknilegs eðlis. Sérfræðingar í heilbrigðisvísindum þ.á.m. þrír fyrrum landlæknar Bandaríkjanna hafa lagst opinberlega gegn viðteknum meðferðarvenjum. Þá hefur þing Evrópuráðsins beint þeim tilmælum til fjölda ríkja, Íslands þeirra á meðal, að tryggja mannréttindi og líkamlega friðhelgi intersex fólks með viðunandi hætti.  
 
Malta varð árið 2015 fyrst ríkja til að lögfesta líkamlega friðhelgi intersex fólks, þ.m.t. barna, og sambærileg vinna er hafin víðar í Evrópu, s.s. í Belgíu, Bosníu og Hersegóvínu, Grikklandi, Noregi og á Íslandi.
 
Mikið verk er fyrir höndum hérlendis til þess að tryggja grundvallarrétt intersex fólks til líkamlegrar friðhelgi og mun málþingið skoða hvar við erum stödd í dag og til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að komaÍslandi í fremstu röð í þessum málaflokki.
 
Málþingið fer fram laugardaginn 17. febrúar í háskólabyggingunni Öskju í stofu 132 og stendur yfir frá12:00-16:00.
 
Málþingið er ætlað öllum þeim er láta sig málefni intersex fólks varða og þá sérstaklega málefni intersex barna. Eru því alþingisfólk, heilbrigðisstarfsfólk, starfsfólk skóla og leikskóla og öll þau er vinna meðeinhverju móti að hag og réttindum barna boðin sérstaklega velkomin.
 
Að málþinginu standa: 
 
 
Samtökin 78 – félag hinsegin fólks á Íslandi
 

Leave a Reply