Skip to main content
search
Uncategorized

Mannréttindi transfólks

By 21. apríl, 2009One Comment

Góðu áheyrendur. Ég er transkona en ég er engu að síður kona, rétt eins og t.d. svartar konur eru konur. 

Ég skil orðið kynvitund þannig að það á við djúpstæða innri tilfinningu sérhverrar manneskju og einstaklingsbundna upplifun hennar á kyni, sem getur samsvarað eða verið andstæð því kyni sem hún var talin hafa við fæðingu. Eitt af vandamálum transfólks á Íslandi, hefur verið að við höfum ekki átt íslensk orð yfir þessi hugtök sem eru vel þekkt í öðrum tungumálum.

Vandamál transfólks eru nátengd vandamálum samfélagsins og vandamál samfélagsins eru vandamál transfólks. Kynjamisrétti er vandamál transfólks því transfólki er mismunað eftir kyni. Kynþáttahatur er vandamál transfólks, því transfólki er mismunað eftir lit og lögun húðarinnar.  Steinn Steinarr lýsir þessu svo vel í síðustu tveimur línum ljóðsins Heimurinn Og Ég: því ólán mitt er brot af heimsins harmi og heimsins ólán býr í þjáning minni.

Stigmögnun mismununar

Mismununin stigmagnast eftir því sem fólk tilheyrir fleiri minnihlutahópum. Þetta kom fram í máli Þorgerðar Einarsdóttur á málþingi um jafnréttismál í HÍ fyrir stuttu síðan. Misrétti kemur því harðar niður á fólki sem það er í fleiri félagslegum jaðarhópum. Í Bandaríkjunum er tíu sinnum líklega að manneskja verði myrt ef hún er transgender, en ef hún er ekki transgender. Í skýrslu Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna um mansal, barnavændi og barnaklám 2004   , var tekið fram að sú mikla mismunun sem ungt transgender fólk verður fyrir, setur þau meðal viðkvæmustu og jaðarsettustu ungmenna samfélagsins.

Jafnréttisbarátta transfólks, er háð um líf okkar og líkama. Þessi jafnréttisbarátta er okkar líf, rétt eins og Nelson Mandela komst svo vel að orði: “The Struggle Is My Life”.  Til að bæta réttindi transfólks, hefur félagið Trans Ísland einna helst beitt Mannréttindasáttmála Evrópu, og þarnæst Jafnræðisreglu og Meðalhófsreglu Stjórnsýslulaga, en einnig Samningi um Borgaraleg og Stjórnmálaleg Réttindi. Jafnréttislög hafa verið handónýt í þessari baráttu.

Fyrrverandi Dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, tafði verulega réttindabaráttu Transfólks þegar hann taldi íslenski lög um mannanöfn standa í vegi fyrir því að sumar transkonur fengju kvenmannsnöfn og sumir transkarlar fengju karlmannsnöfn. Með nýjum dómsmálaráðherra er komið á daginn, að nafnalögin voru í raun ekki vandamálið heldur skortir pólítískan vilja til að viðurkenna mannréttindi transfólks til að lifa samkvæmt sinni kynvitund. Það er ennþá skortur á þessum pólítíska vilja.

Yogyakarta grundvallarreglurnar 

Árið 2007 kom saman nefnd í borginni Yogyakarta í Indónesíu og voru það 29 af helstu mannréttindasérfræðingum heims og settu fram þær 29 grundvallarreglur sem eru nú þekktar sem Yogyakarta grundvallarreglurnar.  Þessar grundvallarreglur taka sérstaklega fyrir túlkun mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna hvað varðar kynhneigð og kynvitund. Það yrði mikil framför fyrir allt hinsegin fólk, ef við Íslendingar tækjum upp þó ekki væri nema brot af þessum grundvallarreglum og sýndum þannig pólítiskan vilja okkar í þessum efnum.

Í formála grundvallarreglnanna segir nefndin:

  • Við minnumst þess að allar mannlegar verur eru fæddar frjálsar og jafnar að göfgi og réttindum og að sérhver mannleg vera á kröfu til að njóta mannréttinda án nokkurrar aðgreiningar svo sem vegna kynþáttar, húðlitar, kynferðis, tungumáls, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, uppruna þar á meðal félagslega og þjóðernislega, eigna, fæðingar eða vegna annarrar stöðu. Okkur er brugðið við að ofbeldi, áreiti, mismunun, útilokun, smánun og fordómar grafa undan heilindum og göfgi þeirra sem beitt eru þessu, geta veikt sjálfsvirðingu þeirra og tengingu þeirra við sitt samfélag og getur leitt margt fólk út í að fela hver þau eru í raun eða bæla það niður og út í að lifa í ótta og ósýnileika. 

Við tökum upp eftirfarandi grundvallarreglur (nú vil ég lesa upp 3 af þessum 29 grundvallarreglum en þær eru rétturinn til viðurkenningar að lögum, rétturinn til einkalífs, og rétturinn til að stofna fjölskyldu):

Grundvallarregla 3: Rétturinn til viðurkenningar að lögum:

  • Sérhver hefur réttinn til viðurkenningar hvar sem er sem persóna að lögum. Persónur af ýmsum kynhneigðum og kynvitundum skulu njóta njóta rétthæfis á öllum sviðum lífsins. Sjálfskilgreind kynhnneigð og kynvitund hverrar manneskju er óaðskiljanlegur hluti af persónuleika hennar og eru alger grundvallaratriði sjálfsákvörðunar, göfgi og frelsi. Enginn skal nauðugur sæta læknismeðferð, þar með talið aðgerð til leiðréttingar á kyni, ófrjósemisaðgerð eða kynhormónameðferð, sem skilyrði fyrir viðurkenningu að lögum á kynvitund sinni. Ekki má skírskota til neinnar stöðu, eins og hjónabands eða foreldrahlutverks, til að koma í veg fyrir viðurkenningu að lögum á kynvitund persónu. Engann má beita þrýstingi til að fela, bæla eða afneita kynhneigð eða kynvitund sinni. 

Grundvallarregla 6 Rétturinn til einkalífs:

  • Sérhver, án tillits til kynhneigðar eða kynvitundar, á rétt til að eiga einkalíf sitt &
    aacute;n geðþóttaafskipta eða ólöglegra afskipta, þar með talið, hvað varðar fjölskylduna, heimili, samskipti ásamt vernd gegn ólöglegum árásum á heiður eða mannorð. Rétturinn til einkalífs innifelur venjulega val um að gefa eða gefa ekki upplýsingar varðandi kynhneigð eða kynvitund, ásamt ákvörðunum og vali varðandi eigin líkama og samþykkt kynferðisleg og annarskonar sambönd við aðra. 

Grundvallarregla 24 Rétturinn til að stofna fjölskyldu:

  • Sérhver hefur réttinn til að stofna fjölskyldu, óháð kynhneigð eða kynvitund. Fjölskyldur eru til á ýmsum myndum. Enga fjölskyldu má beita mismunun á grundvelli kynhneigðar eða kynvitundar nokkurs fjölskyldumeðlims.

Góðir áheyrendur, vegna tvískiptra hjúskaparlaga, þarf transfólk að fá skilnað frá núverandi maka sínum þegar kyni þeirra er breytt í þjóðskrá úr karli í konu eða úr konu í karl.  Þetta góðu áheyrendur þarf að lagfæra.

Vefheimildir

Sonia Onufer Corrêa, Vitit Muntarbhorn og f.l. (2007). THE YOGYAKARTA PRINCIPLES.  Principles on the application of international human rights law in relation to sexual orientation and gender identity. Sótt 10. april 2009 af http://www.yogyakartaprinciples.org/principles_en.pdf
Steering Committee of TransGender Europe (2008). Revision of the DSM/ICD.  Sótt 20. april 2009 af http://www.tgeu.org/readarticle.php?article_id=14

© Anna Jonna Ármannsdóttir 2009. Ræða flutt á stjórnmálafundi í Samtökunum 78, Reykjavík, 20. apríl 2009

One Comment

Leave a Reply